Limbó

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 18.7.2011. Efnisflokkur: Samantekt

Kaþólskir trúa (trúðu) því að sálir óskírðra barna fari til Limbó meðan verið væri að ákveða hvort þær enda í hreinsunareldinum eða á betri stað.  Sama á við um þá sem höfðu syndgað, en dóu í sátt við guð.  Þeir einir fara á betri staðinn sem fengið hafa fyrirgefningu synda sinna hjá Kristi, en hinir enda í helvíti.  Limbó er það sem einnig er kallaður forgarður helvítis.

Mér sýnist sem ástandinu í þjóðfélaginu í dag sé best lýst með orðinu LIMBÓ, a.m.k. þegar kemur að skuldastöðu heimilanna og fyrirtækja og fjárhagsstöðu lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja.  Heimilin eru send til umboðsmanns skuldara eða þjónustufulltrúa fjármálafyrirtækjanna og þar bíða þau í limbó eftir þvi að fá að vita hvort tekið er á málum þeirra á jákvæðan hátt eða þeim sagt að éta það sem úti frýs.  Fyrirtækjunum var beint inn á Beinu brautina fjármálafyrirtækjanna.  Eftir að sótt er um, þá bíða þau í ofvæni eftir því að vita hvort þau fái úrlausn sinna mála eða er sagt að éta það sem úti frýs.  Í seinni hópinn virðast helst fara fyrirtæki sem eru í samkeppni við fyrirtæki í eigu bankanna eða bankarnir eru búnir að koma í hendur "réttra" aðila.  Nú lifeyrissjóðirnir eru í limbó þar sem þeir vita ekki hvers virði mikilvægar eignir þeirra eru eða hvort þeir skuldi jafnvel 40% af eignum sínum aðilum sem léku á þá eins og smákrakka.  Loks eru fjármálafyrirtækin í limbó þar sem hafa ekki hugmynd um hvers virði lánasöfnin þeirra eru, hver niðurstaða mýgrúts af dómsmálum verður, hvort viðskiptavinir þeirra vilja yfirhöfuð eiga viðskipti við þau í framtíðinni og bara hvort þau lifi af næsta óróa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Óvissan sem skapaðist við hrun bankanna í október 2008 og ekki síður við fall SPRON í mars 2009 er því miður ennþá til staðar hjá gríðarlega stórum hópum í þjóðfélaginu.  Það sem ég varaði við í október og nóvember 2008 og febrúar 2009, að fjármálafyrirtækin eignuðust stóran hluta fyrirtækja og fasteignir heimilanna, hefur gengið eftir.  Fjármálafyrirtækin sem orsökuðu hrunið (og hin nýju afsprengi þeirra) eru hægt og bítandi að eignast allar eignir í þjóðfélaginu og skilja viðskiptavinina (sem hljóta núna að vera fyrrverandi) nánast eignalausa.  Ótrúlega fáránleg niðurstaða.  Og séu menn ekki hlíðnir og borgi allt, þá geta þeir lent í skuldafangelsi, en hinir sem orsökuðu hrunið, þeir eru bara í góðum málum enda voru þeir með allt sitt í einkahlutafélögum.  Fáránleikinn tekur síðan engan endi í því að margir af þeim sem voru í fínum stöðum í hrunbönkunum, eru að vinna fyrir slitastjórnir, skilanefndir og nýju bankana að því að herða hengingarólina um fólk og fyrirtæki eða hirða af þeim allar eignir.  Sem sagt starfsfólkið sem hannaði atburðarásina er að sjá til þess að hún endi eins og til var ætlast.

Einu sinni var ég heppinn en ekki lengur

Fyrir þremur árum, þá taldi ég mig vera mjög heppinn með að vera í viðskiptum við SPRON og fyrir sjóðsins.  Þar var gott starfsfólk og allar ákvarðanir voru teknar hratt og vel af starfsfólki sem passaði sig á því að halda góðri nánd við viðskiptavininn.  Nú er öldin önnur.

Það verða að teljast einhver stærstu mistök stjórnvalda að láta ekki SPRON fara sömu leið og hin fjármálafyrirtækin, þ.e. stofna nýtt fjármálafyrirtæki á rústum hins gamla.  Í staðinn kom svarthol.  Eins og fólk veit hefur svarthol þann eiginleika að sjúga allt til sín og skila engu til baka.  Ótrúlega margir snúa sér til mín varðandi viðskipti sín við þetta fyrirtæki, sem í dag heitir Drómi.  Það ber nafn með rentu.  Reipinu Dróma var ætlað að binda Fenrisúlfinn fastan í goðaheimum, en gerði lítið gagn.  Kannski þeir ættu að skipta um nafn á fyrirtækinu og kallað það Gleipnir, því það var jú Gleipnir sem skilaði niðurstöðunni sem búist var við.

Ég segi að þetta hafi verið stærstu mistök stjórnvalda og langar að útskýra það í stuttu máli.  Þar sem stofnaðir voru nýir bankar á rústum hrunbankanna, þá voru þeir í reynd starfræktir áfram bara undir nýjum kennitölu (þó deila megi um það hvort það er nýja eða gamla kennitalan sem í reynd sú sem gildir).  Þar með var viðhaldi samfeldni í rekstri og viðskiptum við viðskiptavini hrunbankanna.  SPRON var settur gjaldþrot.  Þar með breyttist viðskiptasambandið milli sjóðsins og viðskiptavinanna í samband milli þrotabús sem heyrir undir löggjöf um gjaldþrotaskipti og skuldara þrotabúsins, þ.e. við sem voru áður viðskiptavinir SPRON/FF erum búin að missa þá stöðu og þrotabúið þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að viðhalda samfeldni.  Lög um gjaldþrotaskipti virka líka þannig, að skiptastjóra er hreinlega skylt að hámarka virði eigna og kröfuhafar geta kært slitastjóra sem ekki sinnir þeirri skyldu sinni.

Hugsanlega ætluðu stjórnvöld að sýna mátt sinn og megin, þegar ákveðið var að setja SPRON/FF í þrot í staðinn fyrir að fara þá leið sem farið var gagnvart hrunbönkunum.  Þúsundir fyrrverandi viðskiptavina sjóðsins eru nú að líða fyrir þá vöðvahnykkingu.