Geta bankamenn (og fleiri) átt yfir höfði sér allt að 6 ára fangelsi vegna gengistryggðra útlána fjármálafyrirtækjanna?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 21.7.2011. Efnisflokkur: Gengistrygging, Dómstólar

Ég var spurður að því um daginn hvort að útgáfa og innheimta fjármálafyrirtækja á gengistryggðum lánum gæti hafa verið refsiverð athöfn.  Vísaði viðkomandi þá sérstaklega til 264. gr. laga nr. 19/1940 almennra hegningarlaga.  Þar sem mér finnst eðlilegt að svara fyrirspurnum sem til mín berast (þó það dragist stundum og gleymist líka oft), þá lagðist ég í smá rannsókn á þessu máli.

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 38/2001, þá varðar það sektum ef brotið er gegn ákvæðum VI. kafla laganna.  Svo vill til að Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Landsbanki Íslands (síðar NBI hf. og núna Landsbankinn hf.), Kaupþing banki (síðar Nýi Kaupþing banki og núna Arion banki), Glitnir (síðar Nýi Glitnir og núna Íslandsbanki), Lýsing hf., SP-fjármögnun hf., Avant hf. og Frjálsi fjárfestingabankinn hf. (líklegast Drómi hf. í dag) brutu öll gegn 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, en þessar greinar eru einmitt í VI. kafla laganna.  17. gr. hljjóðar sem hér segir:

Brot á VI. kafla laga þessara varða sektum nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt öðrum lögum.

Nú í lögum nr. 19/1940 almennum hegningarlögum segir í 248. gr.: 

Ef maður kemur öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum.

og í 264. gr. segir m.a.:

Hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á lögum þessum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skal sæta fangelsi allt að 6 árum.

Nú veit ég bara að þeir bankar, sem ég á í viðskiptum við, reyndu allt síðast liðið ár (og einn raunar fram í mars á þessu ári) að innheimta hjá mér afborganir með gengistryggingu þrátt fyrir dóma Hæstaréttar frá 16. júní í fyrra.  Virðist mér sem með því hefi þeir verið að brjóta gegn 248. gr. hegningarlaga.  Nú mér voru sendar innheimtukröfur á hverjum gjalddaga og greiddi ég þær eins lengi og ég gat og þar til ég áttaði mig á því að um ólöglegar innheimtukröfur að ræða.  Sýnist mér sem það hafi verið brot á 264. gr. laganna.  Brot gegn báðum þessum greinum varða allt að 6 ára fangelsi og samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 81.gr. hegningarlaga, þá fyrnist sök vegna slíkra brota á 10 árum.  Einhverjum gæti dottið í hug að sekt sé ekki refsing, en því er fljót svarað:  Refsing getur hvort heldur verið sekt, skilorðsbundinn fangelsisdómur eða óskilorðsbundinn fangelsisdómur.  Ákvæði 264. gr. nær því yfir brot á VI. kafla laga nr. 38/2001.

En það er búið að leiðrétta þessi lán, hugsa vafalaust einhverjir.  Er það svo?  Er virkilega búið að leiðrétta að fullu þá hækkun lána einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélagasem kom til vegna þess sem RNA vísar til sem möguleg lögbrot stjórnenda og eigenda fjármálafyrirtækjanna?  Hvað síðan með allar vörslusviptingarnar og uppboð sem gerð voru á grunni ólöglegrar gengistryggingar?

Það eru síðan ekki bara bankamenn sem gætu átt yfir höfði sér kæru vegna brota á 264. gr.  hegningarlaga.  Greinin tekur nefnilega til allra sem aðstoða við brotin.  Þar koma ansi margir við sögu, svo sem skilanefndarmenn, slitastjórnir, vörslusviptingaaðilar, sýslumenn og fulltrúar þeirra, dómarar, starfsmenn Fjármálaeftirlitsins, starfsmenn Seðlabanka Íslands, starfsmenn stjórnarráðsins, ráðherrar og jafnvel þingmenn, þó fimm síðast töldu taki beinan þátt í verknaðnum, þá aðstoðuðu aðgerðir þeirra eða aðgerðarleysi fjármálafyrirtækin í brotum sínum.

