Varamaður í bankaráði Landsbankans hf. sendir launþegum tóninn

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.5.2011. Efnisflokkur: Nýir bankar

Andri Geir Arinbjarnarson heitir maður.  Hann er ágætlega menntaður og í góðu starfi.  Hann er líka mikilsmetinn bloggari, álitsgjafi og síðast en ekki síst varamaður í bankaráði Landsbanks hf. (áður NBI hf.).  Í nýlegri færslu sendir hann launþegum þessa lands heldur kalda kveðju.  Réttlátar launahækkanir þeirra munu draga kreppuna á langinn!  Launþegar landsins eiga að sætta sig við skert kjör svo hægt sé að nota gjaldeyrinn, sem þessir sömu launþegar taka þátt í að skapa, í að greiða m.a. erlendum kröfuhöfum hlutdeild í hagnaði Landsbankans hf. af óvægnum innheimtum bankans af stökkbreyttum lánum viðskiptavina bankans.

Ég setti athugasemd inn á bloggið hans, þar sem ég mótmæli þessari framsetningu hans og vil ég birta hana hér:

Ég veit um eina leið sem gerir fyrirtækjum kleift að standa undir þessum hækkunum án þess að veita þeim út í verðlagið. Hún er ákaflega einföld og varamaðurinn í bankaráði Landsbankans hf (áður NBI hf.), Andri Geir Arinbjarnarson, gæti kannski talað fyrir henni í bankaráðinu. Fjármálafyrirtæki hraði úrvinnslu beinu brautarinnar, þau leiðrétti strax og afturvirkt ólöglega teknar afborganir áður gengistryggðra lána og bjóði fyrirtækjum betri kjör í viðskiptum sínum við bankann. Með þessu myndi sparast verulega í rekstrarkostnaði fyrirtækjanna, sem gæfi þeim svigrúm til að gera betur við starfsfólk sitt. Síðan gæti varamaðurinn líka talað fyrir því í bankaráðinu, en mér skilst að hann sitji alla fundi bankaráðsins, að bankinn virði dóma Hæstaréttar, neytendaréttarákvæði laga og Evrópuréttar, stjórnarskrárvarinn rétt fólks og fyrirtækja og að ég tali nú ekki um siðareglur bankans sjálfs.

Mér finnst þú, Andri Geir, gleyma því að vandi íslensks hagkerfis er fjármálafyrirtækjum að kenna, ekki almenningi og framleiðslufyrirtækjum, ríkisstofnunum, sveitarfélögunum eða aðilum í ferðaþjónustu. Nei, vandi þjóðarbúsins er því að kenna, að Landsbanki Íslands hf., Kaupþing banki hf., Glitnir banki hf. og fleiri illa rekin fjármálafyrirtæku settu hér upp einhverja svæsnustu svikamyllu sem um getur á heimsvísu. Meðan þessi svik hafa ekki verið leiðrétt, þá verður enginn rekstrargrundvöllur hvorki fyrir heimili né atvinnurekstur.

Mér finnst það ósvífið af varamanni bankaráðs kennitöluflakkara að kenna eðlilegum kjarabótum um að endurreisnin verði ekki eins auðveld, þegar Landsbankinn hf. (áður NBI hf.), Arion banki hf. og Íslandsbanki hf. hafa það í hendi sér að laga ástandið. Þú gefur í skyn, Andri Geir, að fólk eigi að sætta sig við skert kjör (sem eru bein afleiðing af svikum, lögbrotum, prettum og blekkingum fjármálafyrirtækjanna) vegna þess að annars gæti það ruggað bátnum. Mér finnst að þú ættir að sýna ögn meiri auðmýkt. Fattar þú ekki að fólk býr hér við fátækt? Kaupmáttur launa hefur lækkað um hátt í 30% á frá því í ársbyrjun 2008, m.a. vegna hátterni fjármálafyrirtækjanna. Og nýju fjármálafyrirtækin, sem eru ekkert annað en kennitöluflakkarar, eiga að vera stikkfrí, vegna þess að þau eru komin með nýja kennitölu. Sveiattan!

Eins og ég segi í inngangsorðum mínum, þá fá kröfuhafar Landsbanka Íslands hf. hlutdeild í hagnaði af betri innheimtum bankans af stökkbreyttum lánum.  Líklegast rennur öll sú hlutdeild upp í Icesave, en þó er það ekki víst.  Samningurinn milli fjármálaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins annars vegar og erlendra kröfuhafa hins vegar er ekki opinber og við vitum því ekki hvaða leynileg ákvæði eru þar.  Samkvæmt upplýsingum sem komu frá Arion banka um daginn, þá renna 80% af betri heimtum lána til erlendra kröfuhafa en 20% til bankans sjálfs.  Bankinn þiggur sem sagt 20% innheimtuþóknun frá erlendum kröfuhöfum.  Halda menn virkilega að bankinn muni leggja sig í líma við að semja við fólk og fyrirtæki, þegar hann getur makað krókinn á þennan hátt.  Í fjölmiðlum hafa birst fréttir um að starfsmenn Landsbankans hf. fái kaupauka tengda betri heimtum.  Satt best að segja finnst mér það viðbjóðslegt, að fjármálafyrirtæki sem reist eru á rústum fyrirtækja sem lögðu þjóðfélagið bókstaflega í rúst, séu svo ósvífin að vinna frekar með hagsmuni erlendra kröfuhafa að leiðarljósi, en hagsmuni viðskiptavina sinna.  Og allt vegna þess, að þannig leggist þeim til auka hagnaður.  Sveiattan, þið ættuð að skammast ykkar!

Úr athugasemdum sem ég bætti við:

1. “Hér er önnur athugasemd sem ég setti inn hjá Andra Geir:

Andri Geir, ég átta mig mjög vel á þessu með gjaldeyrisforðann og gjaldeyristekjurnar. Ætli ég hafi ekki verið með fyrstu mönnum til að vekja athygli á þessu. En það er hvernig þú stillir þessu upp. Kjarasamningarnir munu setja allt á annan endann. Málið er að kröfur fjármálafyrirtækjanna eru fyrir löngu búnar að setja allt á annan endann.

Ég hef á undanförnum dögum talað við menn í atvinnulífinu sem eru að kikkna undan oki fjármálafyrirtækjanna. Þeir skilja ekki aðgangshörku bankanna þriggja. Þeir skilja heldur ekki laga- og dómatúlkun bankanna. Þeir fatta ekki af hverju þeir eru ennþá krafðir um að greiða lánin eins og dómar Hæstaréttar 16. júní hafi ekki fallið. Þeir skilja ekki af hverju bankarnir hleypa fyrirtækjum þeirra ekki inn á beinu brautina. Þeir skilja ekki af hverju hægt er að semja við suma, þannig að fyrirtækin þeirra verða nánast skuldlaus meðan öðrum er vísað út í hafsauga. Og skuldlausu fyrirtækin þau fá samkeppnislegt forskot sem gerir endanlega út af við hin.

Ef bankarnir létu 70% af afslættinum sem þeir fengu frá gömlu kennitölunni sinni renna til lántaka, þá gæti atvinnulífið rétt úr kútnum af sjálfu sér. Það gæti hæglega borið þær sanngjörnu launakröfur launþegahreyfinganna. Og það gæti farið í nauðsynlegar fjárfestingar. Nei, í staðinn þá vilja fjármálafyrirtækin gína yfir allt og öllu. Þetta er hrein og klár eignaupptaka og þetta er kúgun.

Svo beina brautin virki, þá verða fjármálafyrirtækin að taka tillit til þess, að launþegar eiga eftir að fá sína leiðréttingu. Mér heyrist af mönnum í atvinnulífinu, að fyrirtækin eigi ekki að hafa neitt svigrúm til kauphækkana, samþykki þau að fara inn á “beinu brautina”. Allt sem ekki fer í reksturinn miðað við forsendur um síðustu áramót eða hver þessi viðmiðunarpunktur er, á að fara til bankanna, þrátt fyrir að það sé mun meira en nemur afborgunum á bókfærðu virði skuldanna.

Framsetning færslu þinnar er að mínu mati óvirðing við launafólk í landinu, þar sem sanngjarnar kröfur þess um kjarabætur áttu að vera hættulegar þjóðfélaginu, þegar í reynd fjármálafyrirtækin eru stærsta ógnin við uppbyggingu samfélagsins.”

2. “Það kemur þessum kjarasamningum ekkert við, að beita þurfi innflutningshöftum á næstu árum. Slíkt er búið að vera fyrirséð frá því um leið og menn fóru að reikna raunverulega skuldastöðu þjóðarbúsins í tengslum við Icesave 1 samningana. Fyrsta bloggfærslan mín um það efni er frá því 13.7.2009, en þá höfðum við Haraldur Líndal átt á nokkrum dögum bæði fund með fjárlaganefnd og efnahags- og skattanefnd. Fjárlaganefnd hlustaði vel á orð okkar, en efnahags- og skattanefnd fannst við vera stela frá þeim tíma sem betur væri varið í annað. Í færslu 15.7.2009 þá segi ég m.a.:

“Þessi sýn Seðlabankans getur ekki gengið nema tvennt komi til: Gert er ráð fyrir að gjaldeyrishöft og innflutningshöft verði viðvarandi allan tímann.”

Andri Geir, þú tókst þátt í umræðunni hjá mér fyrir nærri tveimur árum og hefur sjálfur talað um þessa hluti. Þess vegna finnst mér það nánast vera högg undir beltisstað að kjarasamningar verði einhver vendipunktur til hins verra.

Ekki má gleyma því að Gunnr, sem hefur verið mjög virkur í athugasemdakerfinu hjá mér, hefur varað við þessu frá því strax eftir hrun. Staðreyndir málsins eru að meðan við höfum ekki alþjóðlega viðurkenndan gjaldmiðli, þá erum við í djúpum skít og þurfum að búa bæði við gjaldeyrishöft og innflutningshöft.”

3. “Á margan hátt höfum við búið við gjaldeyriskreppu hér á landi í mjög mörg ár, líklegast af og til frá stríði. Okkur tókst að veiða okkur út kreppunni með jöfnu millibili, en í hvert sinn sem tekjur af fiskveiðum hafa dregist saman, þá hefur gjaldeyriskreppa skollið á. Nú er svo komið að mikil aukning á tekjum af fiskveiðum er hætt að vera nóg. Neysla í erlendri mynt hefur einfaldlega verið of mikil og við höfum smátt og smátt safnað upp óviðráðanlegum skuldum í útlöndum. Þessar skuldir verða aldrei greiddar niður meðan krónan er gjaldmiðill. Eina von okkar til að losna við þær, meðan við erum með krónuna sem gjaldmiðil, er að þær verði felldar niður. Er einhver með símanúmerið hjá Parísarklúbbnum?”