Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 16.11.2010.
Mér barst um daginn nafnlaust bréf frá reynslu miklum starfsmanni fjármálastofnunar. Ég veit ekkert hver þetta er, þar sem það barst með almennum pósti. Mig langar til að birta þetta bréf hér, en hef tekið út þá einu vísbendingu sem er í bréfi um bréfritara.
Eftir nærri xx ára starf hjá fjármálastofnun og banka get ég ekki orða bundist yfir ráðaleysi og hringlandahætti við að laga skuldavanda fólks. Það virðist mest unnið að því að gera einfalda hluti flókna, og Parkinsonslögmálið er allsráðandi.
Í öllum bankastofnunum svigna skrifborðin undan þykkum stöflum af margskonar upplýsingum um fjármál fólks til að vinna úr greiðslumat, það er vitað og viðurkennt að greiðslumatið gildir bara í einn dag, daginn sem það er gert, og er því skynsamlegt að draga stórlega úr þeirri vinnu, eða jafnvel hætta henni.
Hér virðist vera einblínt á húsnæðislán, en vandinn liggur víðar, og ástæður þess að fólk er í vandræðum eru margar. Það á að nægja að fólk sýni skattskýrslur, þar sem kemur flest fram, launaseðla og kvittanir fyrir afborgunum, þá getur hvaða meðalgreindur bankastarfsmaður sem er afgreitt mál á stuttum tíma.
Í öllum bönkum er hægt að fresta greiðslum, frysta lán, lækka vexti, fella niður eða lækka dráttarvexti, jafnvel fella niður vaxtagreiðslur um tiltekinn tíma, allt þetta er betra en að fólk verði gjaldþrota, eða að það þurfi að ganga í gegnum þennan flókna og jafnvel niðurlægjandi feril sem boðið er upp á núna. Það ætti líka að endurskoða stighækkandi vexti eftir efnahag manna. Er rétt að fátækur fjölskyldufaðir greiði meira fyrir brauðið en sá efnaði? Íbúðalánasjóður á tvímælalaust að hagræða fyrir fólk sem er í vanda, hafa þar frumkvæði og líta ekki á svokallað greiðslumat.
Úr hvaða vasa er greitt ef höfuðstóll lána er lækkaður sem nemur hluta af verðbótum síðustu ára? Eru reglur til útreiknings á verðbótum réttar? Eru viðmiðanir sem eiga að sýna greiðslugetu lífeyrissjóðanna áratugi fram í tímann réttar? Hvað mikið af þessu eru bókhaldstölur, reglur sem einhverjir hafa sett, rétt eins og viðskiptavild?
Parkinsonslögmálið er allsráðandi, það sýnir best aukning á starfsemi umboðsmanns skuldara, þar er unnið gott starf, en því má sleppa, bankarnir geta þetta, eiga að leysa þessi vandamál og það á sem stystum tíma.
Mér finnst margt mjög áhugavert koma fram í þessu bréfi og sýna að bankamenn hafa sömu áhyggjur af hlutunum og við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna.