Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 1.1.2010.
Það var kostulegt að fylgjast með Icesave umræðunni á Alþingi. Hver þingmaður Samfylkingarinnar kom upp á fætur öðrum og viðurkenndi að nauðsynlegt væri að samþykkja frumvarpið þó það væri vissulega gert í nauð. Við ættum engan annan kost. Ég taldi þá ekki færri en fjóra sem gerðu á þennan hátt grein fyrir atkvæði sínu, en ekki einn einasti skýrði út í hverju nauðin væri fólgin. Og í allri umræðunni skýrði ekki einn einasti fylgismaður frumvarpsins út hvers vegna fallast yrði á hin og þessi ákvæði frumvarpsins með sterkari rökum en "af því bara". Jú, það var minnst á þjóðréttarlegar skuldbindingar, en rökin vantaði.
Ég er alveg til í að samþykkja alls konar hluti, ef færð eru viðhlítandi rök fyrir hlutunum. Það var aldrei gert varðandi Icesave frumvarpið hið síðara. Aldrei. Ég hef heldur aldrei fengið viðhlítandi rök fyrir því að erlendu tryggingasjóðirnir skuli fá eina krónu fyrir hverja eina krónu sem íslenski sjóðurinn fær. Þetta er sú mesta vitleysa sem ég hef nokkru sinni heyrt. Ef tveir aðilar eiga kröfu vegna Icesave, annar upp á EUR 15.000 og hinn upp á EUR 30.000, þá gætu málin axlast svoleiðis, að sá fyrri fengi fljótlega EUR 9.000 greiddar, en sá síðari EUR 18.000, bara vegna þess að sá fyrri á bara eina kröfu á hendur Landsbankanum/íslenska tryggingasjóðnum en sá síðari tvær. Hvaða lagaspekúlanti datt í hug þessi fáránlega aðferð? Það kemur íslenska tryggingasjóðnum ekkert við, að Bretar og Hollendingar ábyrgjast hærri upphæð en íslenski tryggingasjóðurinn og tilskipun ESB segir til um. Ég skil vel að menn vitni í yfirlýsingar Geirs H. Haarde um að engar innstæður tapist, en Björgólfur Thor lýsti því líka yfir og ekki erum við að ganga á hann.
Annað sem ég skil ekki, er að tvisvar var samninganefnd veitt afmarkað umboð til samninga og tvisvar fór samninganefndin út fyrir sitt umboð. Auk þess voru samningarnir gerðir með fyrirvara um samþykki Alþingis. Í sumar hafnaði Alþingi í raun fyrri Icesave samningnum. Með þær upplýsingar að vopni fór samninganefndin aftur viðsemjenda og hvað gerist? Hún kemur til baka með skottið á milli fótanna, þar sem hún ákvað að hunsa lög frá Alþingi. Hvaða heimild hafa embættismenn til að hunsa lögin? Er það eitthvað séríslenskt fyrirbrigði að hópur embættismanna geti ákveðið að lög eigi ekki að standa?
Nú er síðasta hálmstrá vitiborinna Íslendinga, að forsetinn neiti að staðfesta lögin. Því miður tel ég litlar sem engar líkur á því að hann geri það. Forsetanum er nefnilega "falið að tryggja [vilja þjóðarinnar] þótt ætíð verði að meta aðstæður og afleiðingar ákvarðana". Þetta segir mér að Ólafur Ragnar muni í ljósi aðstæðna og líklegra afleiðinga staðfesta þennan jólaglaðning til þjóðarinnar. Jólaglaðning sem er í boði Landsbankans, "banka allra landsmanna", eins og hann auglýsir gjarnan.
Já, það er þessi sami Landsbanki og mun kosta skattgreiðendur um 200 milljarða vegna endurreisnar og þessi sami Landsbanki og býður starfsmönnum kaupauka, ef þeir ná að kreista nógu mikið út úr hverjum viðskiptavini sem gerði þau herfilegu mistök að treysta "banka allra landsmanna". Já, og þetta hinn sami Landsbanki sem hefur neitað alfarið að koma á nokkurn hátt til móts við heimilin í landinu með niðurfellingu stökkbreyttra skulda, stökkbreyting sem á rætur að rekja til glannaskapar fáeinna óvita sem stjórnuðu bankanum. Já, þetta er sami Landsbanki og lánaði eigendum sínum margfalt eigið fé sitt þrátt fyrir að lög bönnuðu slíkt. Já, þetta er sami Landsbanki og hvers stjórnarformaður skilur eftir hátt í 100 milljarða ógreidda í gjaldþroti sínu. Og þessu er ekki lokið, þar sem þessi sami Landsbanki átti háar skuldir hjá Seðlabanka Íslands. Það er óhætt að segja, hvað sem glannaskap Kaupþingsmanna við kemur, að einkavæðing Landsbankans er dýrasta flopp Íslandssögunnar. Reikningurinn, sem þjóðin fær vegna þessa, er vart undir 700 milljörðum og þá er ekki meðtalið tap í formi innstæðna almennings í peningasjóðum, hlutabréfa annarra en fjárglæframannanna, skuldabréfa í eigu lífeyrissjóðanna og annað smávægilegt sem nemur kannski 3-400 milljörðum til viðbótar. Það eru því líklegast 1.000 milljarðar sem skattgreiðendur og almenningur fá í hausinn í staðinn fyrir þessa 10 milljarða sem ríkið fékk á sínum tíma. Ömurleg ávöxtun það.
Séu þetta ekki nægar ástæður fyrir forseta Íslands til að hafna nýju Icesave frumvarpi, þá munu þær aðstæður aldrei skapast að hægt verði að hafna frumvarpi. Vilji þjóðarinnar er skýr. Hún vill þjóðaratkvæðagreiðslu. Skora ég á forseta Íslands að virða vilja þjóðarinnar. Síðan skora ég á fjármálaráðherra að hefja án tafar aðgerð til að kyrrsetja allar eigur helstu eigenda, stjórnenda og stjórnarmanna Landsbankans (þess gamla) hvar sem þær er að finna í heiminum. Það tók stuttan tíma að kyrrsetja eigur Baldur Guðlaugssonar og er glæpur hans lítilfjörlegur samanborið við glæpa hinna. Hann var bara embættismaður sem taldi lögin ekki eiga við sig. Hinir voru a.m.k. eitt af eftirfarandi: heimskir, vanvitar, sofandi, einfeldningar, glannar, vanhæfir eða glæpamenn, svo fátt eitt sé talið upp.
Minni svo alla sem geta að mæta til Bessastaða kl. 11.00 í fyrramálið 2. janúar, þegar undirskriftir með áskorun til forseta Íslands verða afhentar. Hafa skal í huga, að um friðsamlega aðgerð er að ræða. Nánari upplýsingar er að finna í eftirfarandi færslu: Indefence: Mætum öll á Bessastaði á morgun