Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 17.11.2011.
Eftir því sem ég hef kynnt mér betur orsakir hruns fjármálakerfa heimsins, hruns íslenska efnahagskerfisins og ekki síst hruns íslensku bankanna, þá er mér sífellt betur ljóst að orsakanna er að leita í hugarfari. Rétt er að regluverk var víða gallað, að stjórnmálamenn voru ekki vakandi á vaktinni, að eftirlitsaðilar stóðu sig ekki í stykkinu og svona mætti lengi telja. Ekkert af þessu skiptir máli í raun og veru, því þó allt af þessu hefði verið í lagi, þá er ekkert sem segir að niðurstaðan hefði verið önnur eða afleiðingarnar verið svipaðar. Það var nefnileg vilji manna til að gera það sem þeir gerðu sem skipti mestu máli, ekki reglurnar sem þeim voru settar.
Vatn leitar til sjávar, sama hvað gert er. Sé komið fyrir hindrunum í þess eðlilega farvegi, þá finnur það sér leið framhjá henni. Sama á við þann sem ekki ætlar að hlita lögum og reglum, að séu sett ný lög eða nýjar reglur mun viðkomandi finna sér leið framhjá þeim. Ástæðan er ekki ónýt lög eða lélegar reglur heldur hugarfar þess sem ekki ætlar að virða lögin og reglurnar.
Allar breytingar, sem skila árangri, byrja innan frá. Virðing mín í samfélaginu byggir á því að ég beri virðingu fyrir sjálfum mér. Beri ég ekki virðingu fyrir sjálfum mér, þá er engin ástæða til þess að aðrir beri virðingu fyrir mér. Hugsanlega bera aðrir meiri virðingu fyrir mér en ég sjálfur, en hún líklegast þverra nema læri að bera virðingu fyrir mér sjálfum. Sama er það með trúna á sjálfan mig.
Ég get staðið mig vel í skóla samanborið við aðra nemendur, en er það rétt mat á árangri? Er ekki besti árangurinn að standa sig betur í dag en í gær. Hvaða máli skiptir þó ég hafi fengið hærri einkunn í stærðfræði en Siggi? Gerir það mig betri fyrir vikið? Hvað gerist þá eftir næsta próf, þar sem ég fæ lægri einkunn en Siggi? Er ég allt í einu lélegur námsmaður eða var það bara Siggi sem tók meiri framförum en ég?
Eini mælikvarðinn fyrir framförum mínum er ég sjálfur. Allt annað eru sýndarviðmið sem gera ekkert annað en að brengla viðmiðið. Leikmaður sem ekki sleppur í lið getur ekkert annað gert, en farið á næstu æfingu og lagt sig harðar fram. Og svo ennþá harðar, þar til þjálfarinn getur ekki lengur gengið framhjá honum við val á liði.
Siðgæðisvitundin er mælikvarðinn
Hvað sem ég geri verð ég að eiga við mína eigin samvisku. Fái ég samviskubit yfir gjörðum mínum, þá er ég að brjóta gegn siðgæðisvitund minni. Geri ég eitthvað ólöglegt og fæ ekki samviskubit yfir því, þá er siðgæðisvitund mín eitthvað brengluð. Stofni ég afkomu fjölda fólks í hættu, vegna þess að ég vil græða aðeins meira, og finnst það allt í lagi, þá er það vegna þess að siðgæðisvitund mín er verulega brengluð.
Siðgæðisvitund mín á að vera hornsteinn minn sem persónu. Hún á að koma í veg fyrir að ég brjóti lög, svindli á öðrum, níðist á öðrum, komi fram af ókursteisi o.s.frv. Hún á líka að sjá til þess að viðkomandi hafi samúð með þeim sem minna mega sín, veiti þurfandi hjálparhönd, sýni alúð og væntumþykju, veri heiðarlegur, réttsýnn, o.s.frv.
Ekki erum við öll með sömu siðgæðisvitundina, sem betur fer. Vandi samfélagsins er hve margir eru með verulega skerta eða brenglaða siðgæðisvitund. Hve stór hluti fólks þykir hið besta mál að sniðganga lög og reglur eða bara finnst eðlilegt að koma fram af fullkomnu tillitsleysi við meðbræður sína. Það er þetta sem er stærsta vandamálið okkar og lögum við ekki þetta, þá skiptir engu máli hverju öðru við breytum. Í sumu tilfellum má leita ástæðunnar fyrir skertri siðgæðisvitund til sjúkleika.
Hvort kemur á undan..