Nú þýðir ekki fyrir fjármálafyrirtækin að bera fyrir grandleysi, þar sem samtök þeirra sendu inn umsögn við frumvarp að lögum nr. 38/2001 þar sem bent var á að þessi lán yrðu ólögleg færi þessi hluti frumvarpsins óbreyttur í gegn um Alþingi.  Brotaviljinn var því ótvíræður og ásetningurinn einbeittur.  Seðlabankinn og viðskiptaráðuneytið höfðu á vormánuðum 2009 í höndum lögfræðiálit þar sem sagt var nánast augljóst að gengistrygging væri ólögleg.  Búið var að benda FME á hið sama.  Gr. 264 segir ekkert um að viðkomandi þurfi að vera meðvitaður um lögbrotið, þannig að ekki hægt að bera þekkingarleysi fyrir sér.

Þetta eru náttúrulega bara mínar vangaveltur í kjölfar spurningarinnar sem ég fékk og væri gott að fá viðhorf löglærðra einstaklinga á þeim.  Einnig væri áhugavert að fá ábendingar um það hverjir það eru sem gætu kært þennan verknað, hverja væri í reynd hægt að kæra og hvert ætti að kæra.  Síðan væri gott að vita hvort slík kæra yrði til þess að um opinbert mál eða einkamál yrði að ræða. 

Það er með þetta eins og margt annað, að væri búið að leysa skuldamál heimila og fyrirtækja með farsælum hætti, þá væri fólk ekki velta þessum hlutum fyrir sér.  Enginn er mér vitandi á leiðinni með að kæra einn eða neinn vegna þessara mála, en ljóst er að farið er að styttast í kveikjuþræðinum.

Athugasemdir með færslu:

Guðmundur Ásgeirsson:

Enginn er mér vitandi á leiðinni með að kæra einn eða neinn vegna þessara mála

Segðu mér hvert á á að leita, og ég skal leggja inn kæruna! Hér er samantekt á viðbrögðum þeirra sem ég hef sjálfur reynt að fá til að framfylgja lögunum:

  • FME: þykist ekkert vita og tekur beinan þátt í yfirhylmingunni

  • Fyrrv. viðskiptaráðherra: sagðist myndi skoða málið (hættur)

  • Dómsmálaráðherra: sagðist myndi skoða málið (það var í fyrra) 

  • Sýslumaður: setur lögbann á fjölmiðla en ekki vörslusviptingu

  • LRH: segir þetta ekki lögreglumál, vísar á eftirlitsaðila

Auk þess hef ég spurt óformlega fyrir hjá Umferðarstofu um þúsundir ökutækja sem eru líklega skráð á ranga eigendur, síðan hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að vaxtaberandi "bílasamningar" væru í raun lán til bílakaupa en ekki kaupleigusamningar. Svörin bentu til þess að frumkvæðið að leiðréttingu á þessu þyrfti að koma annarsstaðar frá, en ekki fylgdi sögunni hvaðan.

Þá er tveir aðilar sem eftir standa og hafa það í sínum verkahring að framfylgja lögum á þessu sviði: Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra og Sérstakur Saksóknari. Ég á eftir að láta reyna á það í eigin persónu, en ég veit að aðrir hafa sent erindi til þeirra sem ganga út á nokkurnveginn það sama.

Hvort er þetta vanhæfni, spilling, meðvirkni, eða allt þrennt?

Hvers vegna er svona ofboðslega djúpt á réttlætinu???”

Erlingur Alfreð Jónsson:

“Það er fagnaðarefni að þessi umræða er tekin upp á svona víðlesnu bloggi eins og þínu. Vonandi verður framhald þar á og fleiri íhuga að kæra stjórnendur og starfsfólk sinna viðskiptaaðila vegna þessara brota.

