Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 8.5.2010.
Hún er sérkennileg myndin sem birtist mér á síðum vefmiðla og fjölmiðla eftir að tveimur hvítflibbum var stungið í steininn. Í marga mánuði hefur gagnrýnin dunið á Ólafi Þór Haukssyni (sem ég vil taka fram að hann er góður vinur minn) fyrir að hafa ekki handtekið neinn og sýni ítrekað getuleysi sitt, reynsluleysi, þekkingarleysi og ég veit ekki hvað. (Tekið fram að þetta eru ekki mínar skoðanir.) Í rólegheitum hefur hann og embættið hans verið að byggja upp mál gegn hinum og þessum meintum gerendum í því að setja íslenska hagkerfið á hliðina. Auk þess hefur komið út rannsóknaskýrsla í 9 bindum auk fjölmargra viðauka, þar sem gefið er í skyn eða beint haldið fram að þessir sömu aðilar hafi framið alvarleg brot. Í þrjár vikur hefur þjóðin getað lesið um hin ótrúlegustu mál í blessaðri skýrslunni og heimtað handtökur.
Síðast liðinn fimmtudag var gengið rösklega til verka. Tveir hvítflibbar voru handteknir og þeim stungið í steininn. Þá stiga fram í hrönnum, og fá góða athygli á tilteknum fjölmiðlum, einstaklingar sem ásaka Ólaf Þór, sem varla hefur verið hægt að draga í fjölmiðlaviðtal, um "fjölmiðlasirkus" "fljótræði", "örvæntingu" og ég veit ekki hvað. Eða þá að menn birta lofgreinar um annan sakborninginn, þar sem teiknuð er upp englamynd af viðkomandi. Mér datt frekar í hug "the killer with the baby face", sem haft er um svona yfirmáta sakleysislega útlítandi menn er hafa sýnt að þeir eru til alls líklegir.
Ég þekki hvorugan sakborning og veit því ekkert hvort þeir eru englar eða djöflar í mannsmynd. Ég veit bara að fyrirtækið, sem þeir unnu hjá, hefur (samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis) á ósvífinn hátt grafið undan hagkerfinu, krónunni, stöðugleika verðlags, greiðsluhæfi viðskiptavina sinna og raunar alls almennings og fyrirtækja í landinu. Það getur vel verið að þetta séu hinir ljúfustu menn og bráðgreindir, en þeir tóku þátt í þessu og annar þeirra var æðsti yfirmaður Kaupþings. Hafi hann verið jafn "bráðgreindur" og menn segja, þá gerði hann sér fullkomlega grein fyrir afleiðingum gjörða sinna. Ef hann gerði það ekki, þá var hann einfaldlega ekki jafn "bráðgreindur" og menn láta vera.
Kannski gerði Hreiðar Már ekkert af þessu viljandi. Líiklegast var ætlunin að hlutirnir færu á hinn veginn, en sé hann jafn "bráðgreindur" og af er látið, þá hefur hann hugleitt þann möguleika að hlutirnir gætu farið úrskeiðis og afleiðingarnar gætu hneppt íslenskt þjóðfélag í skuldafangelsi. Því hafi hann ekki hugsað út í aðra möguleika, en að allt færi á besta veg, þá var hann einfaldlega gjörsamlega vanhæfur í sínu starfi.
Ég hef áður lýst minni sýn á framferði eigenda og stjórnenda bankanna. Hún er sú, að menn hegðuðu sér eins og þeir veðjuðu bara á stöðugt á rautt í rúllettu. Þeir lögðu allt undir í hvert skipti. Fyrir algjöra tilviljun, þá unnu þeir nokkur skipti í röð. Svo kom upp svart (!) og þá kom í ljós, að þeir höfðu ekki bara lagt sína peninga undir, heldur líka allar eignir okkar, lífeyrissjóðanna, erlendra lánadrottna og ég veit ekki hvað. Þeir höfðu lánað eigendum sínum allt laust fjármagn í bönkunum og síðan, að því virðist, tælt lífeyrissjóðina og almenning til að lána helling í viðbót.
Nú verða sjálfskipaðir verjendur Hreiðars Más að ákveð hvort hann hafi verið "bráðgreindur" og þá vitað upp á hár hvaða afleiðingar gjörðir hans kynnu að hafa, eða ekki svo "bráðgreindur" og í raun langt frá því að vera það og því fór sem fór. Ég er sannfærður um að hluti stjórnenda og eigenda Kaupþings, Glitnis og Landsbankans tóku meðvitað gríðarlega áhættu. Þessir aðilar vissu upp á hár hvað þeir voru að gera. Síðan misstu þeir tökin á aðstæðunum og þá varð til þessi Ponzi-svikamylla, sem byggir á því að fá peningalánaða til að borga fyrri lán og vexti af þeim og síðan þarf að fá lán til að greiða þau lán. Það sem þessir aðilar gerðu var í litlu frábrugðið því sem Bernie Madoff gerði eða bara gjaldkeri sem stundar fjárdrátt. Loks kom að því að ekki fékkst meiri peningur til að halda svikamyllunni gangandi eða upphæðirnar voru orðnar svo háar að fólk tók eftir því og þá hrundi allt.
Ef eigendur og stjórnendur föllnu bankanna hefðu viðurkennt árið 2006, að viðfangsefnið var vaxið þeim upp fyrir höfuð, þá hefði margt farið á annan veg. Nei, þeir voru eins og alkólista í afneitun. Þeir áttu ekki í neinum vanda og þurftu því ekki hjálp og hvernig voguðu erlendir greinendur sér að halda því fram að þeir væru búnir að missa tökin á fyrirtækjum sínum. Og hin meðvirka íslenska þjóð (og þar á meðal ég) varði þá út í eitt.
Þannig að, ef Hreiðar Már er jafn "bráðgreindur" og haldið er fram í ansi mörgum pistlum og fréttaskýringum, þá er núna hans tækifæri til að færa sönnur á það. Hann getur greint rétt og satt frá hvernig hann og félagar hans misstu tökin á rekstri Kaupþings sem varð til þess að allt féll hér í október 2008. Hann þarf að hætta að koma með gáfumannlegar skýringar, réttlætingar og afsakanir. Við vitum öll að Kaupþing missti tökin. Við finnum það á eigin skinni. Nú hefur hann tækifæri til að viðurkenna og lýsa þætti sínum og Kaupþings í þessu öllu.