Úrsögn úr stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 18.11.2010.  Efnisflokkur:  Umræðan, Hagsmunabarátta

Vegna ítrekaðrar hnýsni fréttamanna í mín einkamál, sé ég mig tilneyddan til að segja af mér stjórnarmennsku í Hagsmunasamtökum heimilanna. Jón Kaldal, ritstjóri Fréttatímans, og Óskar Hrafn Þorvaldsson, fréttastjóri Fréttatímans, hafa ákveðið að mínar skuldir séu söluvara.  Hafa þeir ákveðið, þrátt fyrir óskir um hið gagnstæða, að birta frétt um skuldastöðu mína og konu minnar í næsta tölublaði.  Mér finnst þetta frekleg innrás í mitt einkalíf og konu minnar sem hefur það eitt sér til sakar unnið að vera gift mér. 

Ég kýs að segja mig úr stjórn HH til að freista þess að verja fjölskyldu mína fyrir frekari hnýsni af þessum toga. Ég gaf konunni minni loforð um að gera það, ef til svona hluta kæmi.  Þar sem ég er maður minna orða, þá stend ég við það.

Þeir félagar, Óskar og Jón, bera fyrir sig furðulegum rökum, m.a. um að ég sé "opinber talsmaður þrýstihóps um niðurfellingu skulda".  Bara þetta eina atriði sýnir hvað Fréttatíminn hefur lítinn skilning á baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna.  Það er himinn og haf á milli þess að berjast fyrir leiðréttingu á þeim forsendubresti sem varð vegna aðgerða innan við 100 einstaklinga í undanfara hruns íslenska hagkerfisins og biðja um niðurfellingu skulda.  Hvergi í málflutningi HH er farið fram á niðurfellingu skulda.  Auk þess er ég ekki opinber talsmaður samtakanna heldur hafa fjölmiðlar mjög oft samband við mig.  Kannski tala ég skýrar en aðrir í stjórninni eða er bara skemmtilegri, ég veit það ekki, en ég hef aldrei óskað eftir viðtölum og margoft vísað þeim á aðra stjórnarmenn fyrir utan að fjölmiðlar snúa sér líka beint til annarra stjórnarmanna. Sé einhver opinber talsmaður samtakanna, þá er það formaðurinn.  En hann er víst ekki nógu spennandi umfjöllunarefni, þar sem hann býr bara á hæð í austurbæ Reykjavíkur.

Við svona menn er ekki hægt að rökræða og mun ég ekki gera það. 

Ég hef unnið af heilindum í mínu starfi fyrir HH.  Ég mun ekkert hætta að berjast fyrir því sanngirni og réttlæti sem öll vinna mín og HH hefur snúist um. 

Hagsmunagæsla snýst mjög oft um að maður sjálfur þekki málin á eigin skinni.  Þannig eru besta baráttufólk gegn fíkniefnaváinni aðstandendur fíkla.  Ekki kannast ég við að þeirra sögur séu dregnar fram í sviðsljósið í óþökk þeirra.  Harðasta baráttufólk fyrir rétti samkynhneigðra er samkynhneigt fólk.  Það er nákvæmlega ekkert óeðlilegt við það að þeir sem eru í hagsmunabaráttu séu m.a. að gæta sinna eigin hagsmuna.  Ég reikna t.d. með því að fjölmiðlar muni hafa skoðun á frumvarpi til fjölmiðlalaga.  Þýðir slík barátta að maður sé að skara eld að sinni köku?  Í mínu tilfelli er ekki um það að ræða.  Allar þær leiðréttingar sem ég gæti fengið miðað við ýtrustu tillögur HH er langt fyrir neðan allar meðaltalsupphæðir.  Það breytir samt ekki því að meðan lög skylda mig ekki til að bera skuldatölur mínar á torg, þá vil fá að njóta friðhelgi einkalífs míns.

Ég geri mér grein fyrir að hægt er að nálgast alls konar upplýsingar í opinberum bókum.  Tilgangurinn er að tryggja lagalegan rétt fólks til að verja sig.  Hlutverk þinglýsingabóka er að tryggja að einhvers staðar séu skráðar kvaðir á eignum.  Hlutverk þeirra er ekki að svala forvitni manna.  Ég verð að viðurkenna, að mér hefur alltaf fundist svona hnýsni aumkunnarverð og enginn munur vera á henni og því að leggjast á glugga hjá fólki.

Ég mun halda áfram að vinna með stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna að þjóðþrifamálum, auk þess sem ég mun hafa meiri tíma til að sinna viðskiptavinum ráðgjafaþjónustu minnar, sem margir hafa sýnt tímaleysi mínu mikinn skilning.