Landsbankinn segist hafa afskrifað 219 ma.kr. hjá fyrirtækjum og einstaklingum en það sést ekki í reikningum

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 14.9.2011. Efnisflokkur: Afskriftir, Svindl og svik

Þá er þriðji bankinn kominn með árshlutauppgjör fyrir fyrri hluta ársins.  Eins og uppgjör Arion banka og Íslandsbanka III. hafi ekki gengið fram af skuldahoknum almúga þessa lands, þá gerir "bankinn minn" ennþá betur.  Litlar 24,4 ma.kr. í hagnað.

Bankastjórinn er með eitthvað samviskubit yfir þessari afkomu og ber fyrir sig gengishagnað hlutabréfa og sölu eigna.  En er það satt?  Samkvæmt fréttatilkynningu frá bankanum hagnaðist hann um ríflega 34 ma.kr. á vaxtamun.  Í tilkynningunni segir að "vaxtamunur af meðalstöðu heildareigna" hafi verið 3,1% og síðan kemur í ljós að heildareignir 30. júní voru 1.126 ma.kr. miðað við 1.081 ma.kr. í ársbyrjun.  Tökum 3,1% af meðaltali þessarra talna og þá fást 34,2 ma.kr.  Þannig að vaxtamunurinn skapaði fyrst og fremst hagnaðinn, þó svo að hitt hafi lagt eitthvað til.

Áhugaverðast finnst mér í fréttatilkynningunni klausan um að bankinn hafi afskrifað skuldir fyrirtækja um 206 ma.kr.  Nú hef ég skoðað ársreikninga bankans fyrir 2008, 2009 og 2010 og árshlutareikninginn sem birtur er í dag.  Hvergi í þessum skjölum er nokkur vottur af þessum afskriftum.  Ef þær eru þarna, þá hafa menn falið eitthvað annað á móti, því 206 ma.kr. hverfa ekki út úr eignasafni bankans án þess að þess verði vart nema öðru hafi verið laumað á móti.  Á þessu eru ekki nema tvær skýringar:

1.  Hér er enn einn sýndarleikurinn með afskriftir sem í raun og veru voru framkvæmdar í hrunbankanum.

2.  Lánin voru fyrst færð upp um 206 ma.kr. áður en þau voru færð niður um 206 ma.kr.

Ég kann eitt og annað um bókhald, þó ég hafi ekki vit á "stórfyrirtækjasýndarbókhaldi".  Í venjulegu bókhaldi, þá ber að færa til tekna óreglulega fjármagnsliði svo sem endurmat eigna til hækkunar og til gjalda sambærilegt endurmat til lækkunar ásamt beinum afskriftum.  Ef þessir liðir eru skoðaðir í reikningum Landsbankans, þá segir í þessum nýja árshlutareikningi á bls. 9:

Net adjustments to loans and advances acquired at deep discount (nettó breytingar á lánum og kröfum fengnar með miklum afslætti) 12,986 ma.kr., þ.e. bankinn viðurkennir að hafa fengið "loans and advances" með miklum afslætti og hafa fært þetta upp um tæpa 13 ma.kr. á fyrstu 6 mánuðum ársins.  Vissulega væri hægt að fela 206 ma.kr. bak við nettótölu, en þá væri bankinn að viðurkenna að þessir 206 ma.kr. væru tilkomnir vegna endurmats á lánum sem fengin voru með miklum afslætti.  Einnig væri einstaklega heimskulegt að færa 206 ma.kr. til tekna bara til að afskrifa þá í næstu bókhaldsfærslu.  Hvernig sem þetta var gert, þá lítur þetta út fyrir að vera enn eitt leikritið.  Skoðum þetta svo í samspili við svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þór Þórðarsonar sem birt var í gær.  Þar er að vísu verið i orðaleik, en skítt með það.  Samkvæmt svarinu tók bankinn við útlánum til fyrirtækja að "gangvirði" 497 ma.kr. og útlánum til einstaklinga að "gangvirði 158 ma.kr. eða alls 661 ma.kr.  Nú eigum við að trúa því, að þessi lán, sem stóðu 30. júní í 653 ma.kr., hafi verið afskrifuð um 219 ma.kr. vegna aðgerða bankans án þess að þess sjáist nánast nokkur merki í uppgjörinu.

Ég segi að þess sjáist nánast engin merki.  Í skýringu 11 á bls. 19 um "Loans and advances to customers" er fjallað um hvernig talan 653 ma.kr. er fengin.  Hún fæst með því að leggja saman útistandandi lán hjá opinberum aðilum (11,8 ma.kr.), einstaklingum (186,2 ma.kr.) og fyrirtækjum (478,9 ma.kr.) og draga frá liðinn "Less:  Allowance for impairment" upp á 23,7 ma.kr.  Sé þessi liður skoðaður aftur í tímann, þá er hann 21,1 ma.kr. í lok árs 2010 og 7,8 ma.kr. í lok árs 2009.

Sá sem ætlar að afskrifa 206 ma.kr. af lánum fyrirtækja eða hvorki meira né minna en rúmlega tífaldan rekstrarkostnað síðasta árs, hann minnist á það með ítarlegum hætti í árshlutareikningi eða a.m.k. ársreikningi.  Sérstaklega þegar viðkomandi aðili fullyrðir að notast sé við viðurkenndar, alþjóðlegar reikningsskilavenjur.  Annað væri hreinlega ófagleg vinnubrögð.

En höldum áfram með skýringarnar.  Skýring 30 á bls. 29 er um "allowance for impairment on loans and advances to financial institutions and customers".  Þar er m.a. minnst á afskriftir á fyrri helmingi ársins.  Nú hélt ég að 13 ma.kr. af lánum einstaklinga myndu dúkka upp, en svo er nú aldeilis ekki.  Heilir 2 ma.kr. voru afskrifaðir af lánum viðskiptavina.  Hér er ekkert verið að tala um "nettó" heldur er um verga tölu að ræða, þannig að hafi 13 ma.kr., 206 ma.kr. eða samtalan 219 ma.kr. verið afskrifaðar, þá ætti talan að standa þarna í öllu sínu veldi.  Nei, 2,012 ma.kr. stendur þarna og fyrir árið 2010 er talan 0.  Já, eitt stór NÚLL.  Raunar segir í ársreikningi fyrir 2010 að bankinn hafi náð að innheimta 177 m.kr. af áður afskrifuðum lánum.

Nú skora ég á Landsbankann að gera hreint fyrir sínum dyrum.  Hvar er upplýsingar um framangreindar afskriftir að finna í reikningum bankans?  Hvenær fóru þessar afskriftir fram?  Hvers vegna var mismunurinn á meintu bókfærðu virði og "gangvirði" ekki fært á viðeigandi hátt í reikningum félagsins, fyrst bankinn eignar sér að hafa afskrifað hjá viðskiptavinum lán sem metin voru 0 að gangvirði?  Fróðlegt væri ef hinir bankarnir vildu einnig svara þessum spurningum.


Færslan var skrifuð við fréttina: 24,4 milljarða hagnaður