Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 19.1.2010.
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, lýsti því yfir við fréttastofu RÚV, að engin lausn sé í því að fresta uppboðum. Mikið er það rétt hjá blessuðum ráðherranum. Það er engin lausn, en það vill svo til að það er EINA lausnin sem fólki býðst.
Þremur ríkisstjórnum hefur tekist að gera nánast ekki neitt á þeim rúmum 15 mánuðum frá falli bankanna og um 22 mánuðum frá falli krónunnar. Úrræðaleysi stjórnvalda og seinagangur bankanna að koma til móts við viðskiptavini sína er með ólíkindum. Fólk sem hefur nákvæmlega ekkert sér til sakar unnið annað en að treysta fjármálakerfi landsins þarf núna að sjá á eftir ævisparnaði sínum í hendur þessu sama fjármálakerfi, þar sem stjórnvöld hafa ákveðið að verja það með kjafti og klóm á kostnað heimilanna í landinu.
Árni Páll vonast til þess að hægt verði að finna úrræði fyrir sem flesta. Það eru 6 vikur þar til frestur á uppboðum rennur út. Ríkisstjórnin er búin að 8 mánuði til að koma með úrræði. Það eina sem hefur komið eru úrræði úr smiðju fjármálafyrirtækjanna. Þau reyndust ekki betur en svo að 1400 beiðnir um nauðungarsölur frá Íbúðalánasjóði einum liggja hjá sýslumönnum landsins. Já, 1400 stykki. Mikið eru þau frábær úrræði ráðherrans.
Komið hefur í ljós að úrræði fjármálafyrirtækjanna duga ekki til að koma heimilum landsins til bjargar. Nú er kominn tími til að hlusta á almenning. Kröfurnar eru einfaldar.
Við viljum:
tafarlausa 20% lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána,
tafarlausa 50% lækkun höfuðstóls gengistryggðra lána,
4% þak á árlegar verðbætur afturvirkt frá 1. janúar 2008,
að veð (eign) dugi fyrir veðandlagi (veðláni) (taki strax til allra veðlán vegna kaupa á húsnæði og bifreiðum),
jafna ábyrgð lántaka og lánveitenda,
að stjórnendur fjármálafyrirtækja, stjórnmálamenn og embættismenn verði dregnir til ábyrgðar fyrir þátt sinn á árunum 2006 til 2008 í hruni krónunnar, bankanna og hagkerfisins,
heimilunum verði bættur sá skaði sem ofangreindir aðilar ollu heimilunum með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi.