Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 24.11.2011. Efnisflokkur: Skuldir þjóðarbúsins
Í umræðu um Icesave sumarið 2009 bentum við Haraldur Líndal Haraldsson á þetta vandamál, sem fjallað er um í frétt mbl.is, og hef ég reglulega haldið því á lofti. Það er gott að menn séu loksins að fatta það. Þessi vandi eykst enn frekar, þegar nýju bankarnir greiða þeim gömlu 76 ma.kr. hagnað af betri innheimtu lána, en sú tala getur endað í 320 ma.kr. Af þeirri ástæðu einni er hagstæðast fyrir endurreisn hagkerfisins, að nýju bankarnir reyni ekki að innheimta neitt umfram lágmarksmat Deloitte á lánasöfnunum.
Þó svo að nýju bankarnir ættu gjaldeyri upp á einhverja tugi milljarða, þá hefði greiðsla hans til gömlu bankanna alltaf neikvæð áhrif á gengi krónunnar. Ástæðan er einföld. Meðan gjaldeyrinn er notaður í greiðslu til gömlu bankanna, þá er hann ekki notaður í uppbyggingu innanlands.
Ég sé enga ástæðu til þess að aðrar reglur gildi um þrotabú gömlu bankanna/kröfuhafa þeirra og aðra sem eiga krónur fastar í landinu. Einar reglur verða að gilda fyrir alla.
Aflétting gjaldeyrishafta í bráð útilokuð með verðtryggingu
Eins og það væri gott að aflétta gjaldeyrishöftunum sem fyrst, þá er það útilokað meðan verðtrygging íbúðalána er við líði í óbreyttri mynd. Besta leiðin er setja þak á árlegar verðbætur fyrir árið 2012 til að byrja með og opna síðan fyrir útflæði gjaldeyris í mjög takmarkaðan tíma. Þannig mætti til dæmis opna upp á gátt í 2 vikur í febrúar og hleypa öllum gjaldeyri út sem vildi fara. Gengið myndi örugglega falla um tugi prósenta, en ætti að jafna sig að einhverju leiti aftur innan nokkurra vikna. Sama árangri mætti ná með því að opna fyrir útflæðið á föstu gengi með 30, 50 eða þess vegna 80% álagi á gjaldeyriskaup, þ.e. búa til sýndargengi eða hliðargengi. Mikilvægast er að þetta ástand vari bara í mjög stuttan tíma og þeir sem ekki nýttu sér það væru jafnframt að skuldbinda sig til lengri tíma.
Færslan var skrifuð við fréttina: Ekkert liggur fyrir um krónur kröfuhafa