Ég var um daginn á fundi, þar sem var mikil umræða um nýja stjórnarskrá. Stór hluti fundarmanna leit á nýja stjórnarskrá sem hið nauðsynlega upphaf Nýja Íslands. Þessu er ég ósammála. Upphaf nýs Íslands er breytt hugarfar, breyting á siðgæðisvitund í þá átt að velferð landsins komi á undan velferð einstaklingsins, flokksins, fyrirtækisins, kjördæmisins, liðsins eða hvað það nú er sem málið snýst um.
Hrun íslenska hagkerfisins er skýrt dæmi um það, þegar hagsmunir fárra voru teknir fram yfir hagsmuni heildarinnar. Eða á ég að segja, að það sem áttu að vera hagsmunir fárra (það snerist víða upp í andhverfu sína) voru teknir fram yfir það sem hefðu geta orðið hagsmunir heildarinnar. Hrun bankakerfisins er líka dæmi um þetta. Ekki bara hér á landi heldur alls staðar.
Menn vilja bregðast við hruni fjármálakerfisins með því að setja nýjar reglur, en hvað mun koma í veg fyrir að menn sniðgangi þær? Hvers vegna þarf yfirhöfuð reglur? Ætti ekki siðgæðisvitund einstaklingsins að vera nægilega sterk og hrein til að skilja að eitthvað athæfi er ekki rétt? Ok, við viljum reglur til að samræma, þannig að allir sitji við sama borð, hafi sambærilegan skilning á grundgildum samfélagsins. En þýðir það þá, að ef eitthvað ósiðlegt er ekki bannað, þá sé sjálfsagt fyrir okkur að gera það? Nei, að sjálfsögðu ekki. Þó ekki sé allt bannað með lögum, þá á siðgæðisvitund okkar að banna okkur það. Lögfest boð og bönn eiga ekki að vera endanlegur listi yfir það sem við eigum ekki að gera, heldur bara ábending um það sem ekki má gera og síðan á siðgæðisvitund okkar að bæta heilum helling við, sem hún gerir. Vandinn er að bæði erum við ekki alltaf trú okkar almennt ríkjandi siðgæðisvitund og hins vegar er siðgæðisvitund þjóðarinnar misjöfn. Af því leiðir að bæði verður listinn yfir það sem er bannað sífellt lengri og forræðishyggja verður áberandi. Hvorutveggja vinnur gegn sterkri og heilstæðri siðgæðisvitund, þar sem hvatirnar til hegðunar okkar koma utan frá. Þær eru ekki okkar, heldur "þeirra". Og það sem er "þeirra" er mun auðveldara að brjóta gegn, en það sem er okkar eigið.
Í fjötrum hugarfars
Oft er talað um að samfélög séu föst í fjötrum hugarfars. Segja má að svo sé ástatt um okkur. Stjórnmálamenn, hagsmunaaðilar, fjármálafyrirtæki og við almenningur erum öll meira og minna föst í ákveðnum fjötrum. Þetta eru fjötrar hins gamla Íslands. Alþingi hefur glatað virðingu landsmanna, vegna þess að fólk upplifir Alþingi sem leikvöll en ekki löggjafarsamkundu. Leikvöll, þar sem bara sumir fá að vera með og skoðanir skipta ekki máli nema þú sért í réttu klíkunni. Engu skiptir þó völdin færist á milli klíka, það eru bara þeir sem eru innan valdaklíkunnar sem hlustað er á. Sama gildir um hagsmunaaðila, hvort heldur á hlið atvinnurekenda eða launþegar. Sértu ekki í klíkunni, þá skiptir engu hvað þú hefur fram að færa. Og við almenningur erum ekki barnanna best. Ekki má tengja neitt við Framsókn, þá upphefjast gengdarlausar árásir þeirra sem er alveg sama um hvað var sagt en sjá bara hver sagði. Þjóðarsálin er stundum svo föst í fjötrum fortíðarinnar að mesta furða er að hún kunni að nota tölvu.
Meðan þetta ástand varir, þá verður engin breyting. Ný stjórnarskrá verður bara orð á blaði, því hugarfarið er fast í fortíðinni. Viljum við breytingu, þá verðum við að leita inn á við. Við verðum að búa okkur sjálf undir breytt Ísland og leysa okkur sjálf úr fjötrunum sem við erum sjálf búin að festa okkur í. Um leið og þessi innri breyting hefur átt sér stað, þá munu ytri breytingarnar koma meira og minna af sjálfu sér.