Blekkingar stjórnvalda - Ríkisstjórn bráðabirgðaaðgerðanna

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.6.2010.  Efnisflokkur:  Umræðan

Með ólíkindum er stundum að hlusta á stjórnarliða og þá sérstaklega samfylkingarfólk berjast gegn því að viðurkenna vanda heimilanna.  Ég hef skrifað um skuldavanda heimilanna og fyrirtækja í á þriðja ár og setið í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna frá byrjun.  Í skrifum mínum og störfum fyrir samtökin hef ég ítrekað bent á ýmsar tölulegar staðreyndir um stöðu heimilanna.  Nær undantekningarlaust hafa þessar tölur reynst réttar.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa aftur og aftur varað við þróun mála.  Við höfum bent á galla í frumvörpum, sem síðan hafa orðið að lögum, bent á blekkingar í tilboðum fjármálafyrirtækja og gildrur í verklagsreglum sem settar hafa verið til að greiða úr skuldavanda heimilanna.  Því miður hafa stjórnvöld ekki talið sig þurfa að hlusta á gagnrýni okkar.  M.a. þess vegna eru úrræði um sértæka skuldaaðlögun ekki að virka sem skyldi.  M.a. þess vegna hefur þurft að leggja til breytingar á áður settum lögum með úrræðum.  M.a. þess vegna liggja fyrir óteljandi beiðnir um nauðungarsölur, sem þó hefur verið frestað nokkrum sinnum með lögum vegna þess að vinna átti tíma.

Grátlegt er til þess að huga hve illa stjórnvöld hafa nýtt tímann frá hruni krónunnar í mars 2008.  Fyrst svaf ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar svefninum væra og einfaldlega hélt að allt myndi bjargast með því að gera ekki neitt.  Í nóvember 2008 komu aðgerðir sem nánast gerðu ekki neitt nema lengja í hengingarólinni.  Þá kom ríkisstjórnin sem ætlaði að slá upp skjaldborg um hemilin, en hún snerist upp í andhverfu sína og varð skjaldborg um fjármálafyrirtækin í samvinnu við fyrirtækin og AGS.  Ofurháir reikningar hafa verið sendir heimilunum í formi skattahækkana, eins og greiðsluvandi þeirra hafi ekki verið nægur fyrir.  Eldri borgarar og öryrkjar hafa sætt skerðingum umfram aðra, líklegast vegna þess að tryggja átti fátækt þessa hóps.  Eini hópurinn sem hefur fengið allt sitt tryggt er hópur ofurríkra innstæðueigenda, en samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þá ákvað ríkisstjórn Geirs H. Haarde að verja innstæður þeirra spurningalaust og án fyrirvara upp á nokkur hundruð milljarða.  Þetta er fólkið sem hefði átt að eiga allt sitt skuldlaust, einfaldlega vegna hve mikið það átti í banka.

Krafa Hagsmunasamtaka heimilanna hefur verið einföld:  Við viljum að forsendubrestur húsnæðislána heimilanna (og þá erum við að tala um lán á lögheimili, núverandi, fyrrverandi og tilvonandi fyrir þá sem glíma við sölutregðu) sé leiðréttur aftur að stöðunni eins og hún var 1. janúar 2008 með 4% þak á árlegar verðbætur frá þeim tíma.  Upphaflega vildum við að gengistryggðum lánum yrði breytt í verðtryggð lán og fengju þetta sama þak, en síðan uppgötvuðum við 13. og 14. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 og komumst að því að verðtrygging með gengisviðmiði væri einfaldlega ólöglegt.  Héraðsdómur Reykjavíkur hefur tvisvar tekið undir þessa skoðun samtakanna og í síðara skiptið gekk héraðsdómarinn lengra í að lækka höfuðstól lánsins, sem um ræddi, en björtustu vonir samtakanna voru.

Jóhanna Sigurðardóttir veifaði í þingsal Alþingis í gær tölum sem eru í besta falli ónákvæmar og alveg örugglega blekkjandi.  Á ég þá við hve mörg heimili hafi notið góðs af aðgerðum þriggja ríkisstjórna og eftir sætu bara 23% heimila í vanda sem væri frekar lítil aukning frá 2004.  Jóhanna greyp tölu sem var ákaflega heppileg til að vísa í.  Hún er um stöðu heimila sem eru með verulegan hluta gengistryggðra lána í frystingu.  Inn í tölur Seðlabankans vantar hluta af framfærslukostnaði heimilanna og allar greiðslur námslána.  Vissulega vantar líka upplýsingar um úttöku séreignarsparnaðar, en líkt og frystingarnar og stöðvun á nauðungarsölum, þá er það tímabundin aðgerð.  Málið er að ríkisstjórnir Jóhönnu Sigurðardóttur hafa varla komið  með nokkra varanlega aðgerð til hjálpar heimilunum sem máli skiptir.  Það er stóra málið.  Í staðinn fyrir að koma með bráðaaðgerðir, þá er þetta ríkisstjórn bráðabirgðaaðgerðanna sem að auki eru margar hverjar ákaflega illa heppnaðar.


Færslan var skrifuð við fréttina: Vandi heimila vanmetinn?