Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 16.4.2011.
Eins og ég fjalla um í síðustu færslu (sjá Kynnir Arion banki sér ekki dóma Hæstaréttar? - Eru mörg gjaldþrot byggð á svona vitleysu?) þá fór Arion banki sneypuför í Hérðasdóm Reykjavíkur í dag. Var bankinn gerður afturreka með kröfu um gjaldþrotaúrskurð, þar sem krafan var byggð á ólögmætri gengistryggingu. Þó maður sé nú orðinn nokkuð sjóaður i að lesa dóma, þá yfirsást mér mikilvægasta atriði dómsins. Í niðurstöðukafla dómsins er líkalegast ein stærsta setning í hagsmunabaráttu heimilanna fyrir réttlæti varðandi skuldamál, a.m.k. hina síðari mánuði. Er hana að finna í eftirfarandi texta:
Sóknaraðili lagði fram við munnlegan flutning málsins yfirlit um skuld varnaraðila. Skjalið er ekki skilmerkilegt í tengslum við þau álitamál sem hér eru uppi. Sóknaraðili hélt því fram í málflutningi að vextir hefðu ekki verið greiddir að fullu. Nánari skýring var ekki gefin á þessu. Ekki er reifað skýrlega hvenær vanskil urðu á láninu. Þá er ekki heimilt að reikna á ný afborgun af vöxtum og höfuðstól, ef hún hefur verið greidd að fullu á réttum gjalddaga eins og krafist var. Er málið ekki reifað nægilega af hálfu sóknaraðila til að unnt sé að reikna skuld varnaraðila. Verður að líta til þess að höfuðstóll nam 25.000.000 króna, en greiddar hafa verið samtals 4.435.659 krónur. Skuldin er því sennilega ekki lægri en 20.564.341 króna. Hversu mikið hærri hún með réttu er verður ekki reiknað út frá framlögðum gögnum. Rétt væri að bæta við innheimtukostnaði, en þóknun sú sem sóknaraðili reiknar sér í gjaldþrotabeiðni er óhæfileg.
(Feitletrun er mín.)
Ekki vorum við fyrr búin að senda öll gögnin til ESA, en það kemur dómur á Íslandi sem staðfestir skoðun okkar um ólögmæti afturvirks vaxtareiknings.
Þá er ekki heimilt að reikna á ný afborgun af vöxtum og höfuðstól, ef hún hefur verið greidd að fullu á réttum gjalddaga eins og krafist var.
Tekið skal fram að þetta er ekki hluti af dómsorðum og gefur því ekkert fordæmi um það mun gerast. Þetta er aftur sýnir að einhverjir dómarar efast um lögmæti afturvirks endurútreiknings vaxta. Ég get ekki annað en dáðst af Jóni Finnbjörnssyni, héraðsdómara, en þetta er í annað sinn sem hann kemur með ákaflega áhugaverða niðurstöðu í dómsmáli. Í fyrri dómnum sem féll 30. apríl 2010, kvað Jón mjög ákveðið á um að ekki eingöngu væri gengistrygging ólögmæt (með vísan í héraðsdóma Áslaugar Brynjólfsdóttur frá 12. febrúar 2010) heldur gekk lengra og sagði samningsvexti halda. Hæstiréttur sniðgekk þá niðurstöðu þegar áfrýjunin var tekin fyrir og úrskurður kveðinn upp 16. júní í fyrra, sama dag og gengislánadómarnir féllu.
En núna segir Jón sem sagt að ekki sé heimilt að reikna á ný afborgun af vöxtum og höfuðstól, ef allt var gert eins og til var ætlast. Bráðnauðsynlegt er að fá þetta atriði tekið fyrir í Hæstarétti, þar sem endurútreikningur fjármálafyrirtækjanna byggir á því að hægt sé að reikna vextina á ný. Það sem Jón Finnbjörnsson er einfaldlega að segja er að afturvirkniákvæði laga Árna Páls Árnasonar nr. 151/2010, svo kölluð gengislánalög, standist ekki íslensk lög. Því miður styður Jón þetta ekki með lagatilvísun og veikir það niðurstöðuna, en óhætt er að segja, að hann hendi risastórri sprengju inn í þessa umræðu.
Umfjöllun dómara í anda leiðbeininga Evrópudómstólsins um neytendavernd
Taka skal fram að Evrópudómstóllinn (ECJ) hefur ítrekað sagt að dómstólum beri að skoða atriði þar sem hugsanlega er verið að brjóta á réttindum neytenda, þó svo að þeirra sé ekki getið í skriflegri greinargerð eða málflutningi. Raunar hefur snuðrað dómstóla fyrir að hafa ekki gætt réttinda neytenda, þegar fullt tilefni var til. Þannig hefði, ef fylgt hefði verið fordæmi ECJ átt að vísa bílalánamálinu sem loksins felldi gengistrygginguna frá dómi í Reykjavík og vísa því til Héraðsdóms Norðurlands á Akureyri á þeirri forsendu að þar var varnarþing hins stefnda. Reglan sé að sterkari aðili málsins eigi að sækja þann veikari heim. Það sem meira er að í máli C-76/10 Pohotovost fékk slóvenskur dómari á baukinn fyrir að taka gilda ósanngjarna vaxtakröfu.
Viðbót: Tekið skal fram, að Hæstiréttur breytti þessum dómi, þannig að niðurstaða réttarins sniðgekk ákvæðið um vextina.