Eru bætur of háar eða launin of lág?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 13.11.2010.  Efnisflokkur:  Almannatryggingar, Rökleysa

Vilhjálmur Egilsson getur stundum gengið fram af manni.  Í fréttum á Stöð 2 í kvöld segir hann vandamál að bætur séu orðnar of háar og fólk telji hag sínum borgið með að vera á bótum frekar en að þiggja lágmarkslaun.  Nú skora ég á Vilhjálm að lifa á lægstu launum í svo sem 6 mánuði og segja okkur svo hvort vandmálið sé að bætur séu of háar eða launin of lág.

Staðreyndir tala sínu máli.  Af þeim ríflega 72.000 fjölskyldum sem eiga sitt húsnæði (eða skulum við segja keyptu sér húsnæði, hvað sem þær eiga í því í dag) og eru með húsnæðislán, þá kemur í ljós að á bilinu 3.650 til 7.100 eiga ekki fyrir neyslu sinni, hvað þá að geta greitt upp í lán sín.  Við erum að tala 5 - 10% fjölskyldna úr þessum hópi.  Skoðun sérfræðingahóps forsætisráðuneytisins náði ekki til fólks á leigumarkaði og því má búast við að mun fleiri séu í þessari stöðu.

Mér finnst að forsvarsmenn samtaka á atvinnumarkaði eigi að forðast að tala um að bætur séu of háar.  Raunar finnst mér skammarlegt að heyra menn segja slíkt.  Vilji menn koma slíkri skoðun á framfæri, þá er hægt að gera það með þeim hætti að segja að bil milli bóta og lægstu launa sé ekki nægjanlegt.  En á meðan hvorki bætur né lægstu laun duga fjölskyldum til framfærslu og þær þurfi í stórum stíl að leita til hjálparstofnana eftir matargjöfum, fatagjöfum, jólaskreytingum og jafnvel jólaklippingu, þá er byrjað á öfugum enda að tala um að bætur séu of háar.