Leitað að skít með stækkunargleri

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 25.11.2010.  Efnisflokkur:  Fúll á móti

Ónefndur fjölmiðill heldur að hann finni einhvern skít um Hagsmunasamtök heimilanna.  Blaðamaður hans forvitnaðist í dag um ársreikning samtakanna, sem er öllum opinn á heimasíðu samtakanna, og spurði svo í leiðinni hvort fólk væri ekki á kaupi eða fengi einhverja bitlinga fyrir störf sín.  Nú á sem sagt að reyna að níða skóinn af líklegast grandvörustu samtökum landsins.  Ekki bara að stjórnarmenn hafi borið verulegan kostnað af störfum sínum fyrir samtökin, heldur á nú að væna menn um að þiggja skattfrjálsar greiðslur og fleira í þeim dúr.

Mikið hljóta þessi samtök að vera vondur þyrnir í augum sumra.  Að senda blaðamann út af örkinni til að reyna að finna eitthvað misjafnt er stórmerkilegt og líklegast mesta viðurkenning sem samtökin geta fengið.

Bara svo það sé á hreinu, þá hafa samtökin einu sinni borgað eina pítu fyrir mig.  Það var í apríl á þessu ári kvöldið fyrir aðalfund samtakanna, þegar undirbúningur hans stóð sem hæst.  Kostnaður minn af vinnu fyrir samtökin er hleypur aftur á tugum þúsunda, ef ekki meira.  Felst sá kostnaður í bensíni, símanotkun, pappír og prentbleki.  Loks nemur vinnutap mitt líklegast ekki undir 500 tímum.

Ég vil enda þetta með tilvitnun í ljóð Einars Benediktssonar Einræður Starkaðar:

Ég mat ekki ljóðglapans lága hnjóð,
sem laklega hermdi, hvað aðrir kváðu,
- né þrælafylgið við fjöldans slóð
í forgönguspor, sem þeir níðandi tráðu.