Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 29.8.2010.
Þessi furðulega framsetning Orkuveitu Reykjavíkur á gjaldskrárhækkun fyrirtækisins sýnir að full þörf er til að skilja á milli framleiðslu fyrirtækisins á raforku og dreifingarinnar. Komið hefur fram í fjölmiðlum að það er kostnaður við virkjanir sem eru að kaffæra OR. Vissulega hefur OR lagt út í nýlagnir í hverfum sem ekki hafa byggst eins hratt upp og reiknað var með, en auðvelt ætti að vera að lesa út úr reikningum fyrirtækisins hver sá kostnaður er. Hann er þó hverfandi miðað við kostnað vegna raforkuöflunar fyrir stóriðju.
Samkvæmt ársreikningi OR fyrir 2009, þá er eignarhluti OR í dreifikerfi 99,4 milljarðar, þar af er kostnaður vegna dreifikerfis í byggingu um 1,7 milljarður króna. Bókfærður eignarhluti OR í framleiðslukerfinu var 131,5 ma.kr. og þar af 23,8 ma.kr. í byggingu. Dreifikerfið skiptist síðan í dreifikerfi fyrir rafmagn, hitaveitu, vatnsveitu, fráveitu og gagnaveitu. Gefum okkur að kostnaður vegna rafmagnsveitu sé umtalsvert minni en kostnaðurinn hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu, þannig að þessar veitur vegi þrefalt á við rafmagnsveituna og að kostnaður vegna gagnaveitunnar sé hverfandi. Út frá þessari einföldun, þá fæst að dreifikerfi rafmagns vegur 1/10 af heildardreifikerfinu eða um 10 milljarða. Á síðasta ári tekjur OR þannig að 14,6 ma.kr. komu vegna rafmagnssölu (þar af um 10 ma.kr. vegna stóriðju). Tekjur af heitu vatni voru 6,8 ma.kr., köldu vatni 2,6 ma.kr., fráveitu líka 2,6 ma.kr. og gagnaveitu 0,8 ma.kr. Sé skoðað hvernig tekjurnar skiptast milli dreifingar annars vegar og framleiðslu og sölu hins vegar eru tekjurnar af hinu fyrra 5,6 ma.kr. og 19.6 ma.kr. af hinu síðara.
Það er sama hvernig ég sný þessum tölum, ég get ómögulega séð rökin fyrir því að hækka eigi verð á raforkunni til smánotenda um 11% en dreifinguna um 40% nema til þess að koma í veg fyrir að smánotendur flýji hátt raforkuverð og leiti til Orkusölunnar. Ég sé heldur ekki rökin fyrir því að senda eigi reikninginn fyrir raforkuöflun fyrir stóriðju til almennra notenda.
Vel getur verið, að OR hafi gert vondan samning við stóriðjuver og geti ekki sent þeim reikninginn fyrir raunverulegum orkuöflunarkostnaði. Arfavitlaus er þó hugmyndin að senda almennum notendum hann. Ennþá vitlausari er hugmyndin að hækka dreifikostnað notenda (sem fer um einokunarhluta starfsemi OR) í staðinn fyrir að hækka heildsöluverð rafmagnsins til smásöluhlutans sem þá þarf að hækka smásöluverðið.
Allt kallar þetta á gagngera breytingu á Orkuveitu Reykjavíkur. Skipta þarf fyrirtækinu upp í minnst fimm rekstrarlega og fjárhagslega sjálfstæðar einingar:
Framleiðsla og orkuöflun sem sér um að útvega raforku og heitt vatn sem afhent er í flutningskerfið.
Flutningskerfið sem sér um að koma orkunni, heita og kaldavatninu frá upprunastað að dreifikerfinu.
Dreifikerfi almenningsveitna, sem ber orkuna, heita vatnið og kalda vatnið að notkunarstað og sér um fráveitu.
Sölukerfi almenningsveitna.
Sölukerfi stórnotenda, gæti falið í sér tengingu frá flutningskerfi að notkunarstað.
Með þetta fyrirkomulag í sessi, sem er í samræmi við Evróputilskipanir, þá gæti OR ekki flutt tap af einum hluta rekstrarins yfir á annan hluta, eins og ætlunin er að gera núna.