Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 4.6.2011.
Morgunblaðið fjallar í dag um gjörbreyttar upplýsingar um erlendar skuldir þjóðarbúsins. Seðlabanki Íslands gaf í vikunni út ársfjórðungslegar upplýsingar um erlenda stöðu þjóðarbúsins og er óhætt að segja að heldur líti þetta verr út en áður. Í frétt bankans segir m.a.:
Gerð hefur verið breyting á framsetningu á stöðu þjóðarbúsins án innlánsstofnanna í slitameðferð með því að telja beina erlendra fjármunaeign með eignum þeirra. Það hefur ekki verið mögulegt fyrr m.a. vegna skorts á nákvæmum upplýsingum og flókins utanumhalds um erlendar fjárfestingar. Vegna þessa teljast eignir þeirra hærri en áður hefur verð sett fram hér. Það hefur þau áhrif að erlend staða þjóðarbúsins án innlánsstofnanna í slitameðferð telst verri sem nemur beinni fjármunaeign þeirra.
Heldur er þetta hógvært hjá bankanum miðað við að breytingin sem þar hefur orðið er all svakaleg. Ég skil að vísu ekki allar breytingarnar hjá bankanum, þ.e. þær koma hist og her. Þannig hafa erlendar eignir verið lækkaðar mikið (15-24%) fyrir allt árið 2009 og fram á 3. ársfjórðung 2010, en á 4. ársfjórðungi 2010, þá eru það skuldirnar sem hækka verulega (10,7% í stað mest 1,7%) meðan breyting á eignum er bara 3,5%. Ég get ekki gert af því, en þessar tölur eru ekki að meika sens.
Mér finnst þessi mikli munur sem er á tölum Seðlabankans núna og fyrir þremur mánuðum vera með ólíkindum. Hvers konar trúverðugleika hefur bankinn eftir svona kúgvendingu í tölum? Það er ekki skýring að ekki hafi verið hægt að reikna þetta áður vegna skorts á upplýsingum. Hagtölum fyrir 30 mánaðatímabil er nánast snúið á hvolf og það er ekki einu sinni undirmálsgrein í excel-skjali bankans um breytinguna. Í frétt bankans er nánast ekkert fjallað um þessa kúgvendingu, en ég hefði haldið að þetta kallaði á ítarlega greinargerð, þar sem skýrt er nákvæmlega hvers vegna hrein staða við útlönd án innlánsstofnana í slitameðferð er núna talin, svo dæmi sé tekið, 140% verri í árslok 2009 en hún var í sambærilegum upplýsingum bankans fyrir þremur mánuðum og að um síðustu áramót sé hún allt í einu talin 90% verri en fyrir þremur mánuðum.
Hér fyrir neðan eru upplýsingar úr excel-skjölum Seðlabankans fyrir erlenda stöðu þjóðarbúsins. Bornar eru saman tölur úr skjölum gefnum út 2. mars 2011 og 1. júní 2011.
Afslættir, betri innheimtur og greiðslur til hrunbankanna
Finnist fólki þessi staða vera alveg nógu slæm, þá getur hún hæglega versnað. Fjármálaráðherra upplýsti t.d. um daginn að gerður hafi verið samningur um að ríflega 215 ma.kr. gætu runnið til hrunbankanna frá nýju kennitölunum þeirra, ef þær væru duglegar að rukka stökkbreytt lán og ósvífnar kröfur. Já, erlendar skuldir þjóðarbúsins munu hækka sem nemur betri innheimtum lánanna, en gert var ráð fyrir í flutningi þeirra við endurreisn bankakerfisins. Nú verði nýju bankarnir mjög duglegir, þá geta þeir tæmt gjaldeyrisforða þjóðarinnar. Kaldhæðnislegt, ekki satt?
Ég hef verið nokkuð ötull við að benda á þessar staðreyndir (og Morgunblaðið líka), en fáir innan stjórnsýslunnar og enn færri innan stjórnarflokkanna hafa séð ástæðu til að taka mark á þessu. Nú hefur Seðlabankinn áttað sig á þessu. Næst er að vita hve langan tíma mun það taka menn að átta sig á því, að hver króna sem Íslandsbanki, Landsbankinn og Arion banki innheimta af lánum viðskiptavina umfram það sem gengið var út frá við gerð stofnefnahagsreiknings þeirra mun vinna gegn styrkingu efnahagslífsins og þá sérstaklega krónunnar.