Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 15.11.2010.
Ég get eiginlega ekki orðabundist vegna greinar Leifs Þorbergssonar, hagfræðinema, á Pressunni í gær. Þar birtir hann færslu undir fyrirsögninni "Ranghugmyndir um flata niðurfærslu skulda". Ekki það að rökstuðningur hagfræðinemans heldur hvorki vatni né vindum og vona ég innilega að þetta sé ekki dæmi um þá rannsóknahæfileika sem er verið að kenna hagfræðinemum.
Í fyrsta lagi virðist hagfræðineminn ekki hafa kynnt sér sérálit mitt vegna vinnu sérfræðingahópsins. En nú langar mig að skoða röksendir hagfræði nemans. Hann tekur til nokkrar ranghugmyndir og reynir að finna höggstað á þeim.
1. Flöt skuldaniðurfærsla skapar aukinn kaupmátt heimilanna sem hefur ruðningsáhrif, eykur neyslu, fjárfestingar og skatttekjur ríkisins.
Rökstuðningur Leifs: Þó svo að einhver heimili komi auðvitað til með að auka neyslu sína þegar skuldir þeirra eru afskrifaðar (þeim rétt fé á silfurfati) þá koma þeir aðilar sem urðu fyrir eignamissi til með að eyða minna í neyslu og fjárfestingar (og þá hækka vextir).
Villa í rökstuðningi: Í fyrsta lagi, þá er ekki verið að rétta einum eða neinum eitthvað á silfurfati, heldur er verið að leiðrétta. Í öðru lagi, þá er ekki víst að kröfuhafi hefði fengið kröfu sína greidda. Í þriðja lagi, er ekkert sem bendir til þess að kröfuhafinn (bankar, lífeyrissjóður, Íbúðalánasjóður) hefðu notað innborgunina í neyslu. Í fjórða lagi, þá hefur ekki verið sýnt fram á og hagfræðineminn gerir það ekki, að leiðréttingin kosti fjármálafyrirtækin í reynd nokkuð, þar sem þau hagnast á betri heimtum af öðrum hluta skuldarinnar. Í fimmta lagi, þá reynir hagfræðineminn ekki að skoða hver ruðningsáhrifin eru og bera saman ruðningsáhrif af aðgerðinni og því að gera hlutina ekki. Kastað er fram staðhæfingu án sannana. En bara til að upplýsa hagfræðinemann, þá væru frumáhrif af segjum 100 milljarða leiðréttingu um 6,0 milljarðar kr. á ári. Þessari tölu fylgir síðan um 1 milljarða lækkun á vaxtabótum, þannig að nettó áhrif eru 5,0 milljarðar. Ef öll tala fer í neyslu, þá fer 1 milljarður til ríkisins í formi virðisaukaskatts og 4 milljarðar fara í veltuaukningu. Stórhluti af þessari veltuaukningu eykur hæfi fyrirtækja til að greiða af sínum lánum, hluti fer í laun og um 38% af laununum enda hjá ríki og sveitarfélögum. Hringurinn endurtekur sig með auknum ruðningsáhrifum. Þó svo að fjölgun starfa sé líklegast ekki nema um 500 vegna aðgerðanna, þá eru atvinnuleysisbætur þeirra um 1 milljarður. Hagnaður ríkisins af aðgerðinni er því orðinn 1 ma.kr. vegna vaxtabóta, 1 ma.kr. vegna virðisaukaskatts, 1 ma.kr. vegna færri án atvinnu og síðan 500 m.kr. vegna tekjuskatts. Ruðningsáhrifin til ríkisins eru því 3,5 ma.kr. Ekki slæmt af ekki hærri tölu. Nú þýðir ekki að segja að fyrirtækin fái virðisaukaskattinn endurgreiddan eða eigi innskatt á móti útskatti. Það er nefnilega þannig að nær allur sá útskattur sem lendir á neytanda (neytandi er lánþegi og þar sem einstaklingur en ekki lögaðili) hann endar hjá ríkissjóði. Eina undantekningin er þar sem ríkissjóður endurgreiðir neytandanum virðisaukaskatt vegna t.d. húsbyggingar.
Niðurstaða mín er að það er engin ranghugmynd í gangi varðandi það að leiðréttingin skapi meiri veltu, fjárfestingu og skatttekjur til ríkissjóðs.
