Kröftugur fundur á Austurvelli - Ræðan mín í dag

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 6.2.2010.

Fundurinn á Austurvelli í dag var mjög góður.  Drápa Magnúsar Guðmundssonar var feykilega góð.  Ég fékk að heyra hana nokkrum sinnum og varð hún betri í hvert sinn.  Vona ég að Magnús gefi drápuna út sem fyrst. 

Ræðumenn dagsins voru nokkrir og rak ég sjálfur lestina.  Skilaboð allra voru nokkurn vegin þau sömu:  Við viljum eðlilega, sanngjarna og réttláta leiðréttingu á höfuðstóli lána heimilanna.

Hér fyrir neðan er svo ræðan mín:

Stöndum vörð um heimilin – Ræða á Austurvelli 6.02.2010

Marinó G. Njálsson

Fyrir tæpu ári hélt ég ræðu hér á Austurvelli.  Hún byrjaði á þessum orðum:

„Það er komin ný ríkisstjórn og það örlar á breytingum, enda tími til kominn.“ 

Mikið hafði ég rangt fyrir mér.  Ég, eins og svo margir aðrir, lét blekkjast af fögrum orðum Jóhönnu og Steingríms um að þau ætluðu að slá skjaldborg um heimilin.  Ég misskildi málið og áttaði mig ekki á því að skjaldborgin var til að tryggja að heimilin færu ekkert og peningarnir bara til bankanna.  Það átti að tryggja að fjármálafyrirtækin næðu til sín eignum heimilanna eins hratt og hægt væri.

Núna ári seinna hefur Íbúðalánasjóður yfirtekið meira en 400 eignir.  Hátt í 2.000 til viðbótar bíða þess að fara á nauðungaruppboð.  44% launþega hafa, samkv. könnun ASÍ, orðið fyrir kjaraskerðingu.  Helmingur heimila ná ýmist alls ekki endum saman eða gera það með naumindum.  60% félagsmanna í félagi vélstjóra og málmiðnaðarmanna ná ekki endum saman.  Ástandið versnar dag frá degi og eina sem stjórnvöld gera er að henda brauðmolum í lýðinn.

Ég sit í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna og hef fengið að kynnast ástandinu frá ýmsum sjónarhornum.  Á hverjum degi fæ ég tölvupósta og upphringingar frá fólki sem segir farir sínar ekki sléttar í baráttunni við fjármálafyrirtækin.  Þetta eru ekki skemmtilegar sögur að heyra, en þær lýsa hve alvarlegt ástandið er í þjóðfélaginu.  Stjórnarskiptin í fyrra reyndust ekki endalok baráttu okkar fyrir hagsmunum heimilanna.  Nei, baráttan var þá rétt að byrja og henni er langt frá því lokið.  En við getum það ekki nema með ykkar hjálp og því vil ég hvetja alla, sem ekki hafa gert það, að ganga í samtökin með því að skrá sig á heimsíðum samtakanna, heimilin.is.  Við ætlum ekki að hætta baráttu okkar fyrr en búið er að slá skjaldborg um heimilin og verja það verðmætasta sem til er í samfélaginu, fjölskylduna og þá fyrst og fremst börnin, fyrir ágangi kröfuhafa.  Þessara sömu kröfuhafa, sem keyrðu allt í kaf og ætla nú að nota húsnæðið OKKAR til að bjarga sjálfum sér.  Þeir eiga ekkert inni hjá okkur.  Það erum við sem eigum heilmikið inni hjá þeim.  Til dæmis væri einföld beiðni um fyrirgefningu gott fyrsta skref í staðinn fyrir að segja „Ég ber ekki ábyrgð“.  Við vitum alveg, að þetta átti ekki að enda svona.  En ælan er samt út um allt. 

Við eigum kröfu um að þeir komi að borðinu með alla sína peninga, líka þá sem geymdir eru á leynireikningum í skattaskjólum, og taki byrðarnar af almenningi.  Við eigum kröfu um að þeir komi og þrífi æluna upp eftir sjálfa sig.