Eins og áður er það almennra borgara að bera gunnfánann í þessari orrustu og eftirlitsaðilar standa og horfa á. Ég get nefnt einn sem er á leiðinni að kæra vegna þessara mála, þ.á.m. vegna brota gegn 264.gr. almennra hegningarlaga sem þú nefnir ásamt fleiri greinum. Ég hef tekið saman rökstuðning sem spannar um 20 síður, án nauðsynlegra fylgigagna, vegna þess sem ég tel lögbrot gegn nokkrum greinum almennra hegningarlaga við umsýslu míns samnings. Meintir lögbrjótar eru 19 talsins og telja núverandi og fyrrverandi stjórnarmenn, framkvæmdastjóra, fyrrverandi innheimtustjóra og starfandi lögfræðing. Ekki verða varastjórnarmenn eða lægra settir starfsmenn nefndir. 

Við leit á netinu vegna þessarar vinnu fann ég ritgerð Elisabeth Patriarca til embættisprófs í lögfræði frá HÍ í júní 2010 þar sem fjallað er um fjársvikaákvæði 248.gr. Í ritgerðinni segir m.a. eftirfarandi:

"Ragnheiður Bragadóttir prófessor lýsir einkennum fjársvika þannig að beitt er saknæmum blekkingum með því að skýra vísvítandi rangt frá einhverjum atriðum eða leggja vísvitandi launung á einhver atriði til þess að ná fram ákveðnu markmiði.” Það markmið sem stefnt er að með blekkingunum er að ná fram fjárhagslegum ávinningi. Samkvæmt skilgreiningu Ragnheiðar er beitt vísvitandi blekkingum til að ná fjárhagslegum ávinningi. Einnig spilar vísvitandi launung mikilvægan þátt í verknaðarlýsingunni þegar reynir á blekkingu sem verknaðaraðferð.28 Fjársvikaákvæðið er almennt varðandi aðferðir sem hægt er að beita, þótt afleiðingarnar séu takmarkaðar við fjárhagslegar afleiðingar. Í grein sinni um fjársvik lýsir Ragnheiður því hvernig tilteknum aðferðum er beitt til að hafa áhrif á eða notfæra sér huglæga afstöðu blekkingarþola til þess að fá hann til ráðstöfunar. Þar segir: Hinn brotlegi nær fjárhagslegum ávinningi með því að segja vísvítandi rangt frá einhverju eða leyna einhverju vísvitandi og vekur þannig villu hjá blekkingarþola eða hann styrkir villu, sem fyrir er. Blekkingarþoli byggir síðan athafnir sínar á villunni. Einnig er hugsanlegt, að villan sé fyrir hendi hjá blekkingarþola í upphafi og hinn brotlegi hagnýti sér hana. 29. Verknaðurinn hefst þegar hinn brotlegi ákveður að notfæra sér villuna. 31 Til að hægt sé að beita 248. gr. er það grundvöllur ákvæðisins að það verði að vera villa til staðar hjá brotaþola."[leturbreyting er mín]

Voru neytendur í villu um að lögmæti gengistryggðra lán? Svarið er auðvitað já.  Höfðu einhverjir fjárhagslegan ávinning af þessari villu?  Svarið er auðvitað já.  Stjórnendur fjármálafyrirtækjanna fengu allir bónusa og greiðslur vegna “góðrar afkomu” sinna fyrirtækja, sem fengin var með ólögmætum gjörningum. 264.gr. tekur svo á athöfnum aðila til að tryggja öðrum slíkan ávinning, og þar komum við að hlutverki starfsfólks fjármálafyrirtækjanna.

Ég tel að svona kæru eigi að afhenda efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra sem þá vonandi metur hana réttmæta og sendir áfram til sérstaks saksóknara.

PS: Grein Ragnheiðar Bragadóttur sem Elisabeth vísar til heitir: “Villan og hið ólögmæta atferli hins brotlega skv. 248. gr. aml. hgl.” og birtist á bls. 3-52 í 1. tbl. Úlfljóts, árið 1985. “