2. Forsendubrestur hefur orðið vegna stökkbreytts höfuðstóls
Þetta atriði er jafngilt fyrir flest önnur úrræði sem skoðuð voru og er því ekki sértækt fyrir flata leiðréttingu.
Rökstuðningur Leifs: Allt tal um forsendubrest verðtryggðra lána er innantómt raus þeirra sem beinna hagsmuna eiga að gæta.
Villa í rökstuðningi: Úps! Rökin eru að þetta sé innantómt raus. Ég hef nú séð sterkari rökstuðning.
Rökstuðningur Leifs: Eins og ég nefndi í fyrri pistli mínum, þá fylgir þróun launavísitölu alltaf verðlagsvísitölu til langs tíma.
Villa í rökstuðningi: Það er einmitt þetta litla orð "fylgir" sem skiptir hér sköpum. Launaþróun kemur alltaf á eftir. Þar til búið er að leiðrétta launin að verðlagsvísitölu, þá er forsendubresturinn fyrir hendi. Leifur viðurkennir að forsendubresturinn hafi hingað til verið leystur með hækkun launa. En núna kemur fram hugmynd um, að í staðinn fyrir að velta leiðréttingunni út í verðlagið og launaumslagið, þá sé hækkunin einfaldlega tekin til baka. Ég sé ekki neina ranghugmynd í þessu atriði. Staðreyndin er að forsendubrestur hefur orðið vegna stökkbreyst höfuðstóls
3. Úrræði sem i boði eru hjá umboðsmanni skuldara lengja einungis í hengingarólinni.
Fyrst vil ég segja, að ekki má takmarka þessa fullyrðingu bara við umboðsmann skuldara, þar sem hans úrræði byggja að umtalsverðu leiti á því að flýta hinu óumflýjanlega. Fullyrðingin sem slík er því röng. Það sem aftur hefur verið satt er að greiðslujöfnun, sértæk skuldaaðlögun og frysting lán lengi einungis hengingarólina. En ég ætla að láta sem Leifur hafi ætlað að fjalla um þetta.
Rökstuðningur Leifs: Flest þau úrræði sem í boði eru hjá umboðsmanni skuldara miða að því að minnka tímabundið afborganir af lánum, án þess að hrófla við höfuðstólnum og fresta nauðungauppboðum.
Villa í rökstuðningi: Þarf ég að segja eitthvað meira. Hann byrjar á því að koma með rökstuðning fyrir atriðinu og er vart hægt að gera það betur.
Rökstuðningur Leifs: Þess vegna eru það hagsmunir lántakenda að nýta sér úrræði umboðsmanns skuldara, uns kauplags- og verðlagsþróun ná jafnvægi.
Villa í rökstuðningi: Þetta er sama villa og að ofan, þ.e. hann viðurkennir að verið er að lengja í hengingarólinni, en svo á fólk að sjá til hvort launaþróun komandi ára bjargi.
4. Fáir hafa leitað til umboðsmanns skuldara vegna þess að úrræðin eru niðurlægjandi fyrir þá sem þangað leita
Ég kannast að vísu ekki við að þetta tengist umræðunni um flata leiðréttingu lána umfram aðra leiðréttingu lána. Satt best að segja, þá er þetta nákvæmlega ekkert tengt kröfum t.d. Hagsmunasamtaka heimilanna, og því ætla ég ekki að taka þetta með hér.
5. Bankarnir og lánastofnanir geta vel afskrifað húsnæðislán þar sem þau voru flutt úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju með miklum afslætti. Það verða því bara ólánsamir erlendir lánadrottnar gömlu bankanna sem tapa.
Rökstuðningur Leifs: Eignirnar í nýju bönkunum voru metnar með það fyrir augum að starfsfólk bankanna myndi hámarka verðmæti eignasafnsins. Með því að ríkisstjórnin tæki ákvörðun um flata niðurfærslu skulda, væri hún að taka fram fyrir hendur þeirra sem vinna við að hámarka verðmæti eignasafnsins og að sjálfsögðu myndi slíkt leiða til taps bankana. Eins og bent hefur verið á myndi einungis lítill hluti þeirra skuldara sem eru á leið í gjaldþrot ná að forða sér frá því með 15,5% flatri niðurfærslu höfuðstóls.
Það er í raun ótrúlegt að nokkrum skuli hafa dottið það í hug að Íslendingar hefðu komist upp með það að mynda nýja banka á grunni þeirra föllnu og færa hærri eignir en skuldir yfir á kostnað erlenda kröfuhafa gömlu bankanna.
