Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 17.9.2010.
Mig langar að kynna hér betur þá ákvörðun sem frétt mbl.is fjallar um:
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna samþykkti einróma á fundi sínum nú síðdegis að leita eftir áliti/ákvörðun ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, vegna dóms Hæstaréttar í máli 471/2010 um vexti af áður gengistryggðum bílalánum. Jafnframt var ákveðið að leita leiða til að fá niðurstöðu EFTA dómsstólsins í málinu. Loks var samþykkt að leita til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, vegna hinnar víðtæku notkunar verðtryggingar í neytendalánum hér á landi.
Ég leitað óformlega til ESA vegna þeirra mála, sem þangað verður vísað, eftir að dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur. Niðurstaðan þá var að bíða eftir dómi Hæstaréttar. Kvörtunin til ESA vegna vaxtadómsins mun byggja á annars vegar c-lið 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda gerninga og því hvernig neytendaverndartilskipun ESB, 93/13/EEC, var innleidd í lög hér á landi.
Ég tel að Hæstiréttur hafi gengið freklega á rétt neytenda í dómi sínum og hunsað alla möguleika til mildandi aðgerða. Dómurinn telur að ógilding gengistryggingarinnar í dómum réttarins 16. júní sl. geri það að verkum að grundvöllur tengingar við LIBOR vexti sé þannig brostinn. Þrátt fyrir heimildir í 2. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 að rétturinn geti ákveðið réttláta og sanngjarna vexti, þá fór rétturinn því miður þá "ódýru leið" að taka ákvæði 4. gr. hrátt upp. Með því verður dómsniðurstaðan mjög íþyngjandi fyrir þá sem tóku gengistryggð húsnæðislán, þó svo að niðurstaðan væri ekki svo óhagstæð fyrir lántaka í máli 471/2010.
Ég tel að Hæstiréttur hafi haft fleiri möguleika í stöðunni. Dómafordæmi eru fyrir því að rétturinn víki frá leiðbeinandi vöxtum vaxtalaga og átti ég allt eins von á því að það yrði gert. Einnig er tilgreint í 2. gr. vaxtalaga að vikja megi frá vaxtaviðmiði 4. gr., þ.e. lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabanka Íslands, og raun hvatt til þess að gera það, sé það skuldara hægstætt. Rétturinn ákvað einnig að líta gjörsamlega framhjá öllum rökum verjanda um forsendubrest lánanna og gerir í raun lítið annað en að skipta einum forsendubresti út fyrir annan, þegar áhrif dómanna frá 16. júní eru tekin með. Opnar rétturinn því fyrir þann möguleika, að lántakar leiti aftur til dómstóla og í þetta sinn til að fá forsendubrestinn bættan. Finnst mér klaufalegt af réttinum að skilja þetta atriði eftir í dómi sínum.
Neytendaverndartilskipun ESB bannar að samningum sé breytt neytanda í óhag. Í 8. gr. tilskipunarinnar er aðildarríki EES, í þessu tilfelli Íslandi, uppálagt innleiða eða viðhalda ströngustu ákvæðum til að tryggja neytendum vernd af hæsta stigi (e. Member State may adopt og retain the most stringent provisions compatible with the Treaty in the area covered by this Directive, to ensure a maximum degree of protection for the consumer).
Önnur tilskipun ESB, þ.e. 2005/29/EC um ósanngjarna viðskiptahætti (unfair commercial practices), skiptir hér líka máli. Hafa skal í huga að Exista, móðurfélag Lýsingar, er stærsti einstaki stöðutakinn gegn íslensku krónunni. Félagið sjálft telur sig eiga 180 milljarða í framvirkum samningum vegna stöðu sem það tók gegn krónunni, þ.e. veðjaði að krónan félli hressilega. Það hljóta að teljast ósanngjarnir viðskiptahættir að fyrirtækið veðji þannig gegn viðskiptavinum sínum (þó þeir séu í dótturfélagi). Kjarni tilskipunarinnar er þó, að sérhver grein samnings sem myndar ójafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila neytandanum til tjóns, er óheimil (sem er sama markmið og tilskipunar 93/13/EEC). Annað grundvallaratriði tilskipunarinnar er að fyrirtæki eru skyldug til að
trade fairly, avoiding unfair and misleading commercial practices
sem mætti leggja út að sýna heiðarleika í viðskiptum og forðast óheiðarlega og villandi viðskiptahætti. Efast má stórlega um að íslensk fjármálafyrirtæki hafi haft ákvæði tilskipunarinnar í heiðri í undanfara hrunsins.
Annars getur vel verið að hægt verði að reka dómsmál um ákvæði neytendaverndartilskipunarinnar hér á landi. Það hefur jú ekki verið ennþá tekið á því að lánasamningarnir hafi innihaldið ósanngjarna skilmála sem röskuðu samningsstöðunni neytandanum í óhag. Og þó svo að það hafi að einhverju leiti verið gert, þá finnst mér ljóst að dómur Hæstaréttar skekkir samningsstöðu neytenda ennþá frekar þeim í óhag.
Í mínum huga er þessum málum alls ekki lokið. Hæstarétti tókst að finna leið sem jók á greiðslu- og skuldavanda fasteignalántaka, verði dómur í máli 471/2010 fordæmisgefandi fyrir gengistryggð fasteignalán. Er það nákvæmlega sú niðurstaða sem ég óttaðist. Ég átti að vísu von á að rétturinn færði þá minna afgerandi rök fyrir niðurstöðu sinni, t.d. með vísun í varakröfur sóknaraðila. Niðurstaða réttarins er að tenging við LIBOR vexti hafi rofnað um leið og gengistryggingin var dæmd ólögleg. Af þeim sökum verði að ógilda vaxtahluta lánasamningsins líka. Þar með opnar Hæstiréttur fyrir möguleikann á því að vísa til 4. gr. vaxtalaga í staðinn fyrir það að horfa á þær kröfur sem voru hafðar uppi. Þegar betur er að gáð, þá er þetta heldur ómerkileg leið til að segja að lánveitandi hafi orðið fyrir forsendubresti, þegar í ljós kom að hann hafði notað ólöglega gengistryggingu. Hæstiréttur gerir því í raun nákvæmlega sama og undirréttur og ákveður að bæta þurfi lánveitanda upp forsendubrest.