Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 16.6.2010.
Ég segi bara:
Til hamingju með daginn.
Hæstiréttur Íslands hefur kveðið upp þann dóm að samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur sé óheimilt að binda lán í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Sjá dómana hér:
92/2010 Óskar Sindri Atlason (Björn Þorri Viktorsson hrl.) gegn SP. fjármögnun hf. (Sigurmar K. Albertsson hrl.)
og
153/2010 Lýsing hf. (Sigurmar K. Albertsson hrl.) gegn Jóhanni Rafni Hreiðarssyni og Trausta Snæ Friðrikssyni (Ragnar Baldursson hrl., Ólafur Rúnar Ólafsson hdl.)
Björn Þorri Viktorsson, Ragnar Baldursson og Ólafur Rúnar Ólafsson þökk fyrir baráttu ykkar og hafa farið með málin í gegn um tvö dómstig.
Það var 12. febrúar 2009, sem ég minntist fyrst á það í færslu hér, að gengistrygging væri líklegast í andstöðu við ofangreind lög. Síðan hef ég ítrekað tekið þetta mál upp og bent á þær lagaskýringar sem Hæstiréttur bendir á. Þá á ég við:
Var því lagt til grundvallar að um lánssamning í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu hefði verið að ræða. Talið var að samningur aðila bæri skýrlega með sér að hann væri um lán í íslenskum krónum. Kaupverð bifreiðarinnar og mánaðarlegar greiðslur voru tilgreind í íslenskum krónum. Þá kom berum orðum fram að íslensk fjárhæð hverrar afborgunar ætti að breytast eftir gengi á þeim erlendu myntum, sem mið var tekið af. Af þessum sökum var talið ótvírætt að samningur aðilanna væri um skuldbindingu í íslenskum krónum og félli hann því undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001. Rakið var að í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 38/2001, og öðrum lögskýringargögnum varðandi þau hefði ítrekað verið tekið fram að með þeim yrðu felldar niður heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og að rétt væri að taka af allan vafa þar af lútandi. Talið var að vilji löggjafans kæmi skýrlega fram í því að í orðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 væri eingöngu mælt fyrir um heimild til að beita tilteknum tegundum verðtryggingar, en þar væri ekkert rætt um þær tegundir sem óheimilt væri að beita. Lög nr. 38/2001 heimiluðu ekki að lán í íslenskum krónum væru verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Þá væru reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og yrði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki væri stoð fyrir í lögum.
Eftir að ég hafði rætt þessi mál við Eyvind G. Gunnarsson, lektor við Háskóla Íslands, var ég endanlega sannfærður um að gengistryggingin væri óheimil og núna hefur Hæstiréttur tekið undir það.
Ég reikna með að þungu fargi sé létt af mörgum lántökum, þ.e. þeim sem tóku gengistryggð lán. Ég býst líka við að þeir sem tóku verðtryggð lán finnist sem þeir standi verr eftir og vilji fá hlut sinn leiðréttan. Það hlýtur að vera rökrétt framhald.
Dómur Hæstaréttar í dag er fordæmisgefandi, þrátt fyrir að hann fjalli um tvö tiltekin mál. Það er þessi texti dómsins:
Talið var að vilji löggjafans kæmi skýrlega fram í því að í orðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 væri eingöngu mælt fyrir um heimild til að beita tilteknum tegundum verðtryggingar, en þar væri ekkert rætt um þær tegundir sem óheimilt væri að beita. Lög nr. 38/2001 heimiluðu ekki að lán í íslenskum krónum væru verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Þá væru reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og yrði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki væri stoð fyrir í lögum.
Það er þessi ófrávíkjanleiki annars vegar og að lögin heimiluðu bara ákveðna tegund verðtryggingar og gengistrygging er ekki ein af þeim.
Nú geta margir fagnað í kvöld og á morgun, en á föstudaginn þurfa lántakar, lánveitendur og löggjafinn að átta sig betur á nýjum veruleika án lagaóvissu.