Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 15.6.2010. Efnisflokkur: Verðtrygging
Ég verð að taka hattinn ofan fyrir Eygló Harðardóttur í þessu máli. Fyrst fékk hún því framgengt að haldinn var opinn fundur í viðskiptanefnd um verðtrygginguna og efnahags- og viðskiptaráðherra var fenginn til að láta útbúa skýrslu um málið. Núna er komin þverpólitísk nefnd sem fjalla á um kosti þess og galla að draga úr vægi verðtryggingar. Ég hélt að kerfið hefði hana undir í baráttu hennar, en það fór á annan veg.
Vissulega er á móti frestað öðrum ákvæðum frumvarps hennar, en vonandi verður það niðurstaða vinnu nefndarinnar, að tillögur hennar og raunar Hagsmunasamtaka heimilanna um 4% þak á árlegar verðbætur verði samþykktar á haustþingi.
Annars vil ég segja það um skýrsluna, sem Gylfi Magnússon fékk Askar Capital að taka saman, að hún er ekki pappírsins virði. Nokkrir stjórnarmenn Hagsmunasamtaka heimilanna lásu yfir skýrsluna og í henni eru slíkar ambögur að mér finnst að ráðherra eigi að krefjast endurgreiðslu. Ég mætti ásamt Friðriki Ó. Friðrikssyni á opinn fund viðskiptanefndar og bentum við á þeim fundi á mjög margt í skýrslunni sem í besta falli orkaði tvímælis, en í mörgum tilfellum bar vott um arfaslök vinnubrögð að okkar mati. Viðskiptanefnd bað okkur um að semja greinargerð um gagnrýni okkar, en hún verður ekki rituð nema Alþingi eða ráðherra greiði okkur fyrir þá vinnu a.m.k. fjórðung af því sem ráðherra greiddi Askar Capital fyrir sína vinnu.
Það var fleira sem gerðist jákvætt á þingi og stjórnarheimilinu í dag. Á ég þá við samkomulag um þinglok, sem byggir á því að "heimilispakkinn", eins og forsætisráðherra kallar hann verður tekinn fyrir í næstu viku, þ.e. eftir að dómur Hæstaréttar um gengistrygginguna liggur fyrir. (Mér finnst "heimilispakkinn" vera nokkuð nálægt "heimilispakkið", þannig að eins gott er að enginn rugli þessu tvennu saman.) Tókst að afstýra því að þing yrði sent heim áður en dómur Hæstaréttar félli. Nú bíð ég, eins og fleiri, eftir niðurstöðu Hæstaréttar og vona að furðuleg skilaboð efnahags- og viðskiptaráðherra til réttarins trufli ekki störf hans.
Færslan var skrifuð við fréttina: Nefnd skoði forsendur verðtryggingar