Fundur viðskiptanefndar um verðtryggingu

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.5.2010.

Ég sat í morgun, sem annar fulltrúi Hagmunasamtaka heimilanna, opinn fund viðskiptanefndar Alþingis um verðtrygginguna.  Auk mín var Friðrik Ó. Friðriksson frá HH.  Þá sat einnig með Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda.  Hlutverk okkar þriggja var að svara spurningum nefndarmanna um verðtrygginguna og skyld efni.

Efni fundarins var líka skýrsla Askar Capital um kosti og galla verðtryggingarinnar.  Ég ætla ekki að hafa mörg orð um skýrsluna, en vil þó segja:  Hún er langt frá því að vera nógu vel unnin.  Höfundar hennar draga taum verðtryggingarinnar í málflutningi sínum.  Meira að segja í kafla um galla verðtryggingarinnar, þá tekst þeim að nefna atriði sem lúta að kostum hennar!  Skýrslan er morandi í staðhæfingum sem engin rök eru færð fyrir eða eru hreinlega rangar.  Af þeirri ástæðu hvatti ég til þess á fundinum að Hagfræðistofnun HÍ eða annar óháður aðili verði fenginn til að semja nýja skýrslu og þar verði einnig svarað hvernig er hægt að afnema verðtrygginguna.

Spurningar þingmanna til okkar Friðriks voru margar mjög áhugaverðar, en full langar til hægt væri að ætlast til þess að þeim væri svarað í stuttu máli.  Aðrar voru þess eðlis, að ekki var hægt að ætlast til þess að við, stjórnarmenn í áhugamannasamtökum, hefðum sérfræðiþekkingu til að vita svarið.  En við gerðum okkar besta og í einhverjum tilfellum lumuðum við á óvæntri þekkingu.

Mergur málsins varðandi verðtrygginguna er að við værum ekki að hafa áhyggjur af henni, ef hér ríkti stöðugleiki með lágri verðbólgu.  Ríkti slíkt ástand hér þá þyrftum við heldur ekki á henni að halda.  Ef verðbólga er lág, þ.e. undir 2%, þá þurfa vextir ekki að vera háir til þess að raunávöxtun sé jákvæð.  Stöðugleiki er því lykillinn, en vegna þess að við vitum að hér er yfirleitt ekki stöðugleiki, þá þurfum við eitthvert kerfi sem ýtir undir stöðugleika.  Við hjá HH höfum lagt til þak á verðbætur.  Við viljum raunar afturvirkt 4% þak á árlegar verðbætur sem síðan lækkaði í 3%, 2%, 1% og loks væri verðtrygging neytendalána afnumin.  Samhliða því yrði að setja þak á vexti óverðtryggðra íbúðalána. Kannski er bara nóg að stilla þakið á verðbætur við 2% og láta þar við sitja.

Sumir segja, að ekki sé hægt að afnema verðtrygginguna.  Það er náttúrulega tóm vitleysa.  Við setjum bara lög sem banna hana.  Síðan þurfa fjármálafyrirtæki bara að laga sig að breyttum aðstæðum.  Skýrsla Askar Capital skýrir að nokkru út hvers vegna það er ekki hægt.  Þá nefnilega hverfa út af markaðnum áhættulausir fjárfestingakostir.  Ég hef aldrei vitað til þess að fjárfestingar eigi að vera án áhættu.  En þetta er dálítið mergur málsins.  Fjármagnseigendur (og þá er ég ekki að tala um eigendur sparifjár) vilja ekki missa verðtrygginguna, þar sem þá missa þeir fyrirhafnarlausa leið til að hagnast.

Það segir líka í skýrslu Askar Capital verðtrygging sé "aðferð til að minnka tjón af óstöðugleika"!  Þessi setning ein og sér sýnir að höfundarnir voru ekki réttu aðilarnir til að skrifa þessa skýrslu.  Hlutdrægni þeirra er slík, að ekki mark takandi á orðum þeirra.  Mín reynsla af verðtryggingu er, að hún hefur aukið verulega tjón mitt af óstöðugleikanum.  Ég skal taka dæmi.  Árið 2004 keypti ég bíl á óverðtryggðu, vaxtalausu láni.  Afborgun af láninu var 31.750 kr. á mánuði og hún hélst þannig allan tímann.  Á sama tíma fór afborgun af jafn háu verðtryggðu íbúðaláni úr um 12.500kr. í 16.600 kr. á mánuði á meðan ég greiddi upp bílalánið.  Það fer ekkert á milli mála að verðtryggingin olli mér skaða sem kominn var uppí á kr. 4.100 á mánuði um það leiti sem ég borgaði síðustu afborgunin af bílnum.

Höfum eitt á hreinu.  Verðtrygging er fyrst og fremst til að tryggja hag fjármagnseigenda.  Ísland er eitt fárra landa í heiminum, þar sem neytendalán eru verðtryggð.  Hvers vegna ætli neytendalán séu ekki verðtryggð?  Ætli það sé vegna þess, að með verðtryggingu er áhættu af verðbólgunni varpað á lántakann?  Í siðmenntuðum þjóðfélögum, þá þykir fráleitt að láta almenning taka áhættuna frá fjármagnseigendum.  Hér á landi þykir fjármálafyrirtækjum það aftur sjálfsagt.  Jón og Gunna af götunni eiga að virka sem gengisvörn og verðbólguvörn fyrir fjármálafyrirtækin.  Og þetta láta stjórnvöld óátalið.  Það er allt hægt, ef viljinn er fyrir hendi.  Nú þurfa stjórnvöld að sýna úr hverju þau eru gerð. Er landinu stjórnað af músum eða mönnum?

Ég nefndi það nokkrum sinnum á fundinum áðan, að ég óttast ekkert hag lífeyrissjóðanna.  Ég benti á, að á árunum 2004 - 2007, þá hafi ávöxtun sjóðanna að stórum hluta verið borinn uppi af óverðtryggðum eignum þeirra.  Þetta má lesa út úr ársreikningum sjóðanna.  Raun kvað svo rammt við á þessum árum, að óverðtryggðar eignir þeirra gáfu svo vel af sér, að sjóðirnir urðu að selja hluta þeirra.  Ástæðan var að samkvæmt lögum er sett þak á hve stór hluti eigna lífeyrissjóða má vera í hinum ýmsu eignaflokkum.  Þegar hlutabréf í bönkunum hækkuðu hvað hraðast, þá fór hlutabréfaeign upp fyrir það hámark sem þau máttu vera.  Sjóðirnir neyddust því til að selja bréfin.  Þetta átti bara við þá sjóði, sem voru með markaðsvirðisbókhald, en hjá þeim sem færðu á kaupverði þá skipti þetta engu máli.  Frá aldamótum og fram á haustdaga 2008 gáfu óverðtryggðar eignir lífeyrissjóðanna yfirleitt betur af sér en verðtryggðar.  Það er engin ástæða til að ætla, að muni ekki gerast í framtíðinni.  Treysti ég stjórnendum lífeyrissjóðanna og fjárfestingastjórum alveg fyrir því verkefni.


Ósammála skýrslu um verðtryggingu