Spár Hagsmunasamtaka heimilanna ganga eftir

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 13.8.2011. Efnisflokkur: Skuldamál heimilanna

Mér þykir leitt, en ég verð að segja það:

Við sögðum að þetta myndi gerast.

Flumbrugangur stjórnvalda hefur gert það að verkum, að þúsundir heimila munu missa eignir sínar á nauðungarsölu og einstaklingarnir sjálfir fara í gjaldþrot.  Vissulega eru tilfelli þar sem þetta hefði verið niðurstaða, hvað sem hefði verið gert, en að þúsundir á þúsundir ofan skuli vera að horfa á eftir eignum sínum á nauðungarsölur, þar sem stjórnvöld hafa neitað að leiðrétta stökkbreytingu lána heimilanna (og fyrirtækja) sem orsökuðust af svikum, lögbrotum, prettum og fjárglæfrum fjármálafyrirtækja í undanfara hrunsins. 

Í reynd er það stærsti glæpurinn sem hefur verið framinn, að líta á illa fengna hækkun lána sem réttmæta eign lánadrottna.  Meira að segja í Bandaríkjunum, þar sem fjármagnið stjórnar öllu, hafa menn áttað sig á, að það er óréttlátt að heimilin beri þungann af fjárglæfrum fjármálafyrirtækjanna.  En hér á landi, þá skjálfa Steingrímur J og Árni Páll eins og hríslur í vindi yfir mögulegum, já, mögulegum, málaferlum kröfuhafa.  Kröfuhafa sem eru margir hverjir ekki upprunalegir eigendur krafna á hrunbankana, heldur keyptu þær á skít á priki af tryggingafélaginu, sem greiddi upprunalegum eigendum út kröfu sína fyrir langa löngu.

Þetta er sami Steingrímur sem hefur í gegn um tíðina lamið á hverri ríkisstjórninni á fætur annarri fyrir linkind og rolugang.  Hafa minnst 6 formenn Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Framsóknarflokks fengið að heyra reiðilestur Steingríms, en nú kemur í ljós að hver er sér næstur.  Mesta rolan af öllu reynist Steingrímur sjálfur.  Honum finnst hið besta mál að fórna almenningi í landinu svo ótilgreindir kröfuhafar banki nú ekki hugsanlega upp á hjá honum og stefni honum mögulega fyrir dóm.


Færslan var skrifuð við fréttina: Fjöldi fasteigna sleginn á uppboði