Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 29.8.2010.
Sigurður Einarsson fer mikinn í viðtali við Fréttablaðið. Velti ég því stundum fyrir mér hvort maðurinn skilji það klúður sem hann varð valdur að og hafi yfirhöfuð haft hæfi til að reka, sem stjórnarformaður, stærsta banka Íslands. Hægt væri að tiltaka aragrúa atriða, þar sem mann setur hljóðan við lesturinn. Mig langar að byrja á atriði úr lítilli rammagreina á blaðsíðu 26. Í þessari litlu rammagrein kemur best fram ótrúleg einfeldni mannsins til viðskipta, en þar segir:
Sigurður gagnrýnir að stjórnkerfið á Íslandi hafi ekki stutt Kaupþingsmenn þegar mikið lá við. Hann nefnir til dæmis þegar Kaupþing vildi koma sér út úr kaupunum á NIBC-bankanum í Hollandi. Þá hefði honum þótt æskilegt að fá til dæmis bréf frá íslenska Fjármálaeftirlitinu, sem myndi í raun banna bankanum að ljúka kaupunum.
"Ég margræddi þessi mál við Fjármálaeftirlitið og átti samtöl við ýmsa ráðherra. Aðstæðurnar höfðu breyst svo mikið að þetta var ekki skynsamlegt lengur og við gátum ekki bakkað út úr samkomulaginu einhliða..."
Hvers konar bull er þetta? Átti FME að bjarga Sigga litla út haga af því að hann komst ekki heim? Ganga viðskipta einkabanka út á það, að þegar Siggi og co. eru búnir að koma sér í sjálfheldu, þá á FME að koma og bjarga þeim. Ef það var út á þetta sem viðskiptaáætlanir Kaupþings gengu, þá skil ég vel að allt hrundi þegar gaf á. Það gleymdist að búa farið með björgunarbátum fyrir reksturinn vegna þess að allt gekk út á lúxus björgunarbátana fyrir fyrirmennin og eigendurna. Þetta var eins og með Titanic forðum daga, almenningur á 3. farrými fékk ekki að fara í björgunarbátana hjá fína fólkinu, þó nóg væri plássið. Og skipstjórinn í brúnni, Sigurður Einarsson, kennir núna FME um að hafa ekki bannað sér að stíma á fullu um hættuslóðir.
Annað dæmi er að kenna stjórnvöldum um að hafa ekki sagt bankanum að vaxa hægar, en um það segir Sigurður á bls. 28:
Og það er þannig, í mínum huga, að hafi stjórnvöld talið að við hefðum átt að minnka, vaxa hægar eða til dæmis færa starfsemina eitthvert annað, þá hefðu þau mátt benda okkur á það. Það var aldrei gert. Þannig að þegar spurt er hvort við höfum ekki átt að vita að Seðlabankinn eða stjórnvöld á Íslandi gætu ekki verið lánveitandi til þrautavara eða aðstoðað okkur þá má hugsanlega segja að að við hefðum átt að gera okkur grein fyrir að það væri einhver hætta á því. En ég held að það sé ekki nokkur leið að meta eitthvað í þessu andvaraleysi okkar sem saknæmt. Frumkvæðið á ekki síður að koma frá eftirlitsaðilum og yfirvöldum hvað þetta varðar.
Jú, Sigurður Einarsson, andvaraleysi ykkar var saknæmt. Kannski ekki gagnvart hegningarlögum, en það var það gagnvart hlutafélagalögum, lögum um fjármálafyrirtæki og bókhaldslögum, ef ekki fleiri. Þið ákváðuð að snúa áhættumati bankans á hvolf. Það sem stjórnvöld og eftirlitsaðilar vöruðu ykkur ekki við ákváðuð þið að væri óhætt. Þannig virkar ekki áhættustjórnun. Rétt framkvæmd áhættustjórnun snýst um að greina ógnir og veikleika í (rekstrar)umhverfi fyrirtækis, stofnunar eða þess vegna þjóðar og meta áhrif þeirra á afkomu, hagsæld, hagvöxt eða hvað það nú er sem nota á til viðmiðunar. Þá er næst metið þol fyrirtækisins fyrir áföllum sem gætu riðið yfir, líkurnar á slíku áfalli og þá fyrst fara menn að velta fyrir sér hvaða utanaðkomandi kröfur eru gerðar. Áhættustjórnun er framkvæmd af innri hvötum, ekki ytri. Hún er unnin til að verja eigendur fyrir tapi, fyrirtækið og viðskiptavini fyrir tjóni, til að tryggja órofinn rekstur komi til áfalls. Áhættustjórnun snýst um að viðhalda samfeldni rekstrarins og lágmarka tjón. Áhættustjórnun snýst ekki um að athuga hvort stjórnvöld eða eftirlitsaðilar hafi áhyggjur af einhverju, enda ætti rétt framkvæmd áhættustjórnun að hafa greint slíkt löngu áður en stjórnvöldum (sem ekki sinntu áhættustjórnun) datt í hug að eitthvað hættulegt væri á ferð. Þetta andvaraleysi bankanna þriggja var verra en nokkurt saknæmt athæfi sem samkvæmt skilningi Sigurðar Einarssonar á íslenskum lögum. Og hefði Sigurður Einarsson verið skipstjóri á stóru skemmtiferðaskipi, þá hefði hann líklegast orðið valdur að dauða allra farþeganna, vegna þess að hann hefði beðið eftir því að eftirlitsstofnun hefði sagt honum að það væri hættulegt að sigla á ísjaka. Hann hefði ekki haft vit á því sjálfur hvað var hættulegt.
Þetta sem ég skrifa hér að ofan er svar við spurningu sem Sigurður spyr í viðtalinu, en hún er:
Meginspurningin hlýtur að vera: Af hverju skapast aðstæður hér á Íslandi sem verða til þess að Íslendingar fara verr út úr alþjóðakreppunni en aðrir og þurfa til dæmis að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?
Svar mitt er einfalt: Vegna þess að menn sinntu ekki áhættustjórnun af innri hvötum heldur sem viðbrögð til kröfu eftirlitsaðila. Og það sem eftirlitsaðilanum datt ekki í hug að gera kröfu um, það hunsuðu menn þrátt fyrir að með því stefndu þeir rekstri sínum, afkomu viðskiptavina og eigenda og hagsæld þjóðarinnar í voða. Aum er sú skýring að kenna öðrum um, þegar sökin liggur hjá þeim sjálfum. Kaupþing sá um að taka stöðu gegn krónunni. Kaupþing átti hugmyndina að jöklabréfunum eða a.m.k. átti drjúgan þátt í þeim vaxtaskiptasamningum sem jöklabréfin höfðu í för með sér. Kaupþing sogaði til sín gjaldeyri á háu gengi og átti síðan stóran þátt í að fella það með því að frysta framboð á gjaldeyri. Kaupþing var alveg sjálfrátt og einfært um allar sínar græðgilegu ákvarðanir, þar sem virðing fyrir þjóðinni og hagkerfinu var fótum troðin vegna þess að hægt var að græða á því. Já, Kaupþing sá sjálft um að fella sig. Það þurfti enga hjálp til þess. Og þetta allt gerðist á vakt Sigurðar Einarssonar, sem kafsigldi skipinu sínu og dró þjóðfélagið með sér.