Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 13.3.2009.
Mark Flanagan heldur áfram með þessa klisju. Ekki er rétt að fara í 20% niðurfærslu íbúðalána, þar sem "[m]argir fengju aðstoð, sem ekki þurfa á henni að halda, og hún yrði afar kostnaðarsöm fyrir ríkið", eins og segir í frétt mbl.is.
Ég hef ítrekað bent á nokkur atriði í tengslum við þetta:
1. Það var ekki spurt um það, þegar allar innistæður á innistæðureikningum voru tryggðar í topp, hvort þar ættu einhverjir innistæður sem ekki þyrftu á björguninni að halda. Auk þess var það þessi aðgerð sem er aðalástæðan fyrir icesave deilunni.
2. Þessi aðgerð þarf ekki að kosta ríkið neitt. Kröfuhöfum gömlu bankanna er ætlað að gefa nýju bönkunum ríflegan afslátt innlendum lánasöfnum. Mér telst til að þessi afsláttur sé eitthvað í námundann við 2.800 milljarða. Íbúðalán landsmanna eru á bilinu 1.350 - 1.500 milljarðar og því eru 20% af þeirri tölu 270 - 300 milljarðar eða 9,5 - 11% af eftirgjöf erlendu kröfuhafanna.
3. Það er lífsspursmál fyrir íslenskt efnahagslíf að veltan í þjóðfélaginu komist á meiri skrið. Samkvæmt frétt í hádegisfréttum Bylgjunnar, þá dróst velta í ýmsum greinum smásöluverslunar saman um ríflega 50% í febrúar. Haldi þetta áfram verða afleiðingarnar ógnvænlegar í formi atvinnuleysis og fjöldagjaldþrota. Síðan má ekki gleyma áhrifum þessa á tekjur ríkissjóðs í formi veltuskatta.
Það er mín skoðun, að rangt sé að horfa til kostnaðarins af því að færa niður íbúðalán. Horfa þarf til ávinningsins af aðgerðinni.