Seðlabankinn leggur mikið undir að gömlu bankarnir falli ekki aftur. Kostnaður við tæknilegt gjaldþrot Seðlabankans 551 þ.kr. á hvern Íslending.

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.6.2010.  Efnisflokkur:  Nýir bankar, Bankahrun, Seðlabankinn

Ég hélt þegar ég byrjaði að rita þessa færslu að fjármálaráðherra hefði aðeins svarað einni krassandi fyrirspurn á Alþingi í gær (9. júní).  Þær voru tvær.

Fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur

Í skriflegu svari fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur sem birt var á vef Alþingis í dag má lesa ýmislegt fróðlegt.  Steingrímur á hrós skilið fyrir að víkja sér ekki undan því að svara meginatriðum fyrirspurnarinnar, þó það hefði mátt vera ítarlegra.

Spurningar Eyglóar til ráðherra eru, eins og hennar er háttur, hreinar og beinar og ætlað að draga fram viðhorf ráðherra til gengisbreytinga og verðtryggingar.  Eins og gefur að skila víkur Steingrímur sér undan að svara því beint.  En hér eru spurningar Eyglóar:

    1.      Hver er verðtryggingarjöfnuður skulda og eigna nýju bankanna? Ekki er óskað sundurliðunar eftir bönkum.
    2.      Eru líkur á að nýju bankarnir hagnist á verðbólgu ef verðtryggðar eignir eru miklar í hlutfalli við verðtryggðar skuldir?
    3.      Hyggst ráðherra grípa til aðgerða til að koma megi í veg fyrir að ríkið hagnist óeðlilega á kostnað almennings vegna verðbólgu?
    4.      Hver er gjaldeyrisjöfnuður nýju bankanna? Ekki er óskað sundurliðunar eftir bönkum.
    5.      Hver eru áhrif veikingar og styrkingar krónunnar á hag nýju bankanna miðað við gjaldeyrisjöfnuð þeirra?
    6.      Hyggst ráðherra grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að ríkið hagnist óeðlilega á kostnað almennings af veikari krónu?

Það sem vakti mestan áhuga minn í svari ráðherra er eftirfarandi:

    Við stefnumörkun um endurreisn bankanna hafa framangreind atriði verið höfð að leiðarljósi og koma fram í nokkrum meginþáttum fjármagnskipunar þeirra:
    *      Eiginfjárframlag ríkisins er í formi skuldabréfa í íslenskum krónum með breytilegum vöxtum sem gefur bönkunum tekjur í krónum á móti vaxtakostnaði innlána. Eiginfjárframlagið tekur mið af markaðsáhættu vegna gengistryggðra lána til þeirra aðila sem hafa takmarkaðar tekjur í erlendum gjaldeyri.
    *      Húsnæðislán Glitnis og Kaupþings sem veðsett höfðu verið Seðlabanka Íslands vegna lausafjárfyrirgreiðslu fyrir fall bankanna eru færð til bankanna að nýju en þeir greiða fyrir þau með gengistryggðum og verðtryggðum skuldabréfum og eykur þannig jöfnuð í efnahagsreikningum þeirra.

Það er athyglisvert að eiginfjárframlag ríkisins tekur mið af markaðsáhættu vegna gengistryggðra lána til aðila með mesta hluta tekna sinna í íslenskum krónum.  Það hefði nú verið forvitnilegt að fá skýringu ráðherrans á því hvaða þýðingu þetta hefur fyrir ríkissjóð, ef Hæstiréttur dæmir lántökum í hag og setur því alla markaðsáhættuna á bankana.  Minnkar eiginfjárframlagið við þetta eða eykst það?  Mun dómur Hæstaréttar bjarga ríkinu eða valda frekari skuldsetningu.  Nú var þetta framlag til Glitnis (Íslandsbanka) og Kaupþings (Arion banka) eingöngu 56 milljarðar.  Þýðir það þá, að markaðsáhætta þessara banka var ekki meiri vegna gengistryggðra lána?

