Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 4.6.2011.
Þekking nútímamannsins um landnám Íslands er byggð á tveimur ritum, þ.e. Landnámu og Íslendingabók. Báðar þessar bækur eru ritaðar á fyrri hluta tólftu aldar eða hátt í 250 árum eftir að fyrstu norrænu menn áttu að hafa numið hér land. Menn hafa hingað til treyst þessum ritum, þar sem í ljós hefur komið að byggð hefur með sannið verið þar sem höfundar ritanna sögðu að byggð hefði verið. Sem slík hafa ritin reynst mjög góð heimild um það sem gerðist eftir ákveðinn tíma.
Eftir að ég komst til vits og ára, þá hef ég (eins og fleiri) litið á þessi rit og önnur rit sem teljast til fornrita okkar, sem skemmtilegar sögur með sannsögulegu ívafi. Nákvæmni þeirra er meiri eftir því sem styttra leið frá atburðum til skráningar. Sum þeirra eru meira að segja samtímarit. Tvö rit hafa skorið sig úr í mínum huga, þ.e. Landnáma og Íslendingabók. Ég held að þau hafi fyrst og fremst verið skrifuð til að skjalfesta eignarrétt á löndum. Eignarrétt norrænna manna á þeim löndum sem þeir tóku hugsanlega með ofbeldi af fyrri ábúendum.
Ég hef lengi velt fyrir mér hversu umfangsmikið landnám kelta var áður en norrænir menn komu hingað. Voru hér bara einsetumenn eða var hér keltnesk byggð? Hvernig ætli standi á því að stór hluti kvenna á keltneskar formæður? Varla er ástæðan bara að norrænir menn rændu keltneskar byggðir í Skotlandi og Írlandi. Til þess hefðu menn þurft að vera ansi duglegir við að fara í víking til þessara landa og náð að tæma margar byggðir af öllum sínum konum. Enginn vafi er á að hér var byggð fyrir landnám norrænna manna, en spurningarnar sem standa ósvaraðar eru, hversu umfangsmikil var þessi byggð og hvað varð um þá sem hér bjuggu.
Frá tímum norræns landnáms (samkvæmt tímatali Landnámu) eru sögur af miklum fólksflutningum úr norðri í Skotlandi og eyjunum þar fyrir norðan. Sumir fræðimenn hafa látið sér detta í hug að ástæðan sé flótti kelta frá Íslandi. Mér finnst þetta alls ekki ósennilegt og þá að hér hafi verið blómleg byggð kelta, en þegar norrænir menn komu hafi þeir farið ránshendi um landið og drepið stóran hluta karlkynsábúenda en gert kvenfólkið að þrælum hafi fólk ekki hreinlega flúið úr landi. Einhverjir karlmenn, þá sérstaklega ungir drengir hafi fylgt mæðrum sínum. Það skýri fyrst og fremst hin skökku hlutföll milli formæðra kvenna og forfeðra karla. (Fram hefur komið í erfðafræðirannsóknum að um 2/3 kvenna eiga keltneska formóður, en 3/4 karla á norrænan forföður.)
Hafi byggð kelta verið nokkuð umfangsmikil og hér verið fjölskyldur, þá er það alveg jafngóð skýring á uppruna Íslendinga og víkingaferðir. Hafi hér búið 5, 10 eða jafnvel 20 þúsund keltar, helmingur þeirra flúið og fjórðungur verið drepinn og fjórðungum hnepptur í þrældóm, þá skýrir það alveg jafnvel erfðafræðilegan uppruna Íslendinga og víkingaferðir. Landnáma og Íslendingabók hefðu ekki greint frá þessu, þar sem tilgangur ritanna var, eins og áður segir, að sanna eignarrétt á landi og þar með festa í sessi ættarveldi/goðorð þjóðveldisins. Ef þar hefði staðið að Kveld-Úlfur hefði tekið landið af Þórsteini kelta, Ingólfur hrakið Kjartan hinn írska í burtu o.s.frv., þá væri ljóst að tilkallið til landsins væri ekki eins sterkt. Einnig væri kominn grunnur fyrir afkomendur fyrri ábúenda til að reka mál fyrir Alþingi til að heimta aftur lönd sín. Það hefði því verið ógn við ættarveldin, ef menn hefðu skráð í þessi rit aðrar upplýsingar en þar koma fram.
Áður en menn fara að missa sig yfir vitleysunni í mér, þá eru þetta bara vangaveltur. Eitt er alveg ljóst að hér var byggð fyrir "landnám". Hvort sú byggð var hér vegna þess að landnám norrænna manna einfaldlega byrjaði mun fyrr eða vegna þess að hér var fyrir veruleg byggð annarra, þegar norrænir menn gerðu hér standhögg, verður líklegast ekki sannað svo óyggjandi sé.
Ég fjallaði einnig um þetta í pistlinum Við vitum vel að norrænir menn voru ekki fyrstir 13.3.2009 og urðu þá ágætar umræður í athugasemdum.