Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 15.9.2010.
Jóhanna Sigurðardóttir leitar logandi ljósi af ástæðu til að varpa sökinni af hruninu á eitthvert atvik í fortíðinni. Eins og við vitum er hún gjörn á að finna möntrur til að fara með og núna hefur hún fundið nýja. Hrunið er einkavæðingunni að kenna. Ég ætla svo sem ekki að mótmæla því að einkavæðing bankanna hefur talsvert með það að gera að bankarnir hrundu. En þetta er eins og að segja að bílslys sé því að kenna að hér eru seldir bílar.
Það er alveg öruggt að þar sem eru bílar og götur verða bílslys, en eftir því sem þeir eru færri, göturnar betri, reglurnar stífari og eftirlitið meira minnka líkurnar. Með tilkomu bílbelta og öruggari bíla hefur slysum á fólki fækkað, að ég tali nú ekki um banaslysum. Væri umferðaeftirlit aukið til muna, dregið úr hámarkshraða, götur breikkaðar, kennsla og fræðsla efld, þá er ég sannfærður um að þeim fækkað enn frekar.
Sama er með einkavæðing bankanna. Einkavæðingin ein og sér er ekki ástæðan fyrir hruni hagkerfisins. Einkavæðingin hefði getað heppnast bara mjög vel, ef allt annað sem þurfti að vera til staðar, hefði verið í lagi. Ég hef á nokkrum sinnum nefnt hér þau atriði sem ég tel hafa skipt mestu máli og langar að rifja þau upp hér (birt fyrst 9. október 2008 og aftur nokkrum sinnum eftir það með breytingum):
Mistök í peningamálastjórnun Seðlabanka Íslands allt frá því áður en krónan var sett á flot í mars 2001.
Mistök við einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands.
Meingallað regluverk fjármálakerfisins, þ.m.t. fyrirkomulag eftirlits með fjármálafyrirtækjum
Basel II regluverkið um eiginfjárhlutfall og áhættustjórnun fjármálafyrirtækja, röng innleiðing þess og framkvæmd bæði hér á landi og erlendis
Alvarlegar brotalamir í starfsemi matsfyrirtækjanna
Mistök í áhættustjórnun erlendra fjármálafyrirtækja sem veittu íslensku bönkunum aðgang að lánsfé
Mistök eða vanmat í áhættustjórnun íslensku fjármálafyrirtækjanna
Vöntun á verklagi við stjórnun rekstrarsamfellu hjá fjármálafyrirtækjum, fyrir utan kannski hjá upplýsingatæknisviðum fyrirtækjanna.
Djörfung og fífldirfska stjórnenda og eigenda (tengist 7 og 8)
Hrein og klár fjársvik eigenda bankanna vegna þess að þeir voru jafnframt stærstu lántakendur
Vanhæfni íslenskra stjórnmálamanna (og embættismanna, þ.m.t. SÍ og FME) til að takast á við og halda utan um sístækkandi bankakerfi
Afneitun allra sem nefndir eru að ofan
Að kenna einkavæðingunni um allt, er að stinga hausnum í sandinn og kemur í veg fyrir að farið verður í nauðsynlegar breytingar á stjórn- og eftirlitskerfinu.
Annar endaði ég færsluna 9. október 2008 með eftirfarandi orðum:
En hvað þarf að gera til að koma í veg fyrir að svona lagað gerist aftur? Þegar stórt er spurt er ekki alltaf mikið um svör. Ég vil þó leggja til nokkrar tillögur:
Það þarf að breyta lögum og reglum og veita FME, Seðlabanka og ríkisstjórn mun meiri heimildir í að stoppa menn af. Það þarf að breyta reglum um eiginfjárhlutfall fjármálastofnana, þannig að 8% séu lágmark sama hvaða lán á við til annarra en opinberra aðila. Einnig mætti hækka eiginfjárhlutfallið í 12 eða 16% og halda áhættustuðlum Basel II óbreyttum. Þó er kannski betra að færa stuðlana aftur til þess sem gilti fyrir 2. mars 2007. Innleiða þarf eins og skot nýjar reglur Basel nefndarinnar hjá BIS um stjórnun greiðsluhæfisáhættu/lausafjáráhættu. Setja þarf það skilyrði að allar fjármálastofnanir uppfylli þær reglur frá og með áramótum. Endurskoða þarf lög um Seðlabanka Íslands, fækka bankastjórum í einn og setja það skilyrði að hann hafi sérþekkingu á málum peningamálastjórnunar, auk þess að vera með mikla reynslu úr fjármálaheiminum. Helst einhverja alþjóðlega reynslu.FME þarf að breyta eftirliti sínu úr því að menn sendi inn skýrslur á netinu yfir í að skýrslum sé skilað á formlegum fundum, þar sem menn þurfa að sýna fram á hlutina. Ég er ekki að gefa í skyn að menn séu ekki að greina rétt frá, en menn verða nákvæmari þegar skýra þarf svörin út jafnóðum. Fyrir vikið þarf að efla og styrkja FME. Banna þarf að stofna til reikninga eins og Icesave út frá Íslandi. Vilji menn gera það, skal það gert í erlendum dótturfélögum/systurfélögum. Það er ekki hægt að banna útrás, en hún verður að fylgja réttum leikreglum.
Og svo fyrir okkur sem engu ráðum:
Af nema verðtryggingu lána. Við erum búin að borga þessa verðtryggingu dýrum dómi og nú er tími til kominn að hún hverfi. Án verðtryggingar bíta stýrivextir strax og á stærri hluta útlána. Það má meira að segja gera þá kröfu að stýrivextir hafi vægi inn í vexti erlendra lána, ef menn vilja.
Mér sýnist sem ég hafi óaðvitandi gert tillögu að því að ráða Má Guðmundsson sem Seðlabankastjóra!
En aftur að einkavæðingunni. Höfum í huga, að tveir bankanna þriggja voru bara að hluta einkavæddir af Halldóri og Davíð. Kaupþing var í einkaeigu og sama gilti um Íslandsbanka II., þ.e. þann sem stofnaður var með sameiningu Verzlunarbanka, Útvegsbanka, Alþýðubanka og Iðnaðarbanka. Þó svo að ríkið hafi átt hlut í Íslandsbanka II., þá taldist hann einkabanki. Um það leiti sem Kaupþing sameinaðist Búnaðarbankanum, þá var Kaupþing orðið öflugri banki en Búnaðarbankinn og hefði kollsteypt þjóðfélaginu, þó sameining við Búnaðarbankann hefðu ekki komið til. Mér finnst því Jóhanna (og raunar margir aðrir) leggja full mikla áherslu á að einkavæðingin sé höfuð sökudólgur. Einkavæðingin er áhrifavaldur, en bara einn af mörgum.