Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.11.2010. Efnisflokkur: Skuldamál heimilanna
Vegna fréttar á RÚV um að tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna nýtist bara 1.500 heimilum í skuldavanda, þá vil ég taka eftirfarandi fram:
Tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna nýtast yfir 20.000 heimilum í skuldavanda, en bæta stöðu um 1.500 heimilum í alvarlegum greiðsluvanda. Á þessu er mikill munur. Aðeins ein önnur tillaga nýtist jafn mörgum heimilum í skuldavanda, þ.e. tillaga um að lækka skuldir að 100% af fasteignamati eigna, og aðeins tvær nýtast fleirum í alvarlegum greiðsluvanda, þ.e. sértæk skuldaaðlögun sem þegar er boðið upp á og lækkun vaxta í 3%, en hún er jafnframt dýrasta tillagan sem metin var.
Það er síðan annað mál hvort við viljum hjálpa öllum sem eru í skuldavanda, þar sem í þeim hópi er mjög stór hópur, sem er hreinlega með húsnæðisskuldir upp á punt eða vegna þess að það var hagstæðara fyrir viðkomandi að taka húsnæðislán en að flytja peninga sína úr öðrum fjárfestingum! Yfir 3.500 fjölskyldur eru í þessari stöðu.
Því er einnig haldið fram að sértæk skuldaaðlögun muni nýtast best, en sértæk skuldaaðlögun er ekkert annað en eignaupptaka. Hún gengur út á að fólk losi sig við eignir til að eiga fyrir stökkbreyttum skuldum. Ekki á leiðrétta neitt fyrr en búið er að hafa af fólki flestar eignir á niðursettu verði. Viljum við virkilega svipta tug þúsundir manna afrakstri ævistarfs síns? Ef svo er, þá vitum við jafnframt að landflótti mun stóraukast og kreppan mun dýpka. Verði þeim að góðu sem vilja þetta réttlæti.
Í færslu hér um daginn sagði ég að engin ein leið bætti stöðu allra. Ég hef ekki skipt um skoðun. Samkvæmt gögnum sem nefndin vann með eiga nokkur þúsund heimil ekki fyrir lágmarksneyslu samkvæmt neysluviðmiðum. Einhverjir í þessum hópi eru neyslugrennri en viðmiðin segja til um og er það bara mjög gott, en aðrir eru upp á matargjafir eða náð og miskunn annarra komnir. Á bilinu 10.700 til 17.700 fjölskyldur eiga ekki fyrir reiknuðum afborgunum fasteignalána, hvað þá afborgunum annarra skulda. (Lægri talan miðast við lægra neysluviðmið.) Þær tillögur sem skoðaðar voru munu áfram skilja stærstan hluta þessa hóps eftir á köldum klaka. Hans bíður lítið annað en gjaldþrot og röðin eftir matargjöfum.
Stjórnvöld verða að vakna til lífsins um alvarlegan vanda margra heimila. Hvert er það þjóðfélag sem við ætlum að bjóða börnunum okkar?
Færslan var skrifuð við fréttina: 10.700 heimili í greiðsluvanda