Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 5.1.2011.
Lýsing er að bregðast við úrskurði Neytendastofu á sama hátt og Hæstiréttur gerði. Rétturinn velti því ekkert fyrir sér að fjármálafyrirtækin hafi brotið lög heldur hvernig væri hægt að bæta þeim upp tekjumissinn af lögbrotinu. Hæstarétti tókst að gera það sjálfgefið að svína eigi á neytendum.
Þeir sem hafa lesið dóm Hæstaréttar nr. 471/2010 frá 16. september sjá að rétturinn leggur sig í líma við að finna út forsendur fjármálafyrirtækisins fyrir lánveitingunni, en lét í léttu rúmi liggja forsendur lántakans fyrir lántökunni. Lýsing gerir nákvæmlega það sama. Fyrirtækið bendir (með sömu rökum og Hæstiréttur) að þrátt fyrir að fyrirtækið hafi klúðrað samningnum með því að tiltaka ekki að samningurinn hafi verið verðtryggður, þá skipti það ekki máli, þar sem það var forsenda fyrirtækisins fyrir lánveitingunni að samningurinn væri að hálfu verðtryggður.
Þessi farsi í kringum gengisbundnu lánin er sífellt að verða furðulegri. Eða raunar öll þessi lán. Meðan að það er meðaljóninn sem er að taka lánið, þá skal svínað á honum eins og hægt er. En sé það hluti af elítunni, sem fékk lánið, þá skal helst allt gefið eftir og viðkomandi fær að halda eigninni sem um ræðir.
Ég hef fylgst með þessu tiltekna máli frá því í september 2009. Það hefur farið marga króka og oftar en ekki leit út fyrir að það fengi ekki meðferð hjá Neytendastofu. Nú er niðurstaðan komin og stóridómur Lýsingar að auki. Ekkert hafðist upp úr málarekstrinum, þrátt fyrir að Lýsing hafi augljóslega sýnt algjöra vanhæfni við gerð lánaskjalanna. Raunar hefði Lýsing alveg eins mátt skrifa samningin á bréfþurrku, það hefði engu máli skipt, þar sem Hæstiréttur kvað upp þann úrskurð í september, að það eina sem skipti máli voru forsendur Lýsingar fyrir lánveitingunni. Engu máli skiptir að Lýsing hafi gert illilega á sig, Hæstiréttur segir að lántakinn eigi að þrífa buxurnar vegna þess að forsendur Lýsingar gerðu ráð fyrir að buxurnar væru hreinar.
Þannig er það því miður með stöðu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Lögbrot og klúður fjármálafyrirtækjanna skipta þau sem lánveitendur engu máli, þar sem Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að það er forsenda þeirra sem skiptir máli. Forsendur lántaka skipta engu máli. Þeir eru réttlausir í þessu landi. Skýrasta dæmið um þann fáránleika er þegar eiginkona lögmanns Lýsingar sér ekki sóma sinn í að víkja sæti í meðferð nefndar Alþingis um mál sem skiptir gríðarlega miklu máli varðandi tekjur heimilis hennar. Nei, það skal traðkað á réttindum neytenda og lántaka, Hæstiréttur er búinn að veita fordæmið um það hvernig á að fara að því. Það er gert með því að halda á lofti rétti hins sterka gegn rétti hins veika. Það er gert með því að verja þá sem keyrðu hagkerfið á kaf svo þeir komi sem best út úr því, en almenningur og þá sérstaklega þeir sem minnsta áhættu tóku eiga að tapa öllu sem þeir höfðu eignast og borga reikninginn með tekjum sínum um ókomin ár. Er nema von að fólk sé búið að fá upp í kok og flýi land í stórum hópum.