Afgerandi NEI á fyrstu metrunum

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.4.2011. Efnisflokkur: Icesave

Ekki er hægt að segja annað en að NEI-ið hafi komið nokkuð afgerandi úr talningu fyrstu atkvæða.  Reykjavík-Suður sker sig þó úr af torkennilegri ástæðu, sem ég ætla ekki að ráða í hér.

Hlustaði á "leiðtogana" áðan og velti fyrir mér í hvaða veruleika sumir voru þarna.  Nefni engin nöfn.  Eins fannst mér einkennilegt að tala er um að ekki verði frekar samið en í staðinn verði mál rekin fyrir dómstólum.  Í fyrsta lagi eru í gildi lög sem viðurkenna greiðsluskyldu Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF).  Í öðru lagi liggur fyrir að TIF hefur viðurkennt greiðsluskyldu sína.  Í þriðja lagi, þá voru það fyrst og fremst tvö megin atriði sem steytti á, þ.e. ríkisábyrgðin og forgangur TIF í þrotabú Landsbankans.

Ég held að réttu viðbrögð ríkisstjórnarinnar sé að bjóða Bretum og Hollendingum að TIF standi við sína greiðsluskyldu og fái forgang í þrotabú Landsbankans í samræmi við Ragnars Halls ákvæðið.  Báðir aðilar lyfti öllum hömlum og hindrunum þannig að TIF geti byrjað að endurgreiða Bretum og Hollendingum sem fyrst.  Þannig verði "skuld" TIF við FSCS (breska tryggingasjóðinn) og DNB (seðlabanka Hollands sem fer með mál innstæðutrygginga) greidd um hratt og vel.

Menn virðast vera uggandi vegna áminningarbréfs ESA (Letter of formal notice).  Ég hef lesið þetta bréf og mér sýnist stærsta atriðið í því vera spurningin um mismunun milli innlendra og erlenda innstæðueigenda.  Icesave-samningarnir þrír hafa ekkert tekið á þessu og því breyttir niðurstaðan í nótt ekkert því álitaefni sem ESA tekur upp í áminningarbréfinu.  Ég skil því ekki hvers vegna þetta bréf er eitthvað meira mál, ef viðurstaðan er Nei frekar en Já.  Er þetta að mínu mati enn einn hluti af blekkingu stjórnvalda í þessu máli.  Þarna er bréf með óþægilegu efni og nú á að kenna Nei-inu um að svara þurfi bréfinu.  Er það raunar með ólíkindum mikil ósvífni.

Meðan ekki eru öll atkvæði talin, þá er ekkert öruggt, þó vissulega sé staðan góð.  Hér í Kópavogi er maður sem fór inn og féll út af þingi í kosningum 2007, frekar en 2003, endalaust alla kosninganóttina.  Því segi ég að kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið.

Eitt í viðbót sem mér datt í hug:  Þegar ég hlustaði á Jóhönnu og Steingrím, þá skaut þeirri hugsun niður, að kannski væru þau ekkert svo ósátt við að lögunum væri hafnað.  Þetta fannst mér koma fram í því að ríkisstjórnin hefði ákveðið að halda ekki úti kynningu á þessum tveimur kostum, heldur láta grasrótarhópa sjá um það.  Hafi þeim tveimur þótt það svona mikilvægt að þjóðin samþykkti lögin, af hverju héldu þau þá ekki uppi sterkari og öflugri rökum/áróðri/auglýsingum fyrir því að svo yrði?  Ég virði það við þau, að ætla að hafa kynningarefni hlutlaust, en hafi það verið svona mikilvægt fyrir efnahag þjóðarinnar, þá hefðu þau átt að vera meira áberandi.  Út frá þessu, getur þá ekki bara verið að þeim finnist niðurstaðan ekki svo slæm.  Steingrímur talaði ekki sjaldnar um Icesave sem óskapnað (sem er svo sem rétt), en bendir það ekki einmitt til þess að hann hafi hreinlega ekki getað talað fyrir málinu gagnvart almenningi, þó hann hafi leikið hlutverkið vel gagnvart Alþingi.


Færslan var skrifuð við fréttina:  Fleiri segja já í Reykjavík