Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 18.11.2010. Efnisflokkur: Staða heimilanna
Gangi tillögur fjárlagafrumvarpsins eftir um skerðingu barnabóta og vaxtabóta, mun það eingöngu auka á greiðsluvanda heimilanna. Settur er snúningur á hlutina með því að hvetja fólk til að taka út meiri sparnað sem átti að gera því lífið léttara í ellinni. Við skulum ekki gleyma því eitt augnablik að að eign í séreignarsjóði er sparnaður og ekki bara hvaða sparnaður sem er, nei, þetta er óaðfararhæfur sparnaður.
Greiðsluvandi um 40.000 heimila er annað hvort alvarlegur eða við það að verða alvarlegur. Líklegast munu tillögur fjárlagafrumvarpsins lina stöðu þeirra sem eru í mjög alvarlegum vanda hvað varðar vaxtabætur, en hafa lítil sem engin áhrif hvað varðar barnabætur. Að vísu vill svo til að barnlausir einstaklingar eru að fá mun drýgri hluta vaxtabóta, en fjöldi þeirra segir til um. Helgast það fyrst og fremst af því að þeir þurfa lægri tekjur til að framfleyta sér.
Vaxtabótakerfið refsar hjónum fyrir að eiga barn/börn (hér eftir talað um börn). Svo merkilegt sem það er, þá er gerður í kerfinu greinarmunur á því hvort um einstakling eða einstætt foreldri er að ræða, en ekki er gerður greinarmunur á barnlausum hjónum/sambýlisfólki og þeim sem eru með börn. Er þetta furðulegt óréttlæti, eins og það sé minni kostnaðarauki fyrir hjón að eiga börn en einstakling. Tekjutengingar vaxtabótakerfisins gera það að verkum, að ætli hjón með börn að ná að framfleyta fjölskyldunni, þá eru tekjurnar líklegast að verða of miklar til að fá vaxtabætur eða að þær skerðast verulega.
Ég hvatti Steingrím og Jóhönnu til að breyta þessu á fundi í Þjóðmenningarhúsinu sl. fimmtudag. Ég hef svo sem lengi verið þeirrar skoðunar að þetta fyrirkomulag sé ekki bara óréttlátt heldur mismuni það hjónum með börn. Þeim er ætlað að taka á sig skerðingu vaxtabót fyrir það eitt að þurfa hærri tekjur, þar sem rekstrarkostnaður heimilisins hækkar með hverju barni. Aftur að fundinum í Þjóðmenningarhúsinu. Ég hvatti sem sagt Steingrím og Jóhönnu til að breyta þessu og sagði það bæði réttlætis og sanngirnismál.
Skoðum nokkrar tölur. Einstætt foreldri má hafa 31,3% hærri vaxtagjöld en einhleypingur (barnlaus einstaklingur). Ef sama viðmið væri varðandi muninn á barnlausum hjónum og hjónum með börn, þá hækkaði hámark vaxtagjalda þeirra um 281.870 kr. Og hvað varðar vaxtabætur, þá geta vaxtabætur einstæðs foreldris orðið 28,6% hærri en einhleypings eða rúmlega 70.000 kr. Væri sami hlutfallslegi mismunur á hjónum/sambýlisfólki, þá ætti barnafólkið rétt á tæplega 117.000 kr. hærri vaxtabótum en það barnlausa. (Allar tölur eru miðaðar við núverandi fyrirkomulag.) Hafa skal í huga að hjón með börn eru almennt með hærri tekjur en hjón á barna og því kemur meiri tekjuskerðing inn hjá barnafólkinu.
(Ég tek það fram að ég á þrjú börn undir 18 ára aldri og myndi af þeim sökum njóta þeirra breytinga sem ég nefni hér. Tillagan er þó sett fram sem réttlætismál.)
Færslan var skrifuð við fréttina: 0,5% kaupmáttarlækkun