Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 12.3.2009.
Til stóð í fyrra haust að leggja fram frumvarp að nýjum almannatryggingalögum. Nefnd hafði verið starfandi um þetta mál í rúmt ár og áttu, samkvæmt upplýsingum frá Ágústi Þór Sigurðssyni skrifstofustjóra tryggingasviðs, niðurstöður nefndarinnar að liggja fyrir 1. nóvember sl. Lítið hefur borið á niðurstöðunum.
Ég sendi félags- og tryggingamálaráðherra bréf 27. ágúst 2008 um fjármagnstekjur og áhrif þeirra á lífeyrisgreiðslur. Vil birta hluta þess hér lítillega breytt:
Nú er fullt af lífeyrisþegum í þeim sporum að vera búnir að kaupa og eiga eftir að selja. Sér fólk jafnvel fram á að selja fyrr en eftir 9 – 12 mánuði. Til að brúa þetta bil hefur fólk kannað eða farið þá leið að leigja húsnæðið út, en þá kemur „fátækragildran“ til sögunnar. Samkvæmt almannatryggingalögum þá skerða fjármagnstekjur (og þar með leigutekjur) lífeyrisgreiðslur í samræmi við einhverja reiknireglu. Það þýðir að ef lífeyrisþegi hefur leigutekjur af húsinu sínu, þá bitnar það á þeim greiðslum sem hann/hún fær. Það er ekki bara að viðkomandi þurfi að greiða 10% fjármagnstekjuskatt, afborganir lána, opinber gjöld og tryggingar, heldur skerðast lífeyrisgreiðslurnar líka. Þegar fólk vill reyna að bjarga sér, þá er því refsað grimmilega af óréttlátu kerfi.
Ég gæti alveg skilið þetta, ef leigutekju dygðu til að greiða afborganir lána, fasteignagjöld og tryggingar. Þá er mjög eðlilegt að það sem er umfram skerði lífeyrisgreiðslur, en í tilfelli lífeyrisþegans er ekki um slíkt að ræða. Fólk getur ekki selt og er að reyna að bjarga því að allt fari á versta veg fjárhagslega með því að hafa einhverjar tekjur á móti þeim kostnaði sem það hefur af eldra húsnæðinu. Þrátt fyrir að væntanlegar leigutekjur hrökkvi ekki til að greiða þau útgjöld sem það hefur af húsnæðinu, þá munu lífeyrisgreiðslur þess skerðast samkvæmt núverandi reglum. (Þetta á að sjálfsögðu líka við aðila, sem flytja tímabundið til vandamanna.)
Það er eitthvað stórvægilega rangt við kerfi, sem refsar fólki á þennan hátt. Það getur ekki verið markmið kerfisins, að refsa fólki fyrir að reyna bjarga sér úr fjárhagslegum vanda. Það getur ekki verið markmið kerfisins að það eigi að vera helmingi erfiðara fyrir lífeyrisþega að bjarga sér úr fjárhagsvanda, en það er fyrir þá sem ekki þiggja lífeyrisgreiðslur. Þetta er það sem ég kalla fátæktargildru.
Ég fékk svar frá Árna Þór Sigurðssyni, þar sem hann benti bara á það óréttlæti að meðan flestir landsmenn borga 10% fjármagnstekjuskatt, þá greiða lífeyrisþegar allt að 55% skatt af fjármagnstekjum. Ég sendi honum því eftirfarandi:
Ég vil taka það fram að ég þekki vel til þeirra atriða sem valda þessum skerðingum sem hér um ræðir. Ástæða er einföld. Ég sá um að greina stikur í reiknilíkaninu þegar ALMA var í kerfisgreiningu á sínum tíma.
Það sem ég er að benda á og vona að ráðherra taki til athugunar, er að þegar fólk hefur augljósan kostnað á móti fjármagnstekjunum, þá er alls ekki óeðlilegt að fólki sé gefinn kostur á að draga hann frá áður en til skerðingar á tekjum kemur. Mér finnst t.d. furðulegt að fjármagnstekjuskattur sé ekki dreginn frá fjármagnstekjunum áður en þær skerða bætur. Annað er að nú eru í þjóðfélaginu sérstakar aðstæður sem verða til þess að fólk situr uppi með húsnæði sem það getur ekki selt. Það situr því uppi með tvöfalda greiðslubyrði, sem það gerði annars ekki. Vilji það bjarga sér frá alvarlegum fjárhagsvanda, þá eru því allar bjargir bannaðar. Auki það atvinnutekjur, þá skerðast bætur. Fái það leigutekjur á móti útgjöldunum, þá skerðast bætur líka. Ég neita að trúa því að almannatryggingakerfinu sé ætlað að notfæra sér slæmt efnahagsástand eða sérstaka stöðu eins og núna er á fasteignamarkaði. Þetta er það sem ég kalla fátækagildru.
Málið er að almannatryggingakerfið er fullt af svona fátækragildrum. Stefán Ólafsson hefur verið manna duglegastur að benda á þessar gildrur. Nú bíð ég eftir því að niðurstöður komi úr vinnu endurskoðunarhópsins, en það má ekki dragast lengi. Lífeyrisþegar, og þá sérstaklega stórir hópar ellilífeyrisþega, eru að gera allt til að bjarga sér út úr þeim þrengingum sem efnahagskreppan hefur skapað. Fólk, sem hefur verið að taka út aukalega séreignasparnað, hefur þurft að greiða hátt í 70% skatt af slíkri greiðslu, þ.e. fyrst tekjuskatt og síðan hafa bætur skerst um helminginn af því sem eftir er. Það getur varla verið ætlun ríkisstjórnarinnar að hafa lífeyrisþega að féþúfu.
Nú er vonandi búið að setja fyrir þetta með lögum sem sett voru í fyrradag, en dag skal lofa að kveldi og mey að morgni, þannig að ég lofa þessa aðgerð þegar ég sé niðurstöðuna.