Villa í rökstuðningi: Ég veit eiginlega ekki hvar er best að byrja. Í fyrsta lagi, þá er kröfuvirði lánasafnanna sem flutt var yfir (skv. AGS) 3.700 ma.kr. en bókfært virði 1.700 ma.kr. Í öðru lagi, þá segir AGS að óvirki hluti safnanna, þ.e. sá sem ekki er verið að greiða af, sé annars vegar 63% og hins vegar 45%. Helsta markmið bankanna er því að færa sem mest af lánum úr óvirkum hluta í virkan hluta lánasafna sinna. Fjölmargir aðilar eru ekki með greiðslugetu til að borga af 100% af láninu sínu en gætu greitt af 60 - 90% af því. Lækkun höfuðstóls um 15,5% mun því fjölga talsvert í hópi þeirra sem geta greitt af lánunum sínum, þó svo að ennþá verði margir sem ekki hafa greiðslugetu. Í öðru lagi, hefur aldrei verið ætlast til þess að ríkið gripi fram í fyrir hendur fjármálafyrirtækja. Verið er að óska eftir samningum við fjármálafyrirtækin um þetta og eina ástæðan fyrir aðkomu ríkisins er að það er eigandi Íbúðalánasjóðs.
Varðandi að eitthvað sé á kostnað erlendra kröfuhafa, þá er ég orðinn ákaflega þreyttur á meðvirkni manna með þeim. Þegar erlendir bankar ákváðu að lána íslenskum bönkum, þá fór slík lánsumsókn alveg örugglega í gegn um fastmótað ferli hjá hinum erlenda aðila. Þetta ferli er kennt við áhættustýringu. Mér sem lántaka á Íslandi kemur nákvæmlega ekkert við þó áhættustýring hins erlenda aðila hafi klikkað. Það er hans mál en ekki mitt. Hvers vegna eru menn að verja hagsmuni erlendra kröfuhafa, þegar tjón þeirra felst í þeirra mistökum? Þeir ákváðu af fúsum og frjálsum vilja að veita þessi lán og verða að bera afleiðingar þeirrar ákvörðunar. Síðan held ég, að hagsmunum erlendra kröfuhafa sé betur borgið með því að gæði lánasafna aukist. Með því að fjölga virkum lánum á kostnað óvirkra. Með því að bæta rekstrarhæfi fjármálafyrirtækjanna.
Það er staðreynd að lán voru flutt með miklum afslætti á milli gömlu og nýju bankanna. Hvað er rangt við það, að sá afsláttur renni til lántaka? AGS vill að það sé gert og vitna ég í þau orð Marks Flanagans frá í desember í fyrra um að AGS vilji sjá viðeigandi skuldalækkun hjá lífvænlegum lántökum. AGS var ekki að tala um þá verst settu, heldur þá sem eru í hópunum þar fyrir ofan.
En þess fyrir utan, þá á þetta atriði við 8 af þeim níu leiðum sem voru skoðaðar og ég spyr mig, af hverju á þessi "ranghugmynd" bara við þessa?
6. Bankarnir eiga að taka upp flata niðurfærslu lána upp á sitt einsdæmi, því það eykur verðmæti eignasafns þeirra (þeir fá meira út úr útlánum sínum).
Rökstuðningur Leifs: Með þessari fullyrðingu er verið að gera ráð fyrir því að bankastarfsmenn sem vinna að því að hámarka gæði eignasafns síns séu annað hvort heimskir eða illmenni. Skynsamur maður myndi að sjálfsögðu álykta að þeir væru hvorugt. Ef almenn niðurfærsla lána myndi auka verðmæti eignasafns bankans þá myndi hann að sjálfsögðu leita þeirrar leiðar. Það er því ótækt að áætla annað en það ágæta fólk sem vinnur í bönkunum og Íbúðarlánasjóði hafi það að markmið að hámarka gæði eignasafnsins frekar en að hámarka vesæld skuldara.
