Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 30.11.2010. Efnisflokkur: Skuldamál heimilanna
Mér finnst það stórmerkilegt, að þegar Seðlabankinn og Hagstofan eru nýbúin að birta upplýsingar um mjög alvarlega skuldastöðu heimilanna í landinu, þá flýtur ríkisstjórnin sofandi að feigðarósi. Ég hef haft ávæning um hluta af þeim ráðstöfunum sem stjórnvöld ætla að kynna í þessari viku. Sumt er gott, en annað hálf furðulegt í ljósi þess, að þar virðist eingöngu verið að bjargar yfirskuldsettum heimilum, en ekki tekið nægilega vel tilliti til greiðslugetu heimilanna.
Í vinnu "sérfræðingahóps" stjórnvalda um daginn, þá kom fram að 17.700 fjölskyldur ráða ekki við útgjöld og/eða afborganir húsnæðislána. Þá er eftir að taka inn önnur lán, m.a. bílalán. Tölur Hagstofu og Seðlabanka benda til þess að um 40.000 fjölskyldur nái ekki endum saman um mánaðarmót eða eigi í erfiðleikum með það.
Skuldakreppan sem dynur á þjóðfélaginu, er sú fyrsta í heiminum sem ekki er hægt að lina með verðbólgu. Alls staðar annars staðar er verðbólga notuð til að hækka laun umfram skuldir, þ.e. lánveitendur eru látnir taka á sig tjón af kreppunni með neikvæðri ávöxtun eða verulega skertri ávöxtun. Hér kemur verðtryggingin í veg fyrir það. Bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að prenta fullt af peningum og búa til verðbólgu. Áströlsk stjórnvöld gáfu hverjum einasta landsmanni 900 ástralska dali til að búa til verðbólgu. Hérna eykur verðbólga á vandann.
Færslan var skrifuð við fréttina: Óttast að upp úr muni sjóða