Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 12.6.2010. Efnisflokkur: Umræðan
Í Fréttablaðinu í dag er viðtal við Ástu Sigrúnu Helgadóttur, forstöðumann Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna. Þar segir hún þá skoðun sína að fólk sé í afneitun og leiti því ekki úrlausnar á vanda sínum.
Mér finnst vera sú villa í málflutningi Ástu Sigrúnar, sem ég tel að sé að vinna gott starf, að fólk neitar að viðurkenna eignaupptökuna. Hún er stóra málið. Ég viðurkenni ekki lögmæti gengistryggingarinnar, ég álít fjármálakerfið og eigendur fjármálafyrirtækja hafa beitt markaðsmisnotkun til að þenja út höfuðstól lána einstaklinga, heimila og fyrirtækja og því sé ekki lagagrunnur fyrir þessari hækkun höfuðstólsins. Ég tel að það hafi orðið verulegur forsendubrestur lána, sem leysi mig undan því að greiða þær verðtryggingar sem eru á lánunum og það sé andstætt íslenskum lögum að fjármálafyrirtæki krefjist þess að ég greiði uppblásinn höfuðstól lánanna til baka. Ég er tilbúinn að greiða í samræmi við upprunalega greiðsluáætlun og þær hagspár sem voru í þjóðfélaginu, þegar ég tók lánin, auk einhvers sanngjarns álags sem gæti endurspeglað verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands, þ.e. 2,5 - 4% árlega. Lengra er ég ekki tilbúinn að teygja mig og tel allt umfram þetta vera ólögmæta tilraun til eignaupptöku.
Ég tel mig hafa sterkan lagagrunn fyrir skoðun minni í 36. grein laga nr. 7/1936, samningalög, og 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, vaxtalög. Ég tel mig líka geta beitt fyrir mér mörgum öðrum lagaákvæðum, sem ég nenni ekki að fletta upp núna, en má finna í færslum mínum síðasta tæpt eitt og hálft ár.
Það getur vel verið að ekki hafi öll fjármálafyrirtæki tekið þátt í misnotkuninni, en þau þáðu með þökkum allt sem af þessu hlaust meðan ávinningurinn var þeirra megin og neita núna að skila því til réttmætra eigenda. Það lýsir nefnilega alvarlegri brotalöm í íslenskri löggjöf, að eignarétturinn virðist bara gilda gagnvart þeim stóru og sterku, en ekki okkur hinum.