Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 18.1.2010. Efnisflokkur: Staða heimilanna
Niðurstaða könnunar Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM) kemur okkur hjá Hagsmunasamtökum heimilanna ekkert á óvart. Þetta er sama niðurstaða og hefur komið fram í tveimur könnunum samtakanna, annarri meðal félagsmanna í fyrra vor og hinni sem Gallup framkvæmdi á landsvísu fyrir samtökin sl. haust. Fólk á í miklum erfiðleikum með að láta enda ná saman og um 54% heimila landsins voru í haust ýmist ekki að gera það eða rétt mörðu það.
Þrátt fyrir þetta ákvað ríkisstjórnin að hækka skatta á almenning um tugi milljarða. Þrátt fyrir þetta þarf að toga leiðréttingu lána með töngum út úr bankakerfinu. Þrátt fyrir þetta örlar ekkert á mildandi aðgerðum fyrir heimili landsins af hálfu lífeyrissjóðanna. Og þrátt fyrir þetta heldur forysta launþegahreyfingarinnar sig inni í fílabeinsturni sínum og lætur ekkert í sér heyra.
Bjarki Steingrímsson, þáverandi varaformaður VR, talaði á útifundi Hagsmunasamtaka heimilanna og Nýs Íslands fyrir áramót og gagnrýndi forystumenn launþegahreyfingarinnar. Hann uppskar það að vera REKINN úr embætti. Það er nefnilega bannað að rugga bátnum. Vilhjálmur Birgisson talaði á útifundi sl. laugardag og var harðorður. Ætli honum verði vísað á dyr hjá ASÍ næst þegar hann á leið hjá?
Ég hef sagt það oft, að baráttan fyrir leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstóli húsnæðislána, er stærsta kjarabaráttan í dag. Vilhjálmur Birgisson ítrekaði þennan punkt á laugardaginn. Ég er viss um að Guðmundur Ragnarsson, formaður VM er orðinn okkur sammála. Ég býð honum að taka slaginn með okkur fyrir leiðréttingu lánanna og bættum kjörum.
Færslan var skrifuð við fréttina: Telja launin ekki duga