Fróðlegt verður að sjá þessa útreikninga

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 12.11.2010.  Efnisflokkur:  Nýir bankar - efnahagur

Ég ætla ekki í augnablikinu að bera brigður á þessa útreikninga, en skora á fjármálaráðuneytið að leggja fram upplýsingar sem styðja þessa útreikninga.  Vil ég í þessu samhengi benda á, að Hæstiréttur hefur þegar úrskurðað gengistryggingu ólöglega.  Það þýðir að lán sem falla undir fordæmisgildi dóma Hæstaréttar eiga ekki að telja til þess kostnaðar, sem hér um ræðir.  Vissulega segir í frumvarpinu:

Fjármálaeftirlitið gerir ráð fyrir að vænt tap lánastofnana vegna gengistryggðra bíla- og íbúðalána geti orðið allt að 108 milljarðar kr. og þar af eru 50 milljarðar kr. vegna einstaklinga og 58 milljarðar kr. vegna fyrirtækja.

(Áhugavert er að í fréttinni segir að fjármálaráðuneytið áætli þetta "tap", en í frumvarpinu segir að það sé fjármálaeftirlitið.)

Svo má spyrja sig hvort áhrif lögbrota fjármálafyrirtækjanna teljist "tap".  Er illa fenginn hagnaður sem þarf að skila tap?  Það skiptir engu hvort menn gerðu það viljandi eða ekki, lögbrot er lögbrot og ágóða af lögbroti á að skila.

Mér finnst alveg lágmark að menn skilji að áhrif dóma Hæstaréttar, þar sem fjármálafyrirtækjunum er bent á að landslög gildi líka um þau, og áhrifin af frumvarpinu.  Þau áhrif taka nefnilega bara til þeirra lána sem ekki falla undir fordæmisgildi dóma Hæstaréttar.  Að skella hér fram tölu, sem þessari, er óábyrgt og eingöngu gert til að mála myndina svartari eða mikla þá leiðréttingu sem verið er að gera.  Afleiðingar lögbrota fjármálafyrirtækjanna á  nákvæmlega ekkert erindi inn í skýringar eða athugasemdir með frumvarpi.  Nær væri að slíkt efni væri í innihaldi kæru Fjármálaeftirlitsins til lögreglu.

Áhugavert er síðan að bera saman þessar tölur, þ.e. 108 milljarða, og tölur FME frá því í lok júlí.  Þá fullyrti FME að þessi sömu áhrif væru rúmlega 134 milljarðar eða um 25% hærri.  Þá reiknaði FME líka út að kostnaður lántaka af því að farin væri leið frumvarpsins í staðinn fyrir að samningsvextir giltu væri rúmlega 213 milljarðar.  Mínir útreikningar sýna aftur að hér er líklegast um mjög mikið ofmat að ræða og hljóti að ganga út frá því að LIBOR vextir verði lágir um allan aldur í samanburði óverðtryggða íslenska vexti og síðan virðast menn gleyma vaxtaálaginu sem leggst ofan á LIBOR vexti.  

Ég get ekki annað en furðað mig á því að nær engir útreikningar fylgja frumvarpinu.  Þeir litlu útreikningar sem eru birt koma án skýringa.  Nauðsynlegt er að þeir séu bæði skýrðir og ekki síður að gerð sé næmnigreining á þeim.  Hvernig breytast þessar tölur miðað við tilteknar vaxtaforsendur, bæði LIBOR vaxta og seðlabankavaxta, er eitthvað sem er mikilvægt að vita.  Hvaða gengisþróun eru menn að miða við, þar sem hún er lykilstærð í þessu.

Ég hef annars ekki kynnt mér efni frumvarpsins nægilega vel til að geta sagt til um öll áhrif þess á gengisbundin lán.  Vil ég þó koma þrennu á framfæri:

1.  Ég tel mjög mikilvægt að uppgjör mála verði einfaldað eins og kostur er m.a. með því að láta gjalddaga fram til 1.1.2008 eða jafnvel 1.4.2008 halda sér, en láta endurreikninginn bara ná til gjalddaga eftir það.  Ástæðan er sú, að með því er ekki verið að taka upp gjalddagagreiðslur sem lántaki greiddi í samræmi við greiðslukröfu.  Það er óréttlátt gagnvart greiðanda að vaxtareikna eigi upp á nýtt langt aftur í tímann og síðan dagvaxtareikna mismuninn á raungreiðslu og útreiknaðri greiðslu, en sá mismunur er oftast greiðanda í óhag, þ.e. að um vangreiðslu hafi verið að ræða.

2.  Skora ég á Alþingi, að leita álits Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) á þessu máli.  Ég held að Alþingi megi ekki við því að afgreiða frá sér lög, sem síðar kæmi í ljós að stönguðust á við tilskipanir sem falla undir EES samninginn.  Ef ESA gefur grænt ljós á frumvarpið, þá er það bara hið besta mál og þeirri lagaóvissu er eytt.  Komi ESA með einhverja aðra skoðun, þá getur Alþingi tekið á því áður en frumvarpið verður að lögum.

3.  Ég tel að mjög mikilvægt sé að allur vafi sé tekinn af um hvernig reikna eigi vexti af lánum.  Í þeim gögnum sem lögð voru fyrir Hæstarétt 6. september og voru notuð í dómnum sem kveðinn var upp 16. september voru vextir á mánaðarlegum gjalddagagreiðslum fundnir með því að taka gildandi lægstu óverðtryggða vexti Seðlabanka og finna tólfturót af ársvöxtum, en í útreikningum sem ég hef séð frá fjölmörgum fjármálafyrirtækjum er deilt í 12 í ársvextina.  Á þessu tvennu er talsverður munur, eins og ég sýndi fram á í færslu hér um daginn.  Í mínum huga er rétta aðferðin að finna tólfturótina og margfalda með henni og rökstyð ég það með því haldist vextir óbreyttir í 12 mánuði, þá eigi margföldun á vöxtum allra tólf mánaðanna að gefa ársvextina.  Dæmi:  Vextir eru 12,7%, tólftarótin er 1%.  Þegar ég hef (1+0,01) upp í tólftaveldi, þá fæ ég 12,7% vexti.  Ef ég aftur deili í með 12 og hef (1 + 0,127/12) upp í tólftaveldi, þá fæ ég 13,5%.  Munurinn er 6,3% (þ.e. 13,5/12,7 = 1,063) sem eru þá ofreiknaðir vextir.  En þetta er kannski of tæknilegt mál fyrir flesta.


Færslan var skrifuð við fréttina: 108 milljarða tap banka vegna myntkörfulána