Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 24.6.2010. Efnisflokkur: Gengislánadómar, Nýir bankar
Það er umhugsunarefni, að nú hafa tveir bankar stigið fram og hafnað alfarið málflutningi Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, og Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra. Hafa bankarnir tekið undir málflutning minn, sem byggður er á opinberum gögnum.
Ég fagna því að bankarnir standa svona vel og skora því á þá að virða dóm Hæstaréttar undanbragðalaust. Mér finnst eðlilegt að fjármálafyrirtækin beri vafann í þessu máli. Höfum í huga að lántakarnir eru viðskiptavinir bankanna og þeir tóku þessi lán í þeirri trú að hér á landi væri heilbrigt fjármálakerfi, þar sem fjármálafyrirtæki væru að verja hagsmuni allra viðskiptavina sinna en ekki sumra.
Loks skora ég á Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, og Höskuld H. Ólafsson, bankastjóra Arion banka, að stuðla að sátt við viðskiptavini sína með því að funda með hagsmunaaðilum sem barist hafa fyrir sanngjarnir lausn á skuldavanda heimilanna. Beiðni sama efnis hefur þegar verið komið á framfæri við Steinþór Pálsson, bankastjóra Landsbankans.
Færslan var skrifuð við fréttina: Stefnir ekki efnahag bankans í hættu