Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 14.3.2009.
Mig langar að fá lánað hér efni frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Hann skrifar á eyju-blogginu í færslunni Ofurhagfræðingur sammála Framsókn að "ofurhagfræðingurinn" Nouriel Roubini telji að eina skynsamlega sem hægt er að gera í húsnæðislánavandanum sé flöt niðurfærsla höfuðstóls lánanna. Roubini var uppnefndur "doktor dómsdagur", þegar hann kom ítrekað fram og varaði við fyrirsjáanlegu hruni bankakerfisins meðan allir aðrir voru uppveðraðir af "efnahagsundrinu".
So what can the government do? The easy part is lowering interest rates and buying toxic assets. The hard part, he says, will be tackling housing. Roubini says that the housing market, like a company restructuring in bankruptcy, needs to have “face value reduction of the debt.” Rather than go through mortgages one by one, he says reduction has to be “across the board…break every mortgage contract.”
Hvað getur þá ríkisstjórnin gert? Auðveldi hlutinn er sá að lækka vexti og kaupa eitraðar (óseljanlegar) eignir. Það erfiða, segir hann, er að fást við húsnæðismálin. Roubini segir að húsnæðismarkaðurinn, rétt eins og fyrirtæki sem endurskipulagt er við gjaldþrot, þurfi „nafnverðslækkun skulda” Fremur en að skoða húsnæðislán hvert fyrir sig þarf ,,flata niðurfellingu…rjúfið hvern einasta húsnæðislánasamning.”
Hagsmunasamtök heimilanna, og áður mörg okkar sem eru þar í forsvari, hafa krafist leiðréttingu á höfuðstóli húsnæðislána. Það sé ekki um annað að ræða, ef koma á í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna sem muni síðan hafa í för með sér víðtæk áhrif fyrir fyrirtæki og samfélagið í formi minnkandi samneyslu, snertrar opinberar þjónustu og flutnings fólks úr landi í stórum stíl.
Sjálfur hef ég skrifað óteljandi færslur og athugasemdir um nauðsyn þess að koma til móts við húsnæðiseigendur vegna mikillar hækkunar höfuðsstóls lána og aukinnar greiðslubyrði. Fyrsta færsla um þetta mál á þessum nótum er frá 28.9.2008. Þar segi ég:
[R]íkið verður að koma að því að greiða niður slíkar skuldir. Það getur gert það með breytingu á vaxtabótakerfinu, þar sem vaxtabætur verða þre- til fjórfaldaðar næstu 10 árin eða svo. Það getur gert það með því að stofna einhvers konar afskriftarsjóð lána, þar sem bankar geta sótt pening til að afskrifa/lækka höfuðstóla húsnæðislána og bílalána. Svo gæti ríkið í samvinnu við sveitarfélögin afnumið fasteignagjöld af íbúðarhúsnæði eða a.m.k. lækkað verulega. Loks getur ríkisstjórn og Seðlabanki lagt út í viðmiklar aðgerðir til að styrkja íslensku krónuna.
Síðan hafa komið alls konar tillögur, en markmið þeirra allra er að færa höfuðstól og greiðslubyrði lána niður svo fólk geti staðið í skilum, bankarnir fengið peninga inn í veltuna og komið verði í veg fyrir fjöldagjaldþrot og brunaútsölur.
Hér fyrir neðan eru nokkrar krækjur frá mér:
Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
Hinn almenni borgari á að blæða
Færa þarf höfuðstól lánanna niður
Nú hef ég sem sagt fengið stuðning (samkvæmt færslu Sigmundar Davíðs) frá ekki ómerkari manni en "doktor dómsdegi" Nouriel Roubini. Sýnist mér það vera til merkis um að vert sé að gera meira en að hugsa um þessa leið. Það þarf að útfæra hana og hrinda í framkvæmd.
Nú áður en einhver fer að tala um að greiða skuldir óreiðumanna, þá snýst þetta ekki um það. "Óreiðumenn" eru um allt í samfélaginu (samkvæmt skilgreiningu ömmu Davíðs Oddssonar) og þeim verður ekki "bjargað" með svona aðgerð. Þetta er spurningin um að koma í veg fyrir að veltan í samfélaginu dragist saman niður í ekki neitt. Þetta er spurningin um að öll sparnaðarform séu meðhöndluð á sama hátt. Þetta er spurningin um að koma í veg fyrir mestu fjöldagjaldþrot sem þjóðin hefur upplifað.
Tekið skal fram að Hagsmunasamtök heimilanna hafa aldrei nefnt flata 20% niðurfærslu heldur viljum við:
að sett verði afturvirkt þak á verðbætur, þannig að þær geti hæst verið 4% á ári frá 1. janúar 2008.
að öllum verðtryggðum húsnæðislánasamningum verði breytt þannig að þetta þak verði sett inn í þá.
að sett verði þak á vexti, þannig að ekki verði hægt að sækja bætur fyrir verðbólguna með hærri vöxtum.
að boðið verði upp á að breyta gengistryggðum lánum í verðtryggð lán miðað við upphæð höfuðstóls á útgáfudegi. Verðbætur fram til 1. janúar 2008 fylgi verðbólgu, en eftir það komi 4% verðbótaþakið.
að veð takmarkist við þá eign sem sett er að veði (og skiptir þá ekki máli hver eignin er)
samfélagslega ábyrgð lánveitenda
að ekki sé hægt að elta fólk ævilangt vegna skulda heldur virki fyrningarfrestur þannig að skuld fyrnist við lok hans. Það er út í hött, að hægt sé að rjúfa fyrninguna endalaust og halda fólki þannig í ævilöngu skuldafangelsi.
Við teljum að ávinningur af þessum aðgerðum verði:
Fjöldagjaldþrotum heimilanna og stórfelldum landflótta er afstýrt
Unnið er gegn frekara hruni efnahagskerfisins
Jákvæð áhrif á stærðar- og rekstrarhagkvæmni þjóðarbúsins
Líkurnar á að hjól atvinnulífsins og hagkerfisins haldi áfram að snúast aukast, þar sem fólk mun hafa ráðstöfunartekjur til annarra útgjalda en afborgana af íbúðum
Þjóðarsátt skapast um vanda heimilanna vegna efnahagskreppunnar
Traust almennings í garð stjórnvalda og fjármálastofnanna eflist á ný
Við teljum að ofangreindur ávinningur skili mun meira í þjóðarbúið og til fjármálafyrirtækja, en hin leiðin. Ástæðan er einföld: Vegna lækkandi húsnæðisverðs munu lánveitendur hvort eð er þurfa að afskrifa háar upphæðir. (Raunar er þegar farið að reikna slíkt inn í virði lánasafna nýju bankanna.) Við sjáum ekki muninn á því að núverandi eigendur, sem margir hafa verið tryggir viðskiptavinir fjármálafyrirtækjanna (og forvera þeirra) í áratugi, njóti þessara afskrifta eða að einhverjir aðrir njóti þeirra. Við teljum að það sé mikilvægara fyrir viðskiptabankana og sparisjóðina að halda viðskiptavinum sínum með því að koma til móts við þá, en að hrekja þá í burtu, þess vegna úr landi. Það er nefnilega það sem gerist, ef gjaldþrotaleiðin verður farin.