Verður Ísland gjaldþrota í dag?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.10.2011. Efnisflokkur: Neyðarlögin

Klukkan tvö í dag kveður Hæstiréttur upp úrskurð í einum 14 dómsmálum sem varða neyðarlögin.  Strangt til tekið er Hæstiréttur að taka fyrir gjaldþrotaúrskurð fyrirtækisins Ísland.  Falli dómurinn kröfuhöfum í vil, þá munu íslensk stjórnvöld þurfa að leita nauðasamninga við kröfuhafa bankanna eða finna stóran hluta af 2.300 ma.kr. innstæðum sem tryggðra voru í neyðarlögunum með því að færa þær til í kröfuröð.

Ég veit ekki hvort fólk átti sig almennt á mikilvægi niðurstöðunnar í þessum málum.  Með ákvörðun Hæstaréttar gæti allur árangurinn sem náðst hefur í ríkisfjármálum þurrkast út.  Lánshæfismat Íslands mun falla niður í F, þar sem útilokað er að ríkissjóður geti pungað út 1.000 til 1.500 ma.kr. hvorki núna né nokkru sinni í framtíðinni.

Mér finnst ótrúlegt að nánast ekkert hefur verið fjallað um þetta.  Ætli það sé vegna þess, að menn sjá ekki tilgang í því eða þykir ekki tilhlíðilegt að hafa með slíkri umræðu áhrif á niðurstöðu Hæstaréttar.

Falli úrskurðurinn kröfuhöfum í hag, þá verður það ótrúlegt högg á ríkissjóð og hagkerfið.  Við erum að tala um, að skiptingin milli gömlu og nýju bankanna verður í uppnámi, krafan sem fellur á íslenska innstæðutryggingasjóðinn fer úr litlu og upp í hæstu hæðir, ríkissjóður fær á sig skaðabótakröfur úr öllum áttum, gjaldeyrisforðinn þurrkast upp á augabragði.

Falli úrskurðurinn kröfuhöfum í hag, þá fyrst getum við virkilega lagst á bæn og beðið Guð um að hjálpa Íslandi.

Eftir tvo tíma kemur í ljós hvort þess er þörf, hvort Ísland sé gjaldfært eða gjaldþrota.  Eftir tvo tíma kemur í ljós hvort þessar vangaveltur mínar hafa eitthvað að segja.  Hafi 6. október 2008 verið áhrifadagur fyrir íslenska þjóð, þá er 28. október 2011 enginn eftirbátur.