Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 12.4.2011. Efnisflokkur: Ríkisfjármál
Í gær hækkuðu íslensku olíufélögin verð á bensíni um 3 kr. Ég var heppinn að ég fyllti á tankinn áður en það gerðist. Ekki það að 3 kr. á lítrann skipti öllu máli, en þegar krónurnar þrjár hafa verið að bætast á með reglulegu millibili í fleiri mánuði, þá er pyngjan farin að léttast. Fyrir utan að maður þorir varla að hreyfa bílinn.
Líklegast er ekki hægt að kenna íslensku olíufélögunum um þessa miklu hækkun eldsneytis. Þau eru bara að bregðast við hækkun á alþjóðamörkuðum. Raunar sýnist mér sem verð hér á landi sé alls ekki hærra en í t.d. Danmörku og Þýskalandi. Málið er að alls staðar í heiminum eru stjórnvöld búin að átta sig á því að ekki er til tryggari tekjuöflun en felst í sköttum og gjöldum á hinu bráðnauðsynlega bensíni eða díselolíu.
Hér á landi eru tvenns konar gjöld sem halda uppi verðinu fyrir utan innkaupsverð og álagning olíufélaganna: 1) olíugjald, 2) virðisaukaskattur. Bæði þessi atriði eru hlutfallstala af því sem olíufélögin vilja í sinn hlut. Hækki heimsmarkaðsverð, þá hækkar olíugjaldið og virðisaukaskatturinn.
Með kolefnisskatti, þá rennur um 52% af bensínverði í ríkissjóð. 52% af 238 kr. gerir 123,76 krónur. Sá sem er á bíl sem eyðir 10 lítrum/100 km, greiðir því 1.237,6 kr. til ríkisins fyrir að aka þessa 100 km. Þegar verð á bensínlítra var 120 kr. (sem er ekki svo ýkja langt síðan), þá komu 624 kr. í hlut ríkisins. Sama slit var á vegakerfinu, sömu umferðarmannvirki voru til staðar, en hugsanlega var viðhaldskostnaðurinn eitthvað lægri. Hafi 624 kr. dugað ríkinu þegar verðið var 120 kr., hvers vegna þarf ríkið þá tæplega tvöfalda þá upphæð í dag? Er þetta ekki bara græðgi eða í besta falli röng hugsun.
Rannsóknir sýna að umferð hefur dregist mikið saman eftir að bensínverð hækkaði. Sú hækkun fer að nokkru saman við kreppuna, þannig að ekki er víst að allur samdrátturinn er hækkun bensínverðs að kenna, en líklegast vegur hún þungt. T.d. hefur hækkun síðustu mánaða gert það að verkum að ég velti vel fyrir mér hverri ferð í vesturhluta Reykjavíkur. Það þýðir t.d. að séu spennandi atburðir bæði í vesturhluta Reykjavíkur og austurhluta Kópavogs, þá þarf sá í vesturhluta Reykjavíkur að vera ákaflega spennandi til að ég velji hann framyfir hinn. Sama á við verslun. Ef það kostar mig nokkur hundruð krónur aukalega að versla ódýrt í vesturhluta Reykjavíkur, en í austurhluta Kópavogs, þá getur einfaldlega verið hagstæðara fyrir mig að versla í Kópavogi og borga aðeins meira en að keyra út á Granda eftir vörunni á tilboði. Hækkandi bensínverð er þannig farið að stjórna ferðum mínum.
Ég býst við að fleiri hafi tekið upp svona breytingar á akstri. Spurningin er því hvort ákafi stjórnvalda að elta breytingar á heimsmarkaðsverði með hlutfallslegri hækkun opinberra gjalda og skatta sé ekki að verða til þess að tekjur ríkisins lækki. Samdráttur í umferð þarf að vísu að vera mjög mikill til að vega um alla hækkunina, en kannski kemur að því að það gerist.
Mér finnst eðlilegt að eitthvert þak ég á olíugjaldinu. Þannig sé gjaldi hlutfall af álagningarstofnunum þar til einhverri hámarkstölu er ná. Þá standi olíugjaldið í stað, þó svo að heimsmarkaðsverð knýi olíufélögin til hækkunar. Með þessu dregur úr hækkun eldsneytisverðs sem þar með verður til þess að umferð dregst ekki eins mikið saman og það sem meira er hækkun vísitölu neysluverðs verður minni. Við vitum öll að vísitala fer beint í lánin okkar, sem að jafnaði hækka um meira en nokkru sinni kostnaðurinn okkar af hærra bensínverði. (Auðvitað væri best að taka verðtryggingu úr sambandi, en það er efni í mun lengri pistil.)
Ég vil skora á Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, að hugleiða vel að setja hámark á olíugjaldið. Ég veit að við hróflum ekki við virðisaukaskattinum, en hinu er auðveldlega hægt að breyta. Jafnfram sting ég upp á að þakið verði miðað við hámarkið náist þegar eldsneytisverð nær 150 kr./lítra hvort heldur um er að ræða bensín eða venjuleg díselolía.
Færslan var skrifuð við fréttina: Olíuverð lækkaði um rúm 3%