Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 1.6.2011.
Ég hef verið að hlusta á varnarræður stjórnarliða fyrir hönd kröfuhafa gömlu bankanna, en þær voru fluttar á Alþingi í morgun. Mikil er skömm þess fólks, sem tekur hagsmuni ímyndaðra kröfuhafa gjaldþrota banka umfram hagsmuni þjóðarinnar. Heldur var hún lítilsigld afsökunin að kröfuhafar eigi meiri rétt en svipubarinn almenningur. Þetta heitir að selja sál sína skrattanum.
Steingrímur J. Sigfússon sagði að aldrei hefði staðið til að afslættir sem nýju bankarnir hafi fengið af lánasöfnum færðum frá gömlu bönkunum rynnu til lántaka. Nei, það átti að rukka innlenda aðila upp í topp vegna lána sem stökkbreyttust vegna svika, lögbrota og pretta stjórnenda og eigenda hrunbankanna í undanfara hrunsins. Meðan hver uppljóstrunin á fætur annarri kemur fram þar sem lýst er döpru viðskiptasiðferði, lögbrotum, sýndarviðskipti með hlutabréf, lánaviðskiptum án trygginga til vildarvina o.s.frv. þá telur fjármálaráðherra sjálfsagt að almenningur og fyrirtæki greiði innheimtukröfur upp í topp. Í hvaða heimi býr maðurinn?
Ekki var skárra að hlusta á Árna Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann hefur snúist eins og vindhani í breytilegri átt í málflutningi sínum síðustu tvö ár. Núna á allt í einu Íbúðalánasjóður ekki tilverurétt ef hann getur ekki veitt sömu úrræði og banki sem fékk 47% afslátt af lánasöfnum sínum og er ennþá að rembast við að innheimta lánin langt umfram bókfært virði þeirra. Bankinn sem keypti verðlaus skuldabréf út úr peningamarkaðssjóðum fyrir ríflega 40 ma.kr. í október, nóvember eða desember 2008, en segist hafa afskrifað 22,5 ma.kr. af lánum viðskiptavina sinna frá október 2008 til desember 2010 (samkvæmt upplýsingum úr ársreikningum bankans). Hverjum ætli bankinn hafi verið að hygla?
Ég nenni ekki að elta ólar við málflutning annarra stjórnarliða. Hann dæmir sig sjálfur. Ég verð þó að dást af hæfni Steingríms til að svara ekki því sem hann er spurður af. Fáir íslenskir stjórnmálamenn kunna þá list betur nema kannski Jóhanna. - Meira neðar.
Erlendir kröfuhafar
Þingmönnum var tíðrætt um erlenda kröfuhafa og einhvern veginn virtist allt snúast um þá. Hverjir eru þessir erlendu kröfuhafar og hvaða rétt eiga þeir? Í fyrsta lagi eru engir erlendir kröfuhafar hvað varðar hina endurreistu banka. Kröfuhafar Íslandsbanka, Landsbankans og Arion banka eru ekki erlendir. Kröfuhafar nýju bankanna eru fyrst og fremst a) innstæðueigendur og b) gömlu bankarnir. Erlendir kröfuhafar hafa bara óbeint með nýju bankana að gera. Þess vegna skiptir nákvæmlega engu máli hverjir þeir eru og ætla ég ekki að eyða meiri tíma í þá. Ég vona að þingmenn átti sig á þessu og hætti að láta eitthvað sem skiptir engum máli trufla sig. Við þurfum nauðsynlega að þingheimur einbeiti sér að því sem skiptir samfélagið máli, þ.e. endurreisn heimila og fyrirtækja landsins.
Höfum eitt alveg áhreinu: Nýju bankarnir tóku við lánasöfnum sem höfðu verið afskrifuð í gömlu bönkunum. Þeir tóku ekki við lánasöfnunum á kröfuvirði og færðu þau niður. Nei, lánin voru afskrifuð/færð niður í gömlu bönkunum. Skuldir nýju bankanna eru samkvæmt ársreikningum þeirra, sem hér segir:
Íslandsbanki
Landsbankinn
Arion banki
Fremri dálkurinn er alltaf 2010 og sá aftari 2009.
Takið eftir því að engir erlendir kröfuhafar eru nefndir hjá neinum þeirra. Þetta eru fyrst og fremst innstæðueigendur og síðan margir lágir liðir. Hvar eru þessir erlendu kröfuhafar sem Steingrímur er að tala um?
Sé síðan skoðað (eins og ég gerði í síðustu færslu) hvert verðmat útlánanna er, þá kemur hvergi fram að á bókum bankanna séu önnur lán en nemur hinum afskrifaða hluta lánasafna gömlu bankanna.
Íslandsbanki
Landsbankinn
Arion banki
Erlendir kröfuhafar skipta sér að þrotabúum hrunbankanna. Skiptastjórnir hrunbankanna eiga að sjá til þess að fá sanngjarnt verð fyrir eignir þrotabúanna. Ekkert er óeðlilegt við að lánasöfn séu seld til nýju bankanna með einhverjum vikmörkum, en þá eiga þeir að gefa þessi vikmörk upp í ársreikningum sínum. Það hafa þeir ekki gert. Mér finnst það aftur frekja, ósvífni og ótrúlegir lélegir viðskiptahættir, að kaupa lánasöfn sem þegar hafa verið færð mikið niður af fyrri eiganda og innheimta þau eins og sú aðgerð hafi ekki átt sér stað. Ég get samþykkt að bankarnir leggi einhver 10-15% ofan á til að eiga fyrir óvæntum áföllum, en ekki 80-100% og þaðan af meira.
Mér finnst ljóst að Íslandsbanki, Arion banki og Landsbankinn séu búnir að átta sig á því að stærsti hluti viðskiptavina þeirra muni ekki eiga framtíðarviðskipti við bankana og því sé hægt að koma fram við þá eins og bönkunum sýnist. Landsbankinn er örlítið að sýna lit, en fyrir marga er þetta full lítið og allt of seint. Líklegast treysta bankarnir á hina gamalkunnu meðvirkni þjóðarinnar, að þangað sækir klárinn sem hann er kvaldastur.
Stjórnmálamenn í djúpum skít
Stjórnmálamenn landsins treysta bæði á gullfiskaminni landsmanna og að frekar leiti kjósendur þangað sem þeir þekkja vitleysuna en að treysta nýju einstaklingum/flokkum. Mér fannst málflutningur Sjálfstæðismanna ekkert svakalega sannfærandi í dag. Stjórnarliðar vöruðust að benda á hið augljósa, þ.e. yfirtöku bankanna á N1, en Steingrímur J. var oftar en einu sinni kominn með það mál fram á tungubroddinn en hætti við á síðustu stundu. Það hefði líka afhjúpað grætilega lélegan málefnagrunn hans. Bara til að hafa það á hreinu, þá held ég að N1 sé fórnarlamb yfirgangs bankanna og lélegra ákvarðana á árunum fyrir hrun krónunnar. Hvað af því er hægt að skrifa á fyrrverandi eigendur og hvað á svik, blekkingar, lögbrot og pretti hrunbankanna og eigenda þeirra ætla ég ekkert að segja um.
Á flestum sviðum höfðu stjórnmálaflokkarnir endaskipti í umræðunni í dag. Steingrímur varði einkavæðingu og hákarla viðskiptalífsins gegn almúganum, en Sjálfstæðismenn töluðu fyrir ríkisvæðingu og velferðarkerfinu. Öðru vísi mér áður brá. Steingrímur þolir öllum að segja sannleikann nema Hreyfingunni og Lilju Mósesdóttur. Hann bandar frá sér orðum Sjálfstæðismanna og Framsóknar, en þegar þau þrjú, sem hafa líklegast verið hvað einörðust ásamt Eygló Harðardóttur í að segja hlutina umbúðalaust, koma með aðfinnslur þá taka sig upp gömul stjórnarandstöðusærindi hjá karlinum og hann missir lúkkið.
Þingmenn Samfylkingarinnar sýndu það og sönnuðu í dag, að þeir eru búnir að selja skrattanum sál sína. Hvernig hver þingmaðurinn á fætur öðrum gat komið upp og varið það að stjórnvöld hafi ekki staðið á rétti heimilanna og fyrirtækja í landinu, það skil ég ekki. Líklegast er þetta þessi sósíalismi andskotans sem Árni Páll var að tala um a.m.k. er sósíaldemókrataflokkur Íslands farinn að iðka einhvern þann furðulegasta sósíalisma sem ég hef orðið vitni að. Andsvar Magnúsar Orra var hreinlega vandræðalegt og ennþá vandræðalegra var að helsti talsmaður almúgans hér fyrr á árum, Jóhanna Sigurðardóttir, lét ekki sjá sig, a.m.k. sá ég hana ekki í útsendingunni. Eini af gömlu flokkunum sem stendur nokkuð fastur á sínu er Framsókn, enda stækkaði hann í dag um einn þingmann, þó honum gangi brösulega að efla fylgið.