Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 25.11.2010.
Tvær stórar fréttir eru birtar í dag sem lýsa hinum mikla vanda sem heimili og fyrirtæki í landinu standa frammi fyrir. Langar mig að fjalla um þær hér.
Ábyrgðarmenn skulu borga
Fyrra málið er dómur Hæstaréttar um að lög um ábyrgðarmenn brjóti gegn eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þetta mál er einfaldlega dæmi um illa undirbúna löggjöf og ekkert annað. Því miður og ekkert meira um það að segja. Það sýnir bara hversu mikilvægt er að ná samningum um úrlausn á skuldavanda heimilanna. Ég skil alveg afstöðu Sparisjóðs Vestmannaeyja, en mikið hefði það verið gott, ef þessi lög hefðu staðist.
Eignaréttarákvæði kröfuhafa er að verða eitt erfiðasta málið í endurreisn hagkerfisins. Á sama hátt sýnir réttleysi lántaka vegna grófra brota hrunbankanna að veruleg brotlöm er í íslenskri neytendavernd. Íslensk löggjöf snýst allt of mikið um réttindi kröfuhafa og þarf engan að undra, þar sem fjármálakerfið hefur haft ákaflega greiðan aðgang að ráðherrum og þingheimi til að koma sínum málum í gegn. Jafnvel núna, tveimur árum eftir að mestu efnahagslegu hryðjuverk á byggðu bóli komu í ljós, þá eru stjórnvöld ennþá að sleikja skó fjármálafyrirtækjanna.
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis bendir til umfangsmikilla lögbrota fjármálafyrirtækja í undanfara bankahrunsins. Rannsóknir sérstaks saksóknara ýta enn frekar undir þetta og til eru þeir fjölmiðlar sem þora líka að birta gangrýna umfjöllun um meint brot þessara aðila. En hvað svo? Þegar Hæstiréttur dæmir að fjármálafyrirtæki hafi brotið lög með grófum hætti, þá koma Fjármálaeftirlit og Seðlabanki og kyssa á meiddið. Það hófst ekki opinber rannsókn á vegum þessara aðila á því hve umfangsmikil brotin væru og hver skaði lántaka hefði verið af brotunum. Nei, FME og SÍ gerðust varðhundar lögbrjótanna.
Fjölmiðlum hefur ítrekað verið sendar upplýsingar um fjölmörg lögbrot fjármálafyrirtækjanna, en þeir sýna þeim ekki áhuga ef um er að ræða starfandi fjármögnunarfyrirtæki. Skattayfirvöld virðast ekki heldur hafa áhuga á hugsanlegum tug milljarða undanskotum fjármögnunarfyrirtækja á virðisaukaskatti. Hvað er í gangi? Nei, í staðinn, þá væna þau fólk í hagsmunabaráttu um að vera í henni til að skara eld að sinni köku.
40% útlána bankanna eru í vanskilum
Hitt málið er útgáfa skýrslu Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika. Þessa rits er ávallt beðið með eftirvæntingu, þar sem það segir okkur landslýð hvaða áhyggjur Seðlabankinn hefur.
Seðlabankinn lýsir þremur áhættuþáttum:
Gæði eigna innlánsstofnana: Mat á eignum banka og sparisjóða er enn háð mikilli óvissu og ójafnvægi er í efnahagsliðum. Dregið hefur úr óvissu er tengist gengisbundnum liðum. Í kjölfar langvarandi samdráttar í þjóðarbúskapnum er fjárhagsleg staða fyrirtækja og heimila veik.
Fjármögnun, lítil virkni markaðar: Innlán eru uppistaðan í fjármögnun banka og sparisjóða. Þau eru yfirleitt traustari fjármögnun en skammtímalántökur á markaði en tilfærslur geta orðið milli stofnana. Þá er fjármögnunin nú varin af gjaldeyrishöftum og yfirlýsingu um að innlán séu að fullu tryggð. Markaðir fyrir millibankalán, skuldabréf, hlutabréf og gjaldeyri eru veikburða. Bein erlend fjárfesting og aðgangur að erlendum lánamörkuðum er enn takmörkuð.
Gallar í regluverki og eftirliti: Hrunið leiddi í ljós ýmsa galla í regluverki og eftirliti. Það tekur tíma að bæta úr því og eftir er að móta hvernig unnið verður gegn kerfisáhættu og hvaða stofnanaleg umgjörð á að vera um þá starfsemi.
Í sjálfu sér er ekkert nýtt í þessu, en samt gott að sjá Seðlabankann ekki víkja sér undan vandanum.
Stóra fréttin í skýrslu Seðlabankans er aftur upplýsingar um gæði lánasafnanna. Hingað til hafa þessar upplýsingar eingöngu komið fram í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en stígur Seðlabankinná stokk og staðfestir tölur AGS.
Tæp 40% af útlánum bankanna eru í vanskilum eða greiðslur á gjalddaga taldar ólíklegar. Már segir mikilvægt að heimilin nýti sér úrræði stjórnvalda til endurskipulagningu lána. Einungis 35% lána án endurskipulagningar er í skilum og 26% í skilum eftir endurskipulagningu.
Á 8 mánuðum tókst bönkunum þremur ekki að auka hlutfall lána í skilum nema úr 58% í 61% og það af bókfærðu virði. Ef einhver heldur að þetta séu léttvægar upplýsingar, þá er svo ekki. Eiginfjárhlutfall bankanna nam 17,8% í lok annars ársfjórðungs. Ef stabbinn af þessum 39% lána sem eru í vanskilum tapast, þá mun verulega ganga á eigið fé bankanna. Það mun a.m.k. fara vel undir lágmarkið sem er 16%. Það kallar á aukið framlag eigenda nema takist að snúa þessari þróun við, en það verður eingöngu gert með því að koma til móts við lántaka.