Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 9.9.2011. Efnisflokkur: Bankahrun
Athugun hinna ólíku aðila á starfsháttum margra fjármálafyrirtækja í undanfara hrunsins hefur leitt í ljós að víða óðu þessi fyrirtæki yfir viðskiptavini sína á skítugum skónum. Alls konar lög voru ekkert að vefjast fyrir fjármálafyrirtækjunum og höfðu þau gjarnan hlutina eftir eigin höfði. Fetti Fjármálaeftirlitið fingur út í háttsemi þeirri var því mætt með ókleifar múr af lögfræðingum og málarekstur dreginn á langinn út í hið óendanlega með alls konar lagaklækjum. Það eina sem þessum fyrirtækjum virtist ekki detta í hug var að fara að lögum, já, og koma fram við viðskiptavini sína af virðingu.
Guðmundur Andri Skúlason, talsmaður Samtaka lánþega, birtir pistil á Pressunni í gær (8.9.2011) um eitt þessara fyrirtækja sem virðist telja lög vera fyrir aðra. Ekki dettur því heldur í hug að virða dóma Hæstaréttar, ef marka má lýsingu Guðmundar. Ég hef nokkrum sinnum deilt á aðferðir SP-fjármögnunar og ekki uppskorið annað en hótanir um málsókn vegna meiðyrða. Staðreyndin er að tvö fjármálafyrirtæki skera sig úr hvað varðar þær kvartanir sem til mín berast: SP-fjármögnun og Lýsing. Svo furðulega vill til að bæði þessi fyrirtæki hafa fengið á sig dóma í Hæstarétti um að þau hafi fótum troðið lögin. Af sögum sem ég hef heyrt, ýmist beint frá viðskiptavinum þessara fyrirtækja eða eftir öðrum leiðum, þá hefur minna breyst í starfsháttum fyrirtækjanna en tilefni er til. Sögur eins og sú sem Guðmundur Andri segir heyri ég því miður allt of oft.
Hvað er það með stjórnendur þessara fyrirtækja og lögfræðiþekkingu þeirra? Skilja þeir ekki dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010? Hæstiréttur dæmdi í dómum nr. 92/2010 og 153/2010 leigusamningana þeirra vera lánssamninga. Hversu þver þarf maður að vera sem ekki skilur þennan þátt í dómunum? Ég tek eftir því að jafnvel hæstaréttarlögmenn skilja ekki þennan þátt, ef marka má skrif eins þeirra nýlega. Um leið og Hæstiréttur kvað úr um að leigusamningar væru lánssamningar, þá ógilti hann í reynd öll ákvæði samninganna sem sneru að leiguþættinum. Það sem meira er, að um leið féllu viðkomandi samningar undir lög um neytendalán.
Neytendavernd er nánast engin hér á landi. Stofnanir sem eiga að sinna þeim þætti eru ýmist gerðar áhrifalausar af löggjafanum eða stjórnendum þeirra. Hvort sem þær heita Neytendastofa, talsmaður neytenda eða Neytendasamtökin, þá eru þessir aðila gjörsamlega bitlausir (eða áhugalausir) þegar kemur að því að kljást við endalaus brot fjármálafyrirtækja á neytendum. Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hafði ekki áhuga á slíkum brotum og mörg dæmi eru um að deildin hafi hafnað að taka slík mál fyrir. Nú er hún komin til embættis sérstaks saksóknara og efast ég stórlega um að það skipti máli.
Meðan fjármálafyrirtæki hunsa niðurstöður Hæstaréttardóma sem fallið hafa gegn hinum og þessum fjármálafyrirtækjum, þ.e. neyta að viðurkenna fordæmi dómanna, þá er enginn tilgangur í því að Hæstiréttur fjalli um mál þessara fyrirtækja. Meðan Fjármálaeftirlitið lætur sem ekkert sé, þegar fjármálafyrirtækin hunsa dóma Hæstaréttar, þá er engin tilgangur í því að fá dóma frá Hæstarétti. Hér á landi virðist ríkja lögleysa, a.m.k. er virðingarleysi margra fjármálafyrirtækja fyrir lögunum slíkt að varla er hægt að tala um að lög hafi merkingu.
Ísland er bananalýðveldi. Það er ekkert meira um það að segja. Ef það væri það ekki, þá væri búið að rétta hlut almennings vegna þess tjóns sem fjármálafyrirtækin ollu. Hér væri virk neytendavernd. Fjármálafyrirtækjunum dytti ekki í hug að hunsa dóma Hæstaréttar og vaða á skítugum skónum yfir viðskiptavini sína. Stærsta sönnunin fyrir því að Ísland er bananalýðveldi, er að eini maðurinn sem kærður hefur verið fyrir hrunið er forsætisráðherrann sem sýndi vanhæfi í starfi, en ekki mennirnir sem ollu hruninu. Þeir virðast ósnertanlegir líklegast vegna þess að þeir eru með völd, eiga peninga og vini á réttum stöðum. Hvers vegna er ekki búið að ákæra Sigurð Einarsson, Hreiðar Má Sigurðsson, Sigurjón Þ. Árnason, Halldór J. Kristjánsson, Lárus Welding og alla stjórnarmenn bankanna fyrir að hafa valdið þjóðinni ómældu tjóni? Hvers vegna?