Ég skil vel að það þurfi að endurfjármagna bankakerfið.  Ég skil vel að það hafi þurft að vernda innistæður á bankareikningum.  Ég skil líka vel að rétta þurfti af Seðlabankann eftir að stjórnendur hans settu hann í þrot.  En ég skil ekki af hverju það á að gera þetta allt með fasteignum landsmanna, fasteignunum okkar.  Ég skil ekki af hverju bönkunum er sett sjálfdæmi um það hverjir fá að halda húsum sínum og hverjir ekki.  Og ég skil alls ekki, af hverju kröfuhafar geta keypt eignir á spottprís og síðan krafið þann sem var að missa húsið sitt, fyrir næstum ekki neitt, um afganginn af skuldinni.  Hér er eitthvað stórvægilegt að og þrátt fyrir að búið er að benda á þetta trekk í trekk, þá breytist ekkert.  Þessu verður að breyta áður en frestun nauðungarsala rennur út í lok mánaðarins.

Allt tal um að bankarnir hafi gert Ísland að risastórum vogunarsjóði er fyrirsláttur.  Ísland er búið að vera risastór vogunarsjóður frá því að verðtrygging lána var tekin upp.  Verðtryggingin verður að hverfa af fasteignaveðlánum og það sem fyrst.

Þetta sem ég hef verið að lesa upp er að mestu úr ræðunni minni fyrir ári.  Það hefur nefnilega lítið breyst.

Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna höfum sett fram kröfur um breytingar.  Kröfur okkar eru skýrar, nauðsynlegar og réttlátar:

 

1.       Við viljum leiðréttingu á verðtryggðum lánum. 

2.       Við viljum leiðréttingu á gengistryggðum lánum.  

3.       Við viljum afnám verðtryggingar svo fljótt sem auðið er.

4.       Við viljum jöfnun á áhættu milli lánveitenda og lántaka með þaki á vexti.

5.       Við viljum að ekki sé hægt að elta lántaka eftir að búið er að taka eign sem sett var að veði.

6.       Við viljum að veðlán takmarkist við það sem sett er að veði.

7.       Síðan viljum við sjá samfélagslega ábyrgð fjármálafyrirtækja, þar sem hagsmunir þjóðarinnar skipta meira máli en stundargróði.

Föstudaginn 19. febrúar munu Hagsmunasamtök heimilanna blása til þriðja greiðsluverkfalls samtakanna.  Í þetta sinn verður það ótímabundið.  Greiðsluverkfallið verið kynnt betur þegar nær dregur og síðan á opnum fundi í Iðnó fimmtudaginn 18. febrúar.  Við hvetjum þá sem taka þátt í verkfallinu að skrá sig á heimasíðu samtakanna, heimilin.is.  Við blásum til greiðsluverkfalls vegna þess að hvorki stjórnvöld né fjármálafyrirtækin virðast átta sig á ástandinu eða þau vilja ekki virða rétt okkar.  Við höfum óskað eftir viðræðum um vanda heimilanna, en einu skiptin sem minnst er á okkur er í hátíðarræðum.  Viðræður eru fundir, þar sem báðir aðilar leggja sína hlið til málanna og reynt er að finna lausn sem báðir aðilar fallast á.  Til að koma þessum viðræðum af stað munu Hagsmunasamtök heimilanna leggja fram heilsteyptar hugmyndir á næstu vikum.  Hugmyndirnar munu ná yfir leiðréttingu lána, breytingar á lögum lántökum og neytendum til hagsbóta og gjörbreytt lánakerfi.  Það er ekki víst að þessar hugmyndir falli öllu í geð og þær munu ekki bjarga öllum. En þær eru fyrir framtíðina.  Þær eru fyrir börnin okkar.

Takk fyrir mig.


Þúsundir í skuldasúpunni