Er Landsbankinn að bregðast við gagnrýni Hagsmunasamtaka heimilanna? - Bankarnir geta gert betur!

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 4.1.2010.

Landsbankinn hefur ákveðið að feta í fótspor hinna bankanna og bjóða niðurfærslu skulda.  Bjóða núna allir bankarnir, þ.e. Íslandsbanki, Arion banki og Landsbankinn sambærilegan "pakka", þó vissulega sé einhver bitamunur á útfærslunni.  Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort Landsbankinn sé með þessu að bregðast við útreikningum Hagsmunasamtaka heimilanna, sem birtur var í vikunni fyrir jól, en þar kom Landsbankinn langverst út í samburði.

Annars er það með þessi úrræði eins og önnur sem sett hafa verið fram.  Þau ganga of skammt.  Svigrúm bankanna þriggja er umtalsvert meira en það sem þeir nýta.  Samkvæmt skýrslu AGS þá voru lán heimilanna færð frá gömlu bönkunum til þeirra nýju með um 45% afslætti.  Komið hefur fram í gögnum, að skuldir heimilanna hjá bönkunum námu um 700 milljörðum.  Af því nema gengistryggð lán um 30% og verðtryggð því um 70%.  Heimildir HH greina, að gengistryggð lán hafi verið flutt yfir með a.m.k. 50% afslætti og verðtryggð með allt að 30% afslætti.  Þetta eru hvorutveggja tölur sem áreiðanlegur aðili gaf mér upp fyrir um þremur vikum.  En gefum okkur að gengistryggð lán séu færð niður um 50% og verðtryggð lán um 20%.  Þá hefur verðmæti lánasafnanna færst úr því að vera 100% í 0,5*30% + 0,8*70% = 71% eða lækkað um 29%.  Eftir standa þá 45% - 29% = 16% sem hægt er að nota á tvo vegu.  Annars vegar til að mæta meiri afskriftum af einstökum lánum eða greiða fyrir hærri fjármögnunarkostnað bankanna.

Varðandi hærri fjármögnunarkostnað, þá snýst það eingöngu um gengistryggða hluta lánanna.  Verðtryggð lán eru fjármögnuð með verðtryggðum innlánum og þar hefur vaxtamunurinn haldist nokkurn veginn óbreyttur í nokkurn tíma og banka- og gjaldeyrishrun breytir því ekkert.  Það er því eingöngu fjármögnunarkostnaður gengistryggðra lána sem hefur mögulega hækkað eða hvað?  Gengistryggð lán voru áður fjármögnuð með vaxtaskiptasamningum sem fólu það í sér að íslensku bankarnir tóku erlend lán og erlendir aðila gáfu út svo kölluð jöklabréf.  Íslensku bankarnir skiptu síðan á skuldbindingum við jöklabréfaútgefendur, þ.e. íslensku bankarnir tóku að sér að greiða jöklabréfin en erlendu aðilarnir greiða af erlendu lánunum.  Það var þess vegna sem krónan féll.  Svo íslensku bankarnir gætu fengið gengishagnað á útlánin sín án þess að það hefði áhrif á útgreiðslu þeirra til jöklabréfaeigenda.  En aftur að fjármögnunarkostnaði gengistryggðra lána.  Raunar skiptir ekki megin máli hver sá kostnaður var.  Það sem skiptir megin máli er hve miklu hærri vexti geta bankarnir greitt fyrir fjármögnun lánanna í dag.  Þar skipta þessi 16% sem ekki fóru í lækkun höfuðstóls öllu máli, en þau er hægt að nota til að greiða hærri vexti.

Ef við gefum okkur að gengistryggðu lán séu til 25 ára, þá verður að dreifa 16%-unum yfir öll 25 árin.  Þar sem upphæðin lækkar jafnt og þétt, þá lækkar vaxtagreiðslan einnig.  Gengisþróun spilar einnig inn í þetta og því gef ég mér að lánum sé breytt yfir í óverðtryggð lán í íslenskum krónu (sem er í sjálfu sér bara viðurkenning á því að lánin voru alltaf íslensk).  Eðlilegasta leiðin til að fjármagna þessi lán er að nota óverðtryggð innlán, en slíkir reikningar bera allt niður í 0,5% vexti samkvæmt vaxtatöflum bankanna.  En aftur að 16%-unum.  Ef við dreifum vaxtagreiðslunum á 25 ár, þá duga þessi 16% fyrir ríflega 4,5 prósentustigum í hærri fjármögnunarkostnað en áður.  Þ.e. hafi bankinn fjármagnað sig á 1% vöxtum, þá gæti hann fjármagnað sig á 5,5% vöxtum og samt komið út með smávægilegan afgang, ÞÓ SVO AÐ VEXTIR ÓVERÐTRYGGÐU LÁNANNA YRÐU ÞEIR SÖMU OG VORU Á GENGISTRYGGÐU LÁNUNUM.  Gengisþróun hefur verið tekin út úr vandamálinu, þar sem nú eru lánin óverðtryggð í íslenskum krónum.  Með 50% afslátt, þá ættu allir að vilja að skipta yfir, sérstaklega þar sem óverðtryggðu vextirnir yrðu mjög lágir.

Með þessari aðgerð, þ.e. að færa verðtryggð lán niður um 20% og gengistryggð niður um 50% og breyta þeim jafnframt í óverðtryggð lán, þá leyfi ég mér að fullyrða, að stærstur hluti lántaka hjá bönkunum þremur mun komast á beinu brautina.  Í þeim tilfellum, sem það tekst ekki, verður verðmæti trygginga (þ.e. veðs) oftast nægilega hátt til að standa undir skuldinni.  (Höfum í huga að viðkomandi verður búinn að fá 20 eða 50% niðurfærslu.)  Vissulega gætu bankarnir myndað varasjóði með því að færa verðtryggð lán niður um, segjum, 18% og gengistryggð um, segjum, 45% og býst ekki við því að nokkur lántaki andmælti því.  Eftir standa mun betri lán og bjartari rekstrarhorfum fyrir bankana, þar sem búið væri að greiða úr 99% vandans.

Hafa skal í huga, að Íbúðalánasjóður stendur fyrir utan þetta og samgildir um lífeyrissjóðina og alla smærri sparisjóðina.  SPRON, Frjálsi og BYR (samkvæmt nýjustu fréttum) virðast hafa sama/svipað svigrúm og bankarnir.  Því þarf að finna lausn á vanda hinna.  Ég hef áður bent á að fyrir lífeyrissjóðina, þá er þetta lítið mál.  Sjóðfélagalán námu um 10% af eignarsafni sjóðanna 31.12.2008 og 20% niðurfærsla nemur því 2% af eignarsafninu.  Það nemur suma daga ekki einu sinni dagsveiflunni.  ÍLS og smærri sparisjóðir eru verra mál.  Þessir aðilar þurfa að semja við sína lánadrottna eða að þetta verði fjármagnað eftir öðrum leiðum, svo með andvirði af sölu eignarhluta ríkisins í bönkunum, sérstökum fjármagnstekjuskatti eða með skuldbreytingu sem leyfir þessum aðilum að afskrifa niðurfærsluna yfir lengri tíma.


Landsbankinn boðar aðgerðir