Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 13.3.2009.
Ég hélt að það væri viðurkennt, að hér voru menn áður en norrænir menn námu hér land. Ártalið 874 (eða 871) er viðmiðun fyrir landnám norrænna manna. Líklegast verður því ekki breytt. Aftur á móti er ekki vitað hvenær keltar/Írar/papar komu hingað. Það er heldur ekki vitað hve víða þessir aðilar voru hér eða hve margir. Ari fróði talar um einsetumenn, en hver segir að þetta hafi alltaf verið einsetumenn.
Fyrstu heimildir um Ísland samkvæmt Íslendinga sögum Jón Jóhannessonar birtust í riti eftir Pýþeas frá Massalíu (Marseille). Hann fór "til Vestu- og Norður Evrópu, líklega seint á 4. öld f. Kr...Pýþeaskvað hafa getið lands þess, er hann nefndi Thule og lægi sex daga siglingu norður frá Bretlandi, nálægt hinu frosna hafi. Enn fremur virðist hann hafa talið, að sól sæist þar allan sólarhringinn um sumarsólstöður." Síðan segir Jón: "En ekki verður betur séð annað en Thule það, sem Pýþeas nefndi, hafi verið byggt land, og kemur Ísland þá ekki til greina, því að ekki eru minnstu líkur til, að það hafi verið byggt svo snemma."
Hver veit nema Pýþeas hafi haft rétt fyrir sér og hér hafi verið byggð á þeim tíma. Er það nokkuð fjarstæðukenndara en að steingervarleifar hjartardýrs hafi fundist í Vopnafirði eða að íslenska bankakerfið hafi allt fallið á þremur dögum.
Síðan má ekki gleyma á síðustu öld fundust "á Austfjörðum þrír rómverskir koparpeningar, svo nefndir antoninianar, frá árunum 270-305 e. Kr." svo vitað sé í Jón. Hugsanlega bárust þeir með norrænum mönnum hingað, en ekki er hægt að útiloka að hingað hafi hrakist skip í hafvillu, svo vitnað sé í Kristján Eldjárn, fyrrverandi þjóðminjavörð og forseta lýðveldisins.
Nú írski munkurinn Dicuilus samdi um 825 ritið De mensura orbis terrae og nefnir þar hugsanlega eyjuna Thule. Einnig er talið að í ritinu In libros regum quæstionum xxx liber eftir Beda prest, að menn sem búi á Thule sjái sólina allan sólarhringinn nokkra daga á sumrin. Dicuilus nefnir að svo bjart sé á kvöldin að menn geti tínt lýs úr skyrtum.
En aftur að 871. Fornleifafræðingar hafa svo sem talið að allt þetta með Ingólf Arnarson sé bara góð þjóðsaga, sem höfundar Landnámu og Íslendingabókar hafi bara fundið upp til að tryggja eignarrétt sinn á landi. Menn hafi byrjað snemma að bera fyrir sig hefðarréttinum sem sönnun fyrir eignarrétti.
Það er þó best að taka öllum ártölum með varúð. Öll tækni hefur sínar takmarkanir og það hefur öskulagaaðferðin líka.