Villa í rökstuðningi: Fyrst vil ég nefna, að bankarnir eru á fullu við að færa niður lán einmitt á þessari forsendu, þ.e. að gæði lánasafna aukist. Hagsmunasamtök heimilanna vilja að þessi niðurfærsla, sem við köllum leiðréttingu, sé gerð fyrst með almennum aðgerðum og síðan sértækum vegna þess að sértækar aðgerðir eru að taka of langan tíma og erfiðlega gengur að fá alla með í aðgerðina. Við viljum ekki að það skipti máli hjá hvaða fjármálastofnun viðkomandi lántaki er, hann eigi að fá mjög líka eða sem næst eins meðhöndlun. Með fullri virðingu fyrir þeim mörgu starfsmönnum bankanna sem eru að vinna af heilindum að málefnum lántaka, þá eru á meðal þeirra svartir sauðir. Það rigna yfir okkur hjá Hagsmunasamtökum heimilanna og hvert og eitt okkar persónulega alls konar málum, þar sem maður getur ekki annað en velt fyrir sér hugarfari þess starfsmanns fjármálastofnunar sem á í hlut. Án þess að nefna fyrirtækið á nafn, þá er eitt bílalánafyrirtæki oftast nefnt þegar kemur að ósvífni starfsfólks. Einn banki er oftast nefndur, þegar kemur að úrræðaleysi eða viljaleysi. Annar banki heldur að best sé að svara ekki fyrirspurnum. Veistu hvað, Leifur, kannski hittist þér rétt á munn, en mörgum finnst a.m.k. ákaflega furðulegt að eiga í samskiptum við sama fólkið áfram.
7. Niðurstaða
Orð Leifs: Það er mikið fagnaðarefni að sífellt fækkar í þeim hópi stjórnmálamanna sem tala fyrir almennri niðurfærslu skulda, enda slíkt algjört glapræði og óþarft umfram þau úrræði sem þegar hafa verið í boði. Allt tal um almenna niðurfærslu skulda er ekkert nema argasti kommúnismi með ósanngjarnri eignatilfærslu, þar sem eignarrétturinn er látinn fara lönd og leið.
Villa í orðum: Það er engin eignatilfærsla að eiga sér stað frekar en að það hafi verið eignatilfærsla í hina áttina áður. Hér voru framdir glæpir gegn þjóðinni. Hækkun lánanna er illa fenginn gróði af þeim glæpum.
Mín lokaorð
Ég bíð ekki í það, ef þetta verður rökstuðningur hagfræðinga framtíðarinnar. Hvergi í allri grein Leifs er reynt að tengja hagfræðikenningar eða bara skoðanir mikilsvirtra hagfræðinga við umræðuna. Við höfum fengið ókeypis álit margra þekktra erlendra hagfræðinga, sem segja nákvæmlega það sama og við hjá HH. Almenn leiðrétting á borð við það sem við segjum er það eina rétta. Hagfræðingar Seðlabanka Íslands hvöttu til þess í september 2009 að hraðað yrði aðgerðum við endurskipulagningu skulda heimilanna. Í minni næstu færslu mun ég koma með mörg af þeim rökum sem hagfræðinemanum yfirsáust í sínum skrifum. Síðan verð ég að viðurkenna að þau frjálshyggjuviðhorf sem koma fram í skrifum hans hélt ég að hefðu verið jörðuð í kjölfar hrunsins. Það er búið að afsanna þá kenningu frjálshyggjunnar að markaðnum sé best treystandi til að framkvæma hlutina. Ástæðan er ekki hugmyndafræðileg heldur snýst hún um mannlegt eðli og er eftirfarandi:
Þegar menn þurfa að velja á milli stundargróða og eiginhagsmuna annars vegar og langtíma hagnaðar og hagsmuna heildarinnar, þá velja þeir það fyrra, þó allar líkur séu á að það sé leiðin til glötunar.
Viðbót 27.3.2024: Ég vil leyfa mér að fullyrða, að ENGIN færsla hjá mér á Moggblogginu fékk eins mikla umræðu og þessi, en 141 athugasemd var sett við hana. En hún hafði líklegast þær afleiðingar, að nokkrir fjölmiðlamenn ákváðu að hefja um mig persónunjósnir, m.a. Óskar Hrafn Þorvaldsson, núna farsæll þjálfari, og Ingi Freyr Vilhjálmsson, sem núna er hjá Heimildinni. Endaði það í því, að ég sagði af mér stjórnarsetur í Hagsmunasamtökum heimilanna.
Ingi Freyr skrifaði síðar bók, þar sem hann persónugerði mig í skuldamálum heimilanna og sneri öllum röksemdum um gengistryggð lán á haus. Man ekki til að hann hafi leiðrétt þær rangfærslur.