Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 24.11.2010. Efnisflokkur: Stjórnvöld, Skuldaúrræði
Í vinnu "sérfræðingahóps" forsætisráðuneytisins voru vaxtabætur mikið ræddar. Hafði ég á tilfinningunni, að búið væri að ákveða að hækkun vaxtabóta ætti að vera helsta framlag ríkisstjórnarinnar til að taka á skuldavanda heimilanna.
Það hefur verið mönnum þyrnir í augum að einhver takmarkaður hópur, líklegast 10 - 20 manns, hafa gert í því að svindla á vaxtabótakerfinu. Þessir aðilar hafa verið með öll lán sín í vanskilum, flutt úr húsnæði sínu, sett það á leigu, heimtað vaxtabætur af ríkinu, fengið þær í hendur og notað í eyðslu. Ekki ætla ég að mæla þessu fólki bót og tel eðlilegt að á einhvern hátt verði sett undir þann leka.
Ráðgjafar ríkisstjórnarinnar (líklegast embættismenn) hafa sett fram þá hugmynd að þeim einum verði greiddar vaxtabætur sem hafa greitt af lánum sínum. Þannig sé ljóst að enginn geti talið fram vexti til vaxtabóta nema þeir hafi verið greiddir. Mér finnst þetta ákaflega varasöm hugmynd, þar sem hún bitnar helst á þeim hópi heimila sem er í mestu vanda. Raunar gæti þessi útfærsla fjölgað í hópi þeirra sem eru í mestum vanda, þar sem vaxtabætur eru mikilvægur hluti af tekjum þeirra og þó fólk hafi ekki náð að standa í skilum með öll lán sín, þá er ekki hægt að refsa því fyrir það sem bótasvikurum.
Hafa verður í huga, að stofn til vaxtabóta fæst með því að tiltaka þá vexti sem gjaldfallnir eru af húsnæðislánum viðkomandi. Eingöngu eru taldir vextir upp að ákveðnu hámarki. Frá þessum stofni dregst hlutfall tekna, sem núna er 6% en lagt er til að verði 9% á næsta ári. Ef breyta á kerfinu í það að vaxtabótastofninn nái eingöngu til greiddra vaxta, en ekki gjaldfallinna, þá er verið að raska því kerfi sem verður hefur. Þá skiptir t.d. máli hvort afborgun láns var greidd 31.12. eða 4.1. Sé greitt af láninu 31.12. teljast vextirnir til stofns vaxtabóta, en ekki sé greitt 4.1.
Vilji menn breyta þessu, þá er mun nær að fólki sé gefinn kostur á að láta vaxtabætur renna til lánveitandans. Ekkert er óeðlilegt við slíkt fyrirkomulag. Þannig gæti lántaki sem er í skilum látið vaxtabætur ganga upp í næstu gjalddagagreiðslur og þannig verið laus við þær í einhvern tíma. Lántaki sem er í vanskilum gæti með þessu grynnkað á vanskilum sínum.
Vaxtabótakerfið er ein leið stjórnvalda til að niðurgreiða vexti húsnæðislána. Um er að ræða félagslega aðgerð. Verði hugmyndin um að eingöngu greiddir vextir verði gildir sem stofn til vaxtabóta, þá er ríkið komið í innheimtuaðgerð fyrir bankakerfið. Ekki er nóg að vanskilagjöld og lögfræðikostnaður hrúgist upp á fólk, heldur ætlar ríkið að taka að þrýsta á fólk að greiða.
Mikil óvissa hefur verið frá 12. febrúar sl. um stöðu gengisbundinna lána, þegar dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að gengistrygging væri ólöglegt form verðtryggingar. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu 16. júní sl. Svo ég tali bara fyrir mig, þá fékk ég bréf frá einum banka í júlí að lán mín hjá bankanum féllu undir fordæmisgildi dóma Hæstaréttar. Núna fjórum mánuðum síðar hef ég ekki ennþá fengið greiðsluseðil þar sem tekið er tillit til þeirrar skoðunar bankans, að lánin hafi borið ólöglega gengistryggingu. Ég hef ekki heldur fengið greiðsluseðil, þar sem bankinn hefur rukkað mig í samræmi við tilmæli FME og Seðlabanka frá 30. júní sl. Eina sem ég hef fengið er greiðsluseðill í samræmi við ólöglega skilmála. Ég er viss um að mun fleiri eru í þessari stöðu og neita að greiða í samræmi við ólöglega skilmála. Nú á að refsa fólki fyrir að krefjast þess að fjármálafyrirtækin hlíti dómi Hæstaréttar! Hvernig væri að yfirvöld sneru sér frekar að því að sjá til að fjármálafyrirtækin fari að dómum Hæstaréttar?
Færslan var skrifuð við fréttina: Sumir gætu misst allar vaxtabætur