Hvernig geta kröfurhafar tapað því sem þeir hafa þegar gefið eftir?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 24.6.2010.  Efnisflokkur:  Lánasöfn, Gengislánadómar

Ég get ekki annað en haldið áfram að furða mig á ummælum Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra.  Það bara hlýtur að vera einhver leynisamningur í gangi við kröfuhafa, ef tap þeirra getur numið hundruð milljarða til viðbótar því sem þeir hafa þegar gefið eftir.

Samkvæmt opinberum upplýsingum Seðlabanka Íslands og októberskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þá fór lánasöfn gömlu bankanna til þeirra nýju með miklum afslætti.  Mér telst til að þessi afsláttur hafi verið um 58%.  Samkvæmt þessu er búið að gera ráð fyrir leiðréttingu á gengistryggingunni.  Dómur Hæstaréttar hefur því engin áhrif á eignahlið bankanna, en hann hefur áhrif á tekjuhliðina.  Og það er í gegn um það sem kröfuhafar geta tapað.  Afslátturinn sem gefinn var, var nefnilega hluti af plotti.

Ef lánasöfnin hefðu ekki verið færð yfir með afslætti, þá hefði þurft að skuldsetja bankana upp á mismuninn á eignasafni þeirra og innlánum.  Einnig hefði það kallað á margfalt hærra eiginfjárframlag ríkissjóðs og þar sem skattgreiðenda.  Til að komast framhjá því, þá virðist sem lánasöfnin hafi verið færð niður, en eingöngu í bókum bankanna.  (Ég sem hélt að þetta væri sannvirði lánasafnanna.)  Krafan á lántakana var ekki lækkuð því búa átti til auðvelda tekjulind fyrir bankana svo hægt væri að sýna sem mestan hagnað.  Af hagnaðinum væri síðan greiddur góður arður og þannig fengju kröfuhafar til baka hluta af því sem gefið var eftir.  Nú hefur ráðherra upplýst að gert var ráð fyrir að kröfuhafar áttu að fá hundruð milljarða með þessu.

Ég hef oft bent á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur farið fram á að bankarnir láti afsláttinn á lánasöfnunum ganga til lántaka.  Nú hefur Hæstiréttur í reynd framkvæmt þennan vilja AGS.  Það er gott.  Ef AGS er með þessa skoðun og tölur Seðlabankans sýna góða stöðu bankanna, hvers vegna er Gylfi þá með þetta upphlaup.  Eina ástæðan sem ég sé, er að gerðir hafi verið leynisamningar við kröfuhafa.


Færslan var skrifuð við fréttina: Gæti kostað kröfuhafa hundruð milljarða