Ekki er síður áhugavert að sjá, að Seðlabankinn er ekki búinn að brenna sig nóg af því að taka við skuldabréfum af Glitni og Kaupþingi.  Í staðinn fyrir að halda nokkuð öruggum húsnæðisskuldabréfum viðskiptavina Glitnis og Kaupþings og færa þau frekar inn í Íbúðalánasjóð, þá greiða þeir fyrir þau með gengistryggðum og verðtryggðum skuldabréfum.  Ég skil ekki hvernig þessi aðgerð eykur jöfnuð í efnahagsreikningi bankanna.  Gefum okkur að þessi bréf hafi verið 400 milljarða virði, þá hljóta þeir að hafa greitt 400 milljarðar fyrir bréfin.  Við það færast húsnæðislánin á eignahlið efnahagsreikningsins og hin útgefnu skuldabréf á skuldahlið.  Að bæta 400 milljörðum jafnt á báðar hliðar efnahagsreiknings breytir ekki jöfnuði hans, ekki einu sinni þó bréfin hafi verið gefin út af þriðja aðila.  Jöfnuðurinn helst óbreyttur, hver svo sem hann var.  Það eina sem gerst hefur er að eigna- og skuldahlið efnahagsreikninga þessara banka hafa hækkað um 400 milljarða.

En hver er staða Seðlabankans?  Jú, hann hefur skipt út skuldabréfum með veði í fasteignum íslenskra húsnæðiseigenda, lántaka hjá Glitni og Kaupþingi, fyrir skuldabréf annað hvort gefin út af bönkum í slitameðferð eða viðskiptavinum þessara banka, sem alveg er óljóst í hvaða stöðu eru.  Ekki er ljóst af svarinu hversu traust þessi bréf eru.  Mér sýnist, meðan ég fæ ekki betri upplýsingar, en að Seðlabankinn sé aftur að leggja heilmikið undir að bankarnir komist í gegn um þann ólgusjó sem þeir sigla í.  Þá á ég m.a. við að neyðarlögin standist áhlaup kröfuhafa bankanna fyrir rétti.  Það er nefnilega allt eins víst, að endurgreiðsla skuldabréfanna rýrni eignist kröfuhafar meiri forgang að eignum föllnu bankanna.  Hugsanlega er þetta allt tryggt í bak og fyrir, en við höfum séð að hinar bestu tryggingar eru oft ekki pappírsins virði.

Fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur

Sigríður er mikil talnamanneskja og því er fyrirspurn hennar að sjálfsögðu um tölur og það nokkuð áhugaverðar.  Svar ráðherra er því fullt af tölum sem fróðlegt og um leið hryllilegt er að skoða.

Skoðum fyrst spurningar Sigríðar Ingibjargar:

    1.      Hver verður heildarkostnaður vegna tæknilegs gjaldþrots Seðlabanka Íslands fyrir:
            a.      ríkissjóð,
            b.      hvern íbúa,
            c.      hvern skattgreiðanda,
            d.      fjögurra manna fjölskyldu?

     2.      Hver verður heildarkostnaður vegna eiginfjárframlags ríkisins og víkjandi lána til Arion banka, Íslandsbanka og NBI fyrir:
            a.      ríkissjóð,
            b.      hvern íbúa,
            c.      hvern skattgreiðanda,
            d.      fjögurra manna fjölskyldu?

    3.      Hvert er fjárframlag ríkisins vegna peningamarkaðssjóða, innstæðutrygginga annarra en Icesave-reikninganna, sparisjóða, annarra fjármálafyrirtækja en í 2. tölul., tryggingafélaga, lífeyrissjóða og mögulega annarra lánastofnana og fyrirtækja? Óskað er eftir sundurliðun með nöfnum hvers fyrirtækis og fjárframlagi ríkisins.

    4.      Hver verður heildarkostnaður framlaga skv. 3. tölul. fyrir:
            a.      ríkissjóð,
            b.      hvern íbúa,
            c.      hvern skattgreiðanda,
            d.      fjögurra manna fjölskyldu?

    5.      Telur ráðherra ástæðu til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þessar skuldbindingar og framlög ríkissjóðs? Hverjir eru kostir og gallar slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu að mati ráðherra? Telur ráðherra ásættanlegt að almenningur beri skuldaklafa óreiðumanna án þess að samþykkja slíkt fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hver yrðu að mati ráðherra áhrif slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu á íslenskt efnahagslíf?

Ég ætla ekki að fara mikið ofan í einstök svör ráðherra en mann getur ekki annað en hryllt við þeim kostnaði sem við, almenningur í landinu, þurfum að bera vegna ákvarðana sem teknar voru í Seðlabanka Íslands í undanfara bankahrunsins.  Með reiknikúnstum hefur ráðherra þó tekist að laga stöðuna aðeins, eins og 75 milljarða tap Seðlabankans sé eitthvað sem bara hverfi út í veður og vind.  En skoðum svar ráðherra:

Með samkomulagi sem gert var í byrjun árs 2009 og tók gildi í árslok 2008 framseldi Seðlabanki Íslands til ríkissjóðs samtals 345 milljarða kr. kröfur sem bankinn hafði tekið sem tryggingar fyrir veð- og daglánum og hann hafði veitt fjármálafyrirtækjum í samræmi við hlutverk sitt sem seðlabanki. Tilgangur samkomulagsins var að tryggja bankanum viðunandi eiginfjárstöðu. Ríkissjóður keypti tryggingabréfin og lét í staðinn 270 milljarða kr. verðtryggt ríkisskuldabréf. Gert var ráð fyrir að 95 milljarðar kr. mundu innheimtast af kröfum. Með samkomulagi sem tók gildi um sl. áramót framseldi ríkissjóður kröfurnar til baka til Seðlabanka gegn lækkun skuldabréfsins.

    a.      Heildarkostnaður ríkissjóðs nemur 175 milljörðum kr.
    b.      Kostnaður á hvern íbúa nemur 551.000 kr.

Gott og vel, það eru bara 175 milljarðar sem ríkissjóður leggur Seðlabankanum til.  75 milljarðarnir (mismunurinn á 345 og 270) koma hvergi inn í myndina, þó svo að auðvitað séu þeir tap sem leggst á þjóðarbúið og þar sem almenning, nema Seðlabankinn hafi fundið einhverja leið til að endurheimta þá tölu sbr. svar ráðherra við fyrirspurn Eyglóar.  Bréfin sem ríkissjóður keypti af Seðlabankanum voru nefnilega þau hin sömu og Seðlabankinn seldi skipti síðan á við Glitni og Kaupþing.  Þ.e. 400 milljarðarnir sem ég notaði sem dæmi að ofan.  (Tekið skal fram að talan 400 milljarðar var bara notuð til að sýna hvernig viðskiptin fóru fram og er ekki endilega rétt tala.)  Ríkið mat að 95 milljarðar fengjust upp í 270 milljarða skuldabréfin sem það keypti af Seðlabankanum.  Verðmætarýrnun bréfanna var því 72,5%, þ.e. úr 345 mj.kr. í 95 mj.kr.  Af þessari upphæð greiðir Saga Capital um 18 mj.kr. og VBS átti að greiða eitthvað líka.  En hvað sem þessu líður, þá stóðu a.m.k. rúmlega 300 mj.kr. í húsnæðislánum Glitnis og Kaupþings sem trygging fyrir lánum til bankanna.  Þessi lán eru af ríkinu metin á undir 95 mj.kr. (líklegast innan við 85 mj.kr.) og þá endurseld Seðlabankanum svo hann geti átt í viðskiptum við bankana tvo.  Nú kemur hvergi fram hver upphæðin var í viðskiptum SÍ og bankanna.  Kannski má finna það í einhverjum upplýsingum frá SÍ eða með lestri skýrslu AGS eða einhverra annarra rita.  En hafi rúmlega 300 mj. lánasafn verið verðmetið á um eða innan við 80 mj. kr., þá spyr ég bara hvers vegna eru bankarnir að innheimta þau að fullu?

Í lokin má nefna að kostnaður ríkissjóðs af þeim atriðum sem Sigríður Ingibjörg spyr um er alls 391 mj.kr. eða 1.231 þ.kr. á hvern íbúa.  Þetta er fyrir utan stökkbreytinguna á skuldum einstaklinga, heimila og fyrirtækja, sem feigðarför þeirra kostaði.  Mér finnst einhvern veginn að fjármálafyrirtækin skuldi okkur almenningi aðeins meiri auðmýkt og vilja til að leysa á farsælan hátt úr skuldamálum einstaklinga, heimila og fyrirtækja.  Þegar ég tala um á farsælan hátt, þá á ég við án þess að standa við eignarupptökuna, sem hlaust af klúðri stjórnenda og eigenda bankanna.