Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 16.9.2010.
Hæstiréttur felldi sinn stóra dóm í dag og kemst að þeirri niðurstöðu að vaxtaákvæði gengistryggðra samninga sé svo tengt gengistryggingunni að ekki sé hægt annað en að dæma það ógilt. Þar sem ákvæðið er ógilt, þá gildi 3. og 4. gr. laga nr. 38/2001 og miða skuli við lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabanka Íslands.
Forsendur Hæstaréttar eru allt aðrar en Héraðsdóms Reykjavíkur og taka ekkert á forsendubresti lántaka. Því er ljóst að höfða verður nýtt mál ef fá á úr því skorið hvort lántaki hafi orðið fyrir forsendubresti.
Niðurstaðan leiðir aftur til þess að greiðslur sem lántakar inntu af hendi fram að hruni og í samræmi við útsenda greiðsluseðla. Svo dæmi sé tekið um lán tekið um mitt ár 2006, þá hækkar greiðslan af því mjög mikið og í einhverjum tilfellum meira en tvöfaldast hún. Lántaki mun því hafa mjög góð rök fyrir því að höfða mál þar sem látið er reyna á forsendubrest lánsins, að ég tali nú ekki um ákvæði c-liðar 36. gr. laga nr. 7/1936.
Ég fæ ekki betur séð en að enn og aftur sé málinu ekki lokið. Mér virðist t.d. sem ákvæði 4. gr. vaxtalaga sé beitt þannig í þessu máli, að það gæti brotið gegn neytendaverndartilskipun ESB 93